Varla er maður fyrr búinn að lesa síðasta nóbelsverðlaunahöfund þegar búið er að tilkynna þann næsta, hinn franska Modiani sem vonandi verður þýddur sem allra fyrst. Þangað til er hægt að orna sér við smásögur Alice Munro, sem hreppti nóbelinn 2013 en þær komu nýlega komu út í öndvegis þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur. Seint verður þýðendum fullþakkað sem ekki aðeins búa yfir geysilegri færni á móðurmáli sínu heldur einnig annarri þjóðtungu og leggja á sig ómælda vinnu við að færa íslenskum lesendum bókmenntir á heimsmælikvarða. Í fróðlegum eftirmála gerir Silja stutta grein fyrir ævi- og skáldferli Alice Munro (f. 1931). Þar segir m.a. að Lífið að leysa (Dear Life) sé 14. og nýjasta bók hennar en Munro hefur tilkynnt að hún sé jafnframt sú síðasta.
Í bókinni eru 10 sögur og 4 þættir sem Munro segir að séu „sjálfsævisögulegar í anda þó að ekki séu þær endilega að öllu leyti sannar“ (271). Sögur hennar láta lítið yfir sér í fyrstu, eru óhefðbundnar í byggingu og tíminn hvikull. Þær gerast í kanadískum smábæjum, persónurnar eru venjulegt fólk sem enginn tekur eftir á götu, stundum er brugðið upp einu augnabliki í lífi persónu, stundum er rakin þroskasaga en oftast gerist það ekki sem maður á von á í sögunni eða óttast mest. Ástin er algengt umfjöllunarefni sem ýmist tengist hjónabandi, framhjáhaldi, skömm og/eða einmanakennd. Samskipti persónanna einkennast oft af vandræðagangi, feimni, bælingu og sekt. Þótt sögur Munro virðist einfaldar á yfirborði eru þær hvorki einfaldar í endursögn, túlkun eða greiningu. Þær kalla á djúpan lestur, aftur og aftur.
„Að skrifa þetta bréf er eins og að stinga bréfi í flösku – og vona að það komist til Japan“ (18) segir í fyrstu sögunni í smásagnasafninu. Lesandi fær í upphafi innsýn í hjónaband Peters og Gretu sem eru afar ólík. Hún er rómantískur sveimhugi og ljóðskáld en hann jarðbundinn og yfirvegaður, hún þráir alltaf eitthvað en er þó oftast sátt við áreiðanlega væntumþykju hans (18). Hún er á leið í stutt frí með dóttur sinni þegar sagan hefst. Í lestarferðinni týnist stelpan meðan Greta stingur sér í koju hjá samferðamanni. Skelfing grípur hana, sektarkenndin gagnvart eiginmanni og barni nístir hana. „Synd. Hún hafði verið með athyglina annars staðar. Einbeitta, gráðuga athygli á öðru en barninu. Synd“ (33), hugsar hún. Dóttirin finnst svo á táknrænum stað, á milli tveggja lestarvagna. En Greta er komin að þolmörkum, eirðarleysi og þrá reka hana áfram og nú þarf hún að marka sér nýja stefnu í lífinu; velja milli þess sem hana langar mest til að gera eða þess sem er barninu fyrir bestu.
Amundsen er einkar eftirminnileg saga og hefur mörg höfundareinkenni Munro. Ung kennslukona byrjar að vinna á berklahæli fyrir börn á hjara veraldar þar sem landslagið er eins og í rússneskri skáldsögu (40). Hún er á kuldalegum stað (eins og titill sögunnar gefur til kynna), það er kalt í herberginu hennar, maturinn er kaldur og rúmteppin fyrir sjúklingana eru örþunn, henni til mikillar furðu. Hún verður ástfangin af lækninum sem eldar frosinn skyndimat handa henni, hrifsar hana til sín, hyggst giftast henni en hrekur hana svo á brott. Frásögnin af því þegar hann slítur trúlofuninni, þar sem þau sitja í bílnum hans, er í undarlegri tímaröð og áherslan er lögð á hvernig rödd hans og fas breytist eftir að sendiferðabílstjóri bankar í bílgluggann á viðkvæmu augnabliki. „Það sem hann var að segja þá var hræðilegt en það var þjáning í föstum tökum hans á stýrinu, hvernig hann greip um það, hvað hann var viðutan og í röddinni. Hvað svo sem hann hafði sagt og meint þá kom það djúpt úr huga hans, úr sama stað og þegar við vorum saman uppi í rúmi. En það á ekki við lengur, eftir að hann hefur talað við annan karlmann. Hann skrúfar upp rúðuna og beinir athygli sinni að bílnum, bakkar honum út úr þessu þrönga stæði og passar að rekast ekki á sendiferðabílinn“ (68).
Í sögunni birtast ólíkir heimar karla og kvenna. Hávaðasömum skógarhöggsmönnum og viskíþambandi verksmiðjukörlum bregður fyrir, „á kafi í sinni karlaveröld, argandi sínar eigin sögur, ekkert að leita að konum“ (48). Kennslukonan les klassískar skáldsögur í sínum þrönga, sótthreinsaða heimi, börn deyja og á kaffihúsinu er ekkert klósett fyrir konur. Heimur karlanna einkennist af styrk og samstöðu en í veröld kvennanna ríkir sundrung og vanmáttur. Í „kvennabiðsalnum“ á lestarstöðinni birtist hópur æpandi miðskólastúlkna og þar á meðal Mary, sem kennslukonan kynntist í byrjun sögunnar og sveik loforð sitt við, en Mary „… hefur ekki gleymt. Bara pakkað atvikinu saman og gengið frá því inni í skáp hjá annarri fortíð. Eða kannski er hún ein af þeim sem ræður svona vel við auðmýkingu“ (72). Sjálf er kennslukonan nú svikin og auðmýkt. Löngu seinna rekst hún á lækninn á förnum vegi eins og hún hafði átt von á árum saman. „Ennþá var eins og við gætum komið okkur út úr þessari mannþröng, eins og við gætum eftir augnablik verið saman. Samt viss um að við myndum halda áfram hvort í sína átt. Og það gerðum við“ (73).
Það væri hægt að skrifa langar og lærðar grein um hverja einustu sögu Munro í þessu verki því þær eru allar áleitnar og djúpar. Sjálfsævisögulegu þættirnir fjórir eru mjög áhrifamiklir, ekki síst út frá sálgreiningarsjónarmiði. Móðir Munro veiktist ung af Parkinsonveiki og hún var ekki nema níu ára þegar húsmóðurstörfin lentu á hennar herðum. Hún slapp aldrei alveg frá móður sinni og kveljandi samviskubitinu yfir að hafa farið frá henni til að gera það sem hana sjálfa langaði til; að læra og skrifa (339). Togstreitan milli skyldu og sköpunarþrár er ennþá hlutskipti margra skáldkvenna.