Ásgrímur frændi skrifaði svo fallega á fb. um Angantý Einarsson, föður sinn og föðurbróður minn (f. 1938), sem lést á aðfangadag 2019:
„Nú er pabbi látinn eftir löng og erfið veikindi. Við vorum nánir og kærir vinir og ég er innilega þakklátur fyrir að hafa átt hann að. Hann veitti mér rausnarlega af tíma sínum; kom mér á sporið í tónlistinni, vakti mig til vitundar um fegurð og blæbrigði tungumálsins og stuðlaði að áhuga mínum á stjórnmálum, skák, veiðiskap og fjallgöngum svo að eitthvað sé nefnt. Hann nennti endalaust að hlusta á mig, allt frá því að ég man fyrst eftir mér, hældi mér óspart fyrir það sem ég gerði vel – án þess þó (vonandi!) að það leiddi til alvarlegs ofmats – og hafði einstakt lag á að leiðbeina mér á uppbyggilegan hátt um það sem betur mátti fara. Hann hafði alla tíð sterka réttlætiskennd og var eins og áttaviti í vinstripólitík og umhverfismálum. En hann var fyrst og fremst kærleiksríkur og skemmtilegur pabbi.
Hér á eftir fer samantekt um æviferil hans (væntanleg í blöðum á útfarardaginn), fyrir þá sem hafa þrek og úthald til að lesa rúmlega 400 orð í viðbót!
Angantýr Einarsson fæddist á Hermundarfelli í Þistilfirði 28. apríl 1938. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri 24. desember 2019. Útför hans verður gerð frá Akureyrarkirkju 6. janúar, kl. 10.30.
Foreldrar hans voru Guðrún Kristjánsdóttir frá Holti í Þistilfirði, f. 16.8. 1917, d. 5.7. 2017, og Einar Kristjánsson frá Hermundarfelli, f. 26.10. 1911, d. 6.7. 1996. Systkini Angantýs eru Óttar, f. 3.10. 1940, d. 7.2. 2013, Bergþóra, f. 21.3. 1944, Hildigunnur, f. 17.6. 1947, d. 27.5. 1987, og Einar Kristján, f. 12.11. 1956, d. 8.5. 2002. Eftirlifandi eiginkona Angantýs er Auður Ásgrímsdóttir, f. 15. janúar 1946. Foreldrar hennar voru Ásgrímur Hólm Kristjánsson frá Skoruvík á Langanesi, f. 25.3. 1913, d. 6.7. 1987, og Helga Margrét Haraldsdóttir, f. á Skálum 26.6. 1926, d. 28.6. 2002. Angantýr og Auður eignuðust fjögur börn. 1) Halla, f. 8.11. 1964. Börn hennar eru Einar Höllu Guðmundsson, Þórhalla Ásgeirsdóttir og Angantýr Ómar Ásgeirsson. 2) Hlynur, f. 7.6. 1967, í sambúð með ÖlmuDís Kristinsdóttur. Börn hans eru Auður Tinna, Íris Ösp, Elmar Blær og Margrét Bylgja. AlmaDís á tvö börn, Sindra Þór og Diljá Nönnu. 3) Ásgrímur, f. 3.8. 1972, unnusta Harpa Heimisdóttir. Dætur hans eru Auður og Björk. 4) Einar, f. 21.9. 1974, d. 29.5. 1979. Barnabarnabörn Angantýs og Auðar eru níu talsins.
Angantýr ólst upp á Hermundarfelli til átta ára aldurs en flutti þá til Akureyrar. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, var við nám í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands 1958‒61, tók kennarapróf frá Kennaraskóla Íslands 1962 og stundaði stærðfræðinám við sama skóla 1971‒72. Angantýr var kennari á Þórshöfn 1960‒61, 1962‒63 og 1964‒67, skólastjóri í Skúlagarði í Kelduneshreppi 1963‒64, og við Grunnskólann á Raufarhöfn 1968‒78, kennari þar 1979‒94, skólastjóri við Litlu-Laugaskóla 1994‒99, kennari við Grunnskólann á Þórshöfn 1999‒2001 og í afleysingum þar í nokkur ár eftir það. Á löngum starfsferli kenndi hann raungreinar, íslensku, erlend mál, samfélagsgreinar, íþróttir og tónmennt og var nær jafnvígur á allt. Hann var ritari fjárveitinganefndar Alþingis 1958‒59, erindreki hjá Alþýðusambandi Norðurlands 1967‒68 og tölvuforritari hjá ACO 1978‒79. Auk þess stundaði hann margvísleg störf á sumrin, m.a. handfæraveiðar, grenjavinnslu og verkstjórn erlendra sjálfboðaliða. Angantýr sat í hreppsnefnd Raufarhafnarhrepps 1970‒78 og 1990‒94 og var þá oddviti og formaður stjórnar Fiskiðju Raufarhafnar, sat í sýslunefnd 1966‒70, gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sósíalistaflokkinn og Alþýðubandalagið og sinnti fjölmörgum öðrum félagsstörfum. Angantýr lék á píanó, gítar og harmonikku og hafði mikinn áhuga á útivist og veiðiskap, skák, bridge, ættfræði, íslensku máli og bókmenntum. Hann lærði líka esperantó og spænsku á fullorðinsárum. Þá er ónefndur skógurinn sem hann ræktaði á fæðingarstað sínum, Hermundarfelli.“
Blessuð sé minning Agga föðurbróður míns. Hann og pabbi voru bestu vinir og milli systkinanna allra var einstakt kærleikssamband.
❤