Ferðalög

Aðallega fjallabílaferðir

„Pabbi“ reiður

Fallegur dagur á Vatnsleysuströnd

Fallegur dagur á Vatnsleysuströnd

Fallegur sunnudagur er brátt á enda, þorskflak í ofni og hrísgrjón krauma í skálduðum potti, hundslappadrífa liðast niður og Sommer er i fjernsynet i aften.

Við fengum okkur göngutúr á ströndinni í blíðunni í dag, Arwen til mikillar gleði en hún fékk að hlaupa og leika sér, laus og liðug. Hún er byrjuð með stæla þegar hún á að fara inn í bíl eftir útivistina, á fimmtudaginn vorum við á Nesjavallaleið og þá stakk hún hreinlega af, brokkaði bara framhjá og þóttist ekkert vilja með okkur hafa. Þá var nú „pabbi“ reiður. En nú settum við ólina á hana í tæka tíð svo hún komst ekki upp með neitt múður en hún reyndi það samt. Þótt hún sé falleg og blíð og mörgum kostum búin, hefur hún allmarga ósiði sem þarf að venja hana af.  Til dæmis: að gelta og ryðjast niður stigann þegar dyrabjöllunni er hringt, að gelta að því sem hún sér út um gluggann, væla og sífra um athygli, að ýlfra í bílnum þangað til barið er bylmingshögg í búrið, að hlýða skipunum ekki alveg strax, að reyna að stjórna og toga í ólina í gönguferðum og gelta í tryllingi á  hunda og ketti sem verða á vegi hennar. Það er ærinn starfi framundan.

 

Gengið á Helgafell

Hressandi fjallganga

Helgafell í Hfj.

Nú er meiningin að halda sér sprækum á árinu með útivist og góðri hreyfingu. Fyrsta fjallganga ársins var á sunnudaginn, á Helgafell við Kaldársel í Hafnarfjarðarlandi (293 mys). Frænkur mínar, Unnur og Oddný, gengu með mér, báðar alræmdar fjallageitur. Ganga á Helgafell er 5,6 kílómetrar skv. göngumælinum sem ég fékk í jólagjöf frá Brynjari, tekur ca. einn og hálfan til tvo klukkutíma og er þægilegur sunnudagsrúntur á troðnum stíg með góðu útsýni. Á eftir var bollukaffi hjá Þuru systur, ekki amalegt.

Sumardagur í Þórsmörk

Hvilik náttúrufegurð!

Mynd til að orna sér við á köldum vetrardegi

Í sumar kom ég í Þórsmörk í fyrsta sinn á ævinni (já, hvað með það?  Margir Sunnlendingar hafa aldrei komið í Ásbyrgi). Það er algjör paradís á jörð, allavega meðan sólin skín. Um nóttina voru hins vegar einhverjir  íslenskir fulltrúar ungu kynslóðarinnar sem tóku að sér að sjá um að leika danslög til klukkan fimm að morgni, s.s. með gettóblaster og risahátalara , allt í botni bæði aðfararnótt laugar- og sunnudags. Og ruslið sem þetta lið skildi eftir sig þegar það loksins skreið upp í jeppann hans pabba síns seinnipartinn á sunnudag til að  halda heim á leið, það var algerlega til skammar. Ég hvet alla unga sem aldna ferðamenn að ganga ávallt vel um landið okkar og sýna öðru fólki tillitsemi í allri umgengni.

Afrek ársins

Þegar ég lít yfir árið 2008 stendur upp úr ferðalagið okkar um landið í húsbílnum í sumar, ekki síst hið mikla afrek að hafa staulast yfir Fimmvörðuháls (frá Skógarfossi yfir í Þórsmörk) á björtum júlídegi. Þetta er 22 km ganga og fyrsti hluti leiðarinnar er sagður ein fegursta gönguleið í heimi en farið er framhjá mörgum fögrum fossum. Heiðar Ingi stjórnaði leiðangrinum enda í fantaformi. Við vorum um 9 klst. að paufast þetta og vorum örþreytt en alsæl þegar við komum í Mörkina. Meiri háttar þrekraun!

Heiðar blæs ekki úr nös

Heiðar blæs ekki úr nös

Ég kem af fjöllum

Veðrið var svo gott á laugardaginn að við Brynjar ákváðum að fara í enn eitt ferðalag á húsbílnum (japönsk jen og svissneskir frankar). Við ákvaðum að fara stutt, ókum upp í Mosfellssveit og þaðan í Móskarðshnjúka,  líparítfjöll austan við Esjuna, vinsæl gönguleið og fjallganga. Við gengum upp bratta hnjúkana í sól og blíðu (ca 800 mys), sveitt og móð en afskaplega ánægð með okkur. Enginn var þarna á ferli, náttúrufegurð mikil og útsýni gott auk yndislegrar kyrrðarinnar. Í fjallshlíðunum var krökkt af berjum og rjúpur flögruðu um í hópum. Um kvöldið voru grænmetisbuff hituð á pönnu og saffranhrísgrjón soðin og matnum var skolað niður með einstaklega góðu rauðvíni, Glen Carlou 2005 Tortoise Hill Red. Í myrkrinu blikuðu stjörnur og norðurljós en ljóssúlan í Viðey reis þráðbeint upp í loftið og minnti okkur á mikilvægi ástar og friðar í heiminum.

Ást og friður

Ást og friður

Haustverkin

Algjört frelsi

Algjört ferðafrelsi

Nú er kominn tími til að ganga frá húsbílnum og gera hann kláran fyrir veturinn en hann mun standa í þurri og fínni skemmu á Suðurlandi þar til fer að vora á ný. Allt var þrifið og skúrað út úr dyrum í gær. Ég hafði lengi veika von um að hægt væri að fara eina haustferð í október er veðurútlitið er ekki bjart. Við fórum víða í sumar og ferðasagan mun birtast hér á síðunni innan skamms. Svimandi hátt olíuverð gerir reisu um Ísland álíka dýra og mánaðardvöl á sæmilegu hóteli á heita Spáni en að ferðast um okkar fagra land er bara svo miklu skemmtilegra.