bókmenntagagnrýni

„Ekkert kann ég fyrir mér nema krossmarkið“

Þóra Jónsdóttir frá Laxamýri hefur sent frá sér samtals níu ljóðabækur auk ljóðaþýðinga og einnar ævisögu. Fyrsta ljóðabók Þóru kom út 1973, Leit að tjaldstæði, og fékk góða dóma gagnrýnenda og ljóðaunnenda. Ekki hefur samt mikið farið fyrir Þóru eða verkum hennar í bókmenntaumræðunni, hvernig sem á því stendur. Víst er og margtalað að skáldkonur njóta ekki allar sannmælis og athygli á við karlskáld burtséð frá hæfileikum og afköstum og á það örugglega við um Þóru.

Bók hennar, Hversdagsgæfa (2010), er allrar athygli verð. Henni er skipt upp í sex hluta sem kenndir eru við viðfangsefni hvers þeirra: Sveitin, Naflastrengurinn, Borgin, Hringferð, Manneskjur og Undur; kunnugleg yrkisefni úr fyrri bókum höfundar. Hér eru á ferð mislöng minningabrot eða ljóðrænar örsögur; beinar hversdagsmyndir og skýrt myndmál um náttúru, hlutskipti kvenna, tímann og tilveruna.

Í sveitaljóðum Þóru er ekki að greina beinlínis söknuð eftir horfnu samfélagi eða fornum búskaparháttum, heldur ber mest á stritinu. Þar segir m.a. af vinnukonu sem í 30 ár hafði m.a. „þann starfa að fela eldinn að kvöldi og taka hann upp fyrir allar aldir. Smávaxin, lotin kona með fortíð sem hún ræddi ekki og lést á bænum frá hlutskipti sínu“ (8). Sagt er frá dúntekju á mjög ljóðrænan hátt, ásamt veiðiskap og hröktu heyi á köldu sumri.

Í kaflanum Naflastrengur er fjallað um fjölskyldubönd, ungbörn og átthagafjötra með nokkrum trega. Ferð er áberandi þema úr fyrri bókum Þóru og hér eru einnig nokkrar stuttar ferðasögur sem tengjast „minningum sem eru styggar og láta sig hverfa jafn ótt og þær birtast“ (47). Sögurnar einkennast af óvæntum atburðum og frelsisþrá.

Í borgarmyndum Þóru er einsemd og reiðuleysi, stakur hanski fýkur á gangstétt, „helmingur af pari, báðir glataðir ef þeir skiljast að“ (31). Þar eru góðar konur sem hengja upp þvott, hjúkra eða keyra strætisvagna og afbrýðisamar konur sem gruna jafnvel hjálpsama vinkonu um græsku. Og hverfulleikinn gerir vart við sig, fólk kemur og fer og tíminn líður: „Ég tek að hugleiða bústaðaskipti. Það sem heldur fastast í mig er litla herbergið í kjallaranum sem birtan leikur um. Birta eitt sinn skilin eftir sem gjöf“ (38).

Í kaflanum Manneskjur gerast óvæntir atburðir, það er t.d. bankað upp á einn daginn og lífið verður aldrei samt aftur. Ástarsambönd, krossgötur og hlutskipti kvenna eru yrkisefni Þóru í þessum bókarhluta og á þeim er tekið af yfirvegun og æðruleysi. Síðasti hluti bókarinnar, Undur, er myndrænni og frjálslegri en hinir og þar er m.a. lausleg tenging við ævintýri og þjóðsögur. Í lokaljóði bókarinnar ríkir einsemd og sú tilfinning að eiga hvergi heima, álfkonan sem vildi búa meðal manna situr alein í eldhúsi sínu og tilheyrir hvorki mannheimi né náttúru álfa lengur (81).

Ágengt þema bókarinnar í heild er hlutskipti kvenna og rödd sögumanns einkennist einnig af samkennd með þeim sem minna mega sín, þeim sem draga ávallt stysta stráið (29). Í Hverdagsgæfu eru kvennasögur, um mæður, eiginkonur og vinkonur. Ekki baráttutextar eða brýningar heldur minningabrot og myndir þar sem konur eru aðalpersónur. Bestu sögurnar eru í bókarlok þar sem losað er um jarðtenginguna, þegar draumar og fantasía taka völdin af hversdagsleikanum:

Hús með meiru

Aldrei hefði leið mín legið á þessar slóðir ef í húsinu

byggi ekki fólk sem mér er hjartfólgið. Grimma

varðhundana þeirra hef ég vingast við. Þjakandi hitann,

svo og krákurnar sem hafa drauma manns í flimtingum

í morgunsárið, hlýt ég að sætta mig við. Sama gildir um

hrottafenginn hlátur þrumunnar og merkjamál

eldinganna fyrir skýfallið. Aðvörun um hvirfilvinda er

vert að taka mark á. Mýflugan suðar um leið og hún

stingur þar sem maður situr í forsælu af tré. Eitt finnst mér

ekki með felldu. Ég vaki allar nætur milli tvö og

fimm, hversu þreytt sem ég er. Í nótt dreymdi mig

nokkuð sem kom mér í uppnám. Mig grunar að

slæðingur sé í húsinu. Ekkert kann ég fyrir mér nema

krossmarkið.

(80)

Birt á skáld.is, 27 júlí 2021

„Minnisvarði um eitthvað sem eitt sinn var“

Guð leitar að Salóme en Salóme leitar að kettinum sínum og skrifar bréf til Helgu en tíu ár er liðin síðan ástarsambandi þeirra lauk með látum. Síðan hafa þær ekki sést. Loksins herðir Salóme sig upp í að krota fortíð sína, sem hún hefur byrgt inni, á kisubréfsefni og senda Helgu eitt bréf á dag, frá 1.-24. desember árið 2010. Þetta er umgjörð frumlegrar bréfaskáldsögu Júlíu Margrétar Einarsdóttur, ástar- og raunasögu úr rammíslenskum aldamótaveruleika, í fjólubláu bandi prýdd grænum glugga með mynd af rúllustiga.

Saga Salóme er samofin sögu formæðra hennar á Akranesi, ömmunnar blíðu sem missti ung manninn sinn, gleðipinnann Pétur, sjómann og tásuskrýmsli sem endalaust nennti að leika við rauðhærðar tvíburadætur sínar, Stellu, móður Salóme, og Láru. Sviplegur dauði hans og meint heimsókn hans framliðins um nótt varð til þess að samband tvíburasystranna rofnaði harkalega og þær héldu hvor í sína áttina. Stella hitti síðan sæta organistann, og Salóme ólst upp við rifrildi, reiðiköst og alkóhólisma sem setja mark sitt á hana, auk eineltis í skóla. Bæði hún og Pétur bróðir hennar eru sködduð eftir meðvirkt uppeldi og trúarinnrætingu föðurins.

Salóme er brotin, hirðulaus „ljósmyndastelpa“ og lúði af Skaganum, eins og hún lýsir sér sjálf, í íþróttagalla og rifinni kápu. Þegar hún flytur að heiman og fær vinnu í búð í Kringlunni kemur „klikkhausinn“ Helga inn í líf hennar og frelsar hana frá einsemdinni. Salóme tekur upp nýtt nafn til að lappa upp á sjálfsmyndina og hefja betra líf í búðinni Betra líf. Í kringum Helgu er djamm, uppátæki og leikir en líka geðsveiflur og sorgardrungi. Þessar týndu sálir sameinast í heitri ást sem heillar Salóme en skömmin er alltaf skammt undan. Samkynhneigð er ekki samþykkt. Og áfram heldur dramað á Skaga, eineltið hættir ekki, systrasambandið lagast ekki og hræðilegur atburður frá því Salóme var 11 ára gleymist ekki.

„Mér fannst svolítið eins og við þræddum í gegnum óraunverulegar minningar, eins og Akranes væri kvikmyndasett um nótt þegar búið væri að slökkva á myndavélinni og allir farnir heim. Minnisvarði um eitthvað sem eitt sinn var, væri ekki lengur raunverulegt, og yrði vonandi aldrei aftur“ (304).

Guð leitar að Salóme er margslungin saga um sársauka og skömm, örlög og erfið samskipti. Sögutíminn er heillandi, um aldamótin síðustu voru samfestingar í tísku, geisladiskar seldir í Skífunni, Myndbönd mánaðarins komu út, stuðið var á Astró, Kóklestin brunaði og BT músin brá á leik. Sögusviðið er sömuleiðis heillandi, þorpið með slúðri og smásálum. Júlía Margrét hefur þetta allt á valdi sínu.

Ástin á sér margar birtingarmyndir en andstæðan við hana er skeytingarleysi (366), það sem ógnar öllu mannlífi. Salóme ætlar að taka af skarið þegar síðasta bréfið hefur verið skrifað, þegar áratugur hefur liðið frá því ástin hvarf úr lífi hennar. Lesendur verða að finna út hvort það er orðið of seint.

Birt á skáld.is, 21. nóvember 2021

„Að búa við farsæld og kynlíf í standard lofthæð“

Óhætt er að segja að bókmenntaumræðan sé fjörug í fjölmiðlunum um þessar mundir. Bergsveinn Birgisson sakar nú Ásgeir Jónsson um ritstuld og Guðmundur Andri er ekki hrifinn af hugmynd Braga Páls um að drepa Arnald Indriðason í samnefndri bók. Einnig spunnust umræður um Systu megin eftir Steinunni Sigurðardóttur sem fjallað var um í Kiljunni nýverið. Þeir Árni Óskarsson og Þorleifur Hauksson skrifuðu grein í Fréttablaðið um að umfjöllunin hefði verið villandi í þættinum, sem Þorgeir Tryggvason svaraði síðan á facebook-síðu sinni. Það er gaman að sjá að enn ólgar blóð í bókmenntaþjóðinni og að fólk nenni að hafa skoðun á skáldskap.

Dolludrós

Umrædd og umdeild bók Steinunnar, Systu megin, fjallar um konu rétt skriðna yfir þrítugt sem lifir undir fátæktarmörkum og utan bótakerfis í ömurlegri kjallaraholu í Reykjavík (mynd á bókarkápu). Hún dregur fram lífið með dósasöfnun og ruslatunnuróti og þarf að velta fyrir sér hverri krónu. Sagan gerist um jól, á einum af þeim tímapunktum ársins þar sem fólk finnur sárast til fátæktar sinnar. Systa man betri daga með gleðilegum jólum á Fjólugötunni og sveitasælu í Fljótshlíð sem gerir hlutskipti hennar síst betra þótt hún orni sér við minningarnar. Ljóst er af þeim hugrenningum að ferlíkið móðir hennar hefur líklega átt við andlega erfiðleika að glíma, kannski afleiðingar skorts í bernsku, og faðirinn var oft fjarverandi á sjónum en sinnti Systu og litla bróður af alúð þegar hann var í landi uns hann féll frá þegar Systa var 14 ára. Eftir það gekk hún Brósa sínum í foreldrastað; „en hver gekk mér í hvaða stað?“ spyr hún sjálfa sig í allsleysi sínu og einstæðingsskap (63).

„Þegar ég velti Mömmu fyrir mér, sem ég geri nú helst sem minnst af, þá verður ekki hjá þeim sannleika komist að þetta er nískasta manneskja sem uppi hefur verið í samanlagðri heimskristninni. Leið hann Faðir minn sálugi mjög fyrir það, sérstaklega að Mamma sparaði ekki bara við okkur alsystkinin í mat heldur líka í klæðnaði. Áttum við Brósi bró tæpast til skiptanna á köflum.“

Af hrakningum sínum í lífinu hefur Systa fengið þá hugmynd að hún eigi sér tæplega tilverurétt; „einstaklingur eins og ég“, „dolludrós“ og „dósasysturafmán“ sem „á auðvitað ekki að sjást.“ Löngum hefur verið horft í aðra átt þegar rætt er um fátækt á Íslandi og helst viljum við sem minnst af henni vita en hún er sannarlega skammarblettur á okkar ríka samfélagi. Systa lítur svo á að tilveran sé takmörkuð, „Mín tilvera auðvitað alveg sérstaklega, sem kemur til af mínum eigin takmörkunum“ (87). Hana langar í barn, hana langar til að vera snert en hvorugt hlotnast henni. Vitað er að fátækt brýtur sjálfsvirðinguna niður og það má glöggt sjá af reynslu, aðstæðum og sjálfsmynd Systu. En saga hennar er sögð án biturðar, án reiði, án fordæmingar.

Aðlögunarhæfni er það sem hefur skilað mannkyninu áfram í lífinu og sannarlega hefur Systa allar klær úti til að afla sér lífsbjargar. Dregin er upp sérlega íronísk mynd af útsjónar- og nægjusemi Systu. Hún sér tækifæri í óborguðu kaffi, almenningssalerni, bóklestri á bókasafninu og ábót á súpuna, hún áttar sig á mikilvæginu sem felst í „orkugjöf sykurmolans“ og happinu í að komast yfir „torfengnar hitaeiningar.“ Dapurlegt og meinfyndið í senn.

Fjárfest í kjötsúpu

Fornlegur stíll og einstakur húmor skapa í sögunni spennuþrungið tvítog, nístandi íroníu sem Steinunn hefur svo gott vald á. Orð eins og samastaðarígildi, plús, markaðsverð, á ársgrundvelli, þvottaefnisútgjöld, skortur á loftgæðum, fjárfesting í kjötsúpu, vítamínstatus og næringar- og stoðkerfisástand sem Systa notar til að lýsa aðstæðum sínum hljóma eins og úr munni hagfræðings eða stjórnmálamanns sem talar í frösum í fjölmiðlum. Kafli sem ber heitið Næringarkerfið lýsir því hvað Systa borðar allan ársins hring og er í senn meinhæðinn og sárgrætilegur, uppsettur eins og næringarfræðileg matardagbók sem þó inniheldur alltof lítið af mat og bætiefnum.

„Alla daga, hafragrautur. Á laugardögum með eplabitum úr hálfu epli, þegar markaðsverð er hagstætt. Á sunnudögum með hinum helmingnum af eplinu. Grautur soðinn með kanil, ef birgðastaða á kanil leyfir.“

Særð systkini

Undirtitill sögunnar er leiksaga, formið er brotið upp með leikþáttum og persónur bresta jafnvel í söng. Brotin eru í anda absúrdisma og þar sér lesandinn aðstæður Systu í mun grimmdarlegra ljósi en í sögunni. Þar koma m.a. fram hið hrokafulla og loðpelsaklædda jólafólk sem er skeytingarlaust um aðbúnað annarra og þrælahaldarinn Ketill sem ásælist starfskrafta og frelsi Systu. Önnur absúrd sögupersóna er einfætta hárgreiðslukonan Lóló sem „stendur höllum fæti í sömu sporum“ (47); útigangskona sem hefur misst allt og er enn verr sett en Systa. Styttan af Mömmu birtist af og til með miklar skoðanir framtíðaráformum Systu. Þar er líka samtal „særðra systkina“ (132), þar sem draumar eru byggðir upp og rifnir jafnóðum niður svo sker í hjartað.

„Ég veit að margt er það í lífi venjulegs fólks sem ég ber ekki skynbragð á, svosem það að búa við velsæld og kynlíf í standard lofthæð, en það er líka margt sem almenningur mundi ekki átta sig á í mínu lífi“ (121) segir Systa. Fátæktin er söm við sig, hvort sem hún stafar af nísku, andlegri og líkamlegri, eða misskiptingu auðsins sem skapast í þjóðfélaginu. Systa og Brósi voru vanrækt sem börn, svelt og neitað um ást og snertingu. Það hefur sínar afleiðingar, Systa er skorturinn uppmálaður, Brósi lætur allt yfir sig ganga fyrir ástina. Það versta sem til er hjá mannkyni er níska og skeytingarleysi.

„Ef ég ætti peninga held ég að ég mundi reyna að gera öðrum gott og gauka að lítilmagna eins og sjálfri mér“ (155) segir Systa og er gott að hafa þetta í huga í allsnægtunum.

Birt fyrst á skáld.is, 11. des. 2021

Ofurfínlegt lítið ljóð…

komdu

fylltu hús mitt litum heitum

hlæjandi litum

kyntu rauðan eld brenndu mig

 

ein skínandi perla

ein stund af lífi

handan hversdagsleikans.

 

Langt úr fjarska yljar hann nú

unaður þess sem aldrei gerðist.

segir Unnur Eiríksdóttir í ofurfínlegu litlu ljóði, Úr fjarska, sem engu að síður segir margt um kvæðalag hennar. Sannleikurinn er sá að yrkisefni, orðfæri hennar má ekki verða rómantískt um of (Jónsvökudans, Logar), þarf á að halda efnivið verulegrar reynslu og tilfinningalífs til að takast til hlítar. Ekki lætur henni heldur alls kostar að yrkja út af „vandamálum“ heims og mannlífs, pólitískum tilefnum (Martin Luther King, Lúmúmba, Víetnam) þótt hún freisti þess í þriðja þætti bókarinnar, ljóðum sem i sjálfu sér eru allvel gerð.

Ólafur Jónsson (1936-1984), fjallaði um ljóðabók Unnar Eiríksdóttur, Í skjóli háskans (1971), í Vísi, 1. febrúar 1972 og sagði henni í leiðinni aðeins til.  Ég velti hins vegar fyrir mér hvað það er sem er ofurfínlegt og lítið í þessu samhengi, þetta er reyndar ekki ljóð eftir Unni heldur brot úr þremur ljóðum hennar. Svo heldur hann áfram:

„Unnur Eiríksdóttir hefur áður birt skáldskap, Ijóð og sögur, í blöðum og tímaritum, og ein skáldsaga eftir hana held ég að hafi komið út, Villibirta, árið 1969. Sú bók fór framhjá mér á sínum tíma. En Ijóð hennar, Í skjóli háskans, er einkar viðfelldinn lestur, vandaður og smekklegur texti það sem hann nær: Unnur reynist einn af þeim höfundum er maður hefur af lauslegan pata úr blöðum en kemur reyndar á óvart í bókarlíki.“

Unnur (1921-1976) sendi svo frá sér smásagnasafnið Hvítmánuð 1974 sem fékk litla sem enga umfjöllun. Helstu yrkisefni Unnar eru konur, samskipti, sambönd, frelsi og tilvist.

Hún þýddi m.a. Friedrich Durrenmatt, Jean Paul Sartre og Colette.

Hér má lesa þrjú ljóð eftir Unni og smásöguna Konan og dagurinn, sem birtist í 19. júní 1976.

Screen Shot 2018-03-04 at 10.34.54

Unnur Eiríksdóttir

 

 

Skíta-Grænlendingur segir frá

KimLeine

Kalak eftir Kim Leine (f. 1961) er afar óvenjuleg bók. Kannski er þetta skáldsaga eða þroskasaga að einhverju leyti en miklu líklegar þó (skáld)ævisaga eða endurminningar, ef marka má það sem höfundurinn segir sjálfur. Í það minnsta er Kalak bersögul og afdráttarlaus saga þar sem lestir og brestir sögumanns eru dregnir fram af sjaldséðu miskunnarleysi. En það sem heillar mest eru framandi staðhættir sögunnar sem gerist að mestu leyti á Grænlandi. Kynþáttafordómar og nýlendukomplexar krauma meðan leiftrum bregður fyrir af grandalausri þjóð sem undir merkjum kristni og skandinavískrar velferðar var varpað úr hlýjum snjóhúsum inn í gráar og kaldar steinsteypublokkir meðan auðlindir hennar voru mjólkaðar.

Norður-Grænland liggur í dimmum skugga vetrar. Sólarupprás rennur saman við sólsetur án þess að nokkur dagur hafi orðið. En þegar sólin nálgast sjóndeildarhringinn byrjar hafið að ljóma og suðurhiminninn deilist upp í mörg lög af litum. Rautt, appelsínugult, grænt, gult, dimmblátt. Hér er kalt, tólf stiga frost og fer kólnandi, en mér er hætt að vera kalt. Kuldanum fylgja hæðarsvæði og norðurljós. Sum kvöld eru þau grafkyrr eins og ljóskeilur frá frá tröllauknum kösturum, önnur skipti flökta þau, bylgjast, bregða lit í grænt, blátt, hvítt. Það heitir „boltaleikur“. Það er þegar dána fólkið fer í boltaleik með hauskúpu af rostungi (172).

Söguhetjan Kim starfar sem hjúkrunarfræðingur á Grænlandi og heillast af villtri náttúru og frumstæðri þjóð. Hann hefur djöfla að draga, faðir hans beitti hann kynferðisofbeldi á unglingsaldri, hann þjáist af lyfjafíkn, glímir við gamla heift og flóknar sálarkrísur og hrekst eirðarlaus milli gírugra ástkvenna. Fjölskylduna hefur hann skilið eftir í Danmörku og brátt trosnar sambandið við börnin hans tvö og óspennandi eiginkonu. Allt stefnir í átt að uppgjöri við hataðan föður, sem er sjálfhverfur hommi og Vottur Jehóva og sennilega enn meira einmana en Kim, ef það er hægt.

Kalak* þýðir „skíta-Grænlendingur“ (93) sem Kim segir sjálfur að lýsi honum best. Hann er ofurseldur einmanaleika og skömm en innst inni þráir hann auðvitað sátt og frið eins og við öll. Stemningin í sögunni er engu lík, köld og hrá. Frásögnin er bæði grimm og grípandi, textinn er þunglyndislegur; einhvern veginn hljómlaus og einkennist af sambandsleysi við annað fólk: „…einsemd mín, eða kaldlyndi, er nokkuð sem ekki verður ráðin bót á. Hún er eitthvað sem ég þarf að læra að lifa með“ (127). Bláköld hreinskilnin og átakanlegt varnarleysið í verkinu setjast í huga lesandans og láta hann ekki í friði.

Í starfi sínu gifsar Kim brotin bein, saumar saman skurði, fæst við voðaskot og sjálfsmorð, fæðingar og botnlangabólgu en er sjálfur í lamasessi; með taugaendana galvaníseraða af 400 mg af klópoxíði (261). Hann deyfir sársaukann vegna sifjaspellsins með lyfjum og kynlífi og færist sífellt nær glötun. En hann getur ekki snúið aftur til fyrra lífs í Danmörku „Því útlínur fjallsins hafa rist sig á sjónhimnur mínar og eru í æpandi andstöðu við þessa plægðu akra“ (165).

Þýðing Jóns Halls Stefánssonar er mjög fín víðast hvar en hugsanlega er Kalak ennþá magnaðri á frummálinu (dönsku) vegna flókinna tengsla Dana og Grænlendinga. Kim Leine hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2013 fyrir Spámennina í Botnleysufirði, frábæra bók sem líka gerist á Grænlandi – hjá nágrannaþjóð okkar sem við Íslendingar hefðum svo sannarlega getað reynst betur í gegnum árin.


Kalak eftir Kim Leine.

Sæmundur, 2017

319 bls.


*Kalak er líka nafn á vinafélagi Grænlands og Íslands. Ég mæli með þessari grein á heimasíðu félagsins: https://kalak.is/hryllilegt-hvernig-folkid-er-rifid-upp-med-rotum/


Ljósmyndina tók höfundur af Leine þegar hann las upp úr bókinni í Eymundsson á dögunum.

 

Birt í Kvennablaðinu, 22.11.2017

Íslenskur djammveruleiki

Jónas Reynir Gunnarsson sendir nú frá sér sína fyrstu skáldsögu sem heitir Millilending. Steinunn Inga Óttarsdóttur fjallaði um bókina í Víðsjá.

Steinunn Inga Óttarsdóttir skrifar:

nightlife-in-reykjavik-1„Ég er ekki vön að keyra full. Ég veit alveg að það er sjálfselskt og heimskulegt að láta sér detta það í hug en ég var bara búin með tvo bjóra sem ég hafði líka ælt og eitthvað smá af grasgufu sem ég vissi ekki einu sinni hvort virkaði, þannig að ég keyrði bara af stað. Annars væri ekki það versta sem gæti gerst að vera tekin af löggunni og fá að gista í fangaklefa“ (87).

Svo mælir María, aðalpersóna í Millilendingu, nýrri skáldsögu eftir nýjan höfund, Jónas Reyni Gunnarsson. Hún kemur við í Reykjavík á leið til Köben og það gengur á ýmsu þennan sólarhring sem hún stoppar. Líf hennar er í tómarúmi, hún er nýhætt með kærasta og á ekki í nein hús að venda nema þá til pabba, sem er alltaf að skamma hana, eða ömmu sem krefst þess að hún fullorðnist.

María er alveg laus við að rogast með framtíðarplön, hún pælir ekkert í hlutunum heldur hugsar bara í hringi og berst með straumnum; ástand sem flestir kannast við frá einhverju skeiði ævi sinnar. Pabbi hefur keypt handa henni farmiða til CPH og hún veit sosum ekkert hvað bíður hennar þar. Og fær þá skyndihugdettu að fara bara hvergi, með eftirfarandi rökum: „Og ef það átti hvort eð er að neyða mig til að vera óhamingjusöm og finna mér einhverja vinnu sem ég hataði þá gæti ég alveg eins verið í Reykjavík“ (51).

Broguð sjálfsmynd

Framganga Maríu í sögunni einkennist af uppgjöf sem birtist m.a. í því að hún á erfitt með draga andann, getur varla geispað eða fyllt lungun. Sjálfsmynd hennar er eitthvað broguð, henni finnst hún líta út eins og hún sé 11-15 ára, fötin hennar eru ljót, síminn „Samsung piece of shit“ (8); þegar hún lítur í spegil er eins og það sé eitthvað að henni og hollningin er eins og hún hafi strokið af leikskóla. Svefnvana og hálfdópuð þvælist hún á milli staða og fólkið sem verður á vegi hennar er annað hvort hrikalega pirrandi eða alveg sama um allt. Hún hugsar hún með sjálfri sér í hrakningunum: „Áður en ég dey væri ég til í að hitta manneskju sem líður í alvörunni vel“ (148).

Lífið er flókið og erfitt þegar maður er ungur og lesandinn sveiflast milli þess að ætla að taka Maríu litlu í faðminn og vernda hana eða hrista óþyrmilega. Sýn hennar á tilveruna ber ekki vott um mikinn þroska eða bjartsýni, henni finnst t.d. frekar ósanngjarnt þegar pabbi hennar segir henni að hætta þessari vitleysu og taka sig á: „eins og allt sem ég lendi í sé mér að kenna“ (163).

Djúp kreppa

Lesandi fær lítið að vita um bernsku eða fortíð Maríu. Móðir hennar kemur hvergi við sögu en María virðist heimavön hjá ömmu sinni. Hún er reikul og ráðvillt og tilvistarkreppa hennar er töluverð en varla neitt verulega sár eða knýjandi. „Þegar ég hugsa um fortíðina man ég bara eftir einhverju sem lætur mér líða eins og fávita. Það er eins og allt sem ég geri endi með hræðilegri eftirsjá og nú fannst mér eins og það væri ekki lengur nein bið á því, mér leið bara alltaf eins og fávita yfir öllu sem ég var að díla við um leið og ég var að díla við það“ (117).

Þegar María rifjar upp samverustundir með pabba sínum man hún eftir ókláraðri mynd af Friðriki mikla á listasafni í Berlín sem þau skoðuðu saman forðum. Loksins fann hún til samkenndar, henni finnst hún vita hvernig málaranum líði; pirraður yfir að geta ekki lokið verkinu; og hvernig hershöfðingjunum líður sem með útkrotuð andit bíða fyrirmæla og mæna á auðan blett á striganum þar sem Friðrik mikli átti að standa (170-171). Táknrænt fyrir Maríu; hún er auður strigi og bíður eftir því að fá að vita hvernig hún eigi að lifa þessa orrustu af (171) – hún ætlar ekki að sigra, bara lifa af.

María og vinir hennar, Gaui og Brynja, eru af svokallaðri velmegunarkynslóð  eða Y-kynslóð sem fæddist um síðustu aldamót og er að verða fullorðin núna. Þetta er kynslóðin sem ólst upp við fjölmiðlabyltingu og tækniframfarir, sökkti sér í  tölvuleiki og kann á alla samskiptamiðla og snjalltæki. Kynslóð sem hugsar öðruvísi en fyrri kynslóðir, sér t.d. sáralítinn tilgang með fastri 9-5 vinnu. Vinnan sem Gaui sér fyrir sér að gæti hentað honum er að passa sadda ketti sem fólk færir honum, að vera „helgarpabbi fyrir ketti“ (40). Pælingin er að leggja ekkert á sig, bara chilla og hafa það geðveikt næs, spila Fallout og póker á netinu og panta pitsu. Þegar svona plön ganga ekki eftir, mætir fólk af velmegunarkynslóðinni mótlæti sem það kann ekki að takast á við, heldur verður magnvana og þunglynt. Í stærstum hluta bókarinnar líður Maríu illa; á flótta með ælubragð í munni og þjökuð af hugarórum.

En María er fyndinn og orðheppin manneskja í þessum ömurlegu aðstæðum. Þrátt fyrir doðann sem heldur henni í helgreipum, tekur hún eftir ýmsu í kringum sig, rifjar upp alls kyns atburði og lýsir ítarlega og miskunnarlaust klósettferðum og ælugusum, ropum, svita, hori og húðfrumum, skítugum sokkum, feitum bumbum og  vondri lykt. En hörðust er hún þó við sjálfa sig.

Millilending er vel stíluð saga, fyndin og sár í senn, skemmtilega afslöppuð og leynir á sér. Hér er dreginn fram kimi sem er sjaldan á dagskrá, íslenskur djammveruleiki og samtími nýrrar kynslóðar. Myrkt og drungalegt vetrarumhverfið er leikmynd einmanakenndar og þrúgandi vanlíðunar þessa unga fólks sem leitar lífsfyllingar í hverfulum heimi og flýr á náðir vímu, hálfkærings og afstöðuleysis.

Í lokin hefur María náð botninum, komin upp í rúm hjá lúðalegum gaur í von um samskipti sem eru ekki bull (166). Orðalagið þegar hann „byrjaði að sofa hjá mér“ sýnir annað hvort það hversu María er fjarlæg sjálfri sér að átta sig ekki á hvað er að gerast, eða þá að það þykir ekki við hæfi að tala um að ríða eða nauðga í svona flottri skáldsögu eftir svona efnilegan höfund fyrir svona teprulega lesendur.

Víðsjá8 nóv 2017: http://www.ruv.is/frett/islenskur-djammveruleiki-i-skaldsogu

Fram þjáðir menn í lekum bússum

Hreistur_kapa_prent.inddEf nefna ætti einhvern sem hefur gert íslenskum farandverkamanni almennileg skil í ljóði og myndum, kemur Bubbi Morthens auðvitað fyrst upp í hugann. Töffarinn sem birtist í sjávarþorpinu troðfullur af dópi og hassi og þrælaði sólarhringum saman í akkorði við fiskvinnu. Hann tilheyrði rótlausum verkalýð sem fór pláss úr plássi þegar vantaði fólk í uppgripavinnu í frystihúsum, loðnubræðslum, á togurum eða dagróðrabátum; ílentist hvergi, passaði hvergi. Þetta var áður en fiskveiðikvótinn varð eign sægreifanna með þeim afleiðingum sem allir þekkja.

Farandverkamaðurinn og minningar úr sögu þjóðar eru efniviður ljóðabókar Bubba sem nefnist Hreistur. Bókin sem er tileinkuð fóstru hans og helsta bókmenntapáfa landsins, Silju (Aðalsteinsdóttur) inniheldur 69 nafnlaus og númeruð ljóð og umgjörð þeirra er sjö vökunætur þar sem fortíð vitjar mælandans sem „flæktur í vetrarkvíða“ (1) „fangar ljósfælin botndýr hugans“ (35).

Já, frystihúsið, færibandið og farandverkamaðurinn, allt er það nú gott og blessað en höfum við ekki heyrt þetta allt áður hjá höfundinum? Jú, hrognin eru að koma og ef ég drukkna, drukkna í nótt skjóta upp kolli í Hreistri, þetta þema hefur fylgt Bubba frá upphafi ferils hans seint á síðustu öld og er vörumerki hans. En einhvern veginn hefur hann alltaf lag á að endurnýja sig, koma ferskur inn. Og þetta er harðvítugt efni sem er ekki tæmt, bitur reynsla sem enn á eftir að vinna úr. Vísanir í fyrri verk búa til stemninguna, lesandinn setur sig í stellingar, kominn aftur í tímann, mættur upp á verbúð eftir langa vakt í hvítum stuttermabol með hlandvolgt vokda í kók.

Fiskverkafólkið hírist í fjórtán köldum og subbulegum herbergjum á verbúðinni sem „lykta af fiski, brundi, slori, rakspíra“ (1). Þetta er munaðarlaust, menntunarlaust og skeytingarlaust fólk (3) sem vekur hálfgerðan óhug meðal þorpsbúanna. Sjávarplássin eru í uppgangi á þessum tíma, símstöðin og kaupfélagið á sínum stað, það er næg atvinna og útgerðin blómstrar og það er ball í landlegum. En afturhvarf til hreistraðrar fortíðar er hvorki nostalgískt né fegrað. Þetta er harður heimur sem einkennist m.a. af ofbeldi og vímuefnaneyslu, eins og sjá má í ljóði sem dregur upp mynd af hópnauðgun á verbúðinni; atvik sem brenndi sig í minni ljóðmælandans. Heyrum skáldið fara með ljóð nr 27.

Bubbi les ljóðið 11.23-13.02        http://www.ruv.is/frett/eg-vard-vitni-ad-brutal-naudgun

Ljóðið er grípandi og áhrifamikið. Bubbi hefur sjálfur valið það til upplestrar víða enda smellpassar það inn í þá vaxandi umræðu um kynferðisofbeldi fyrr og nú sem á sér stað í samfélaginu. Í ljóðinu er lýst hinum sundurleita hópi fólks sem dvelur á verbúðinni; krúttlegur prófessor og kona sem segir sögur við „varðeld fiskanna“ en skrýmsli liggur í leyni; ofbeldi á sér stað, eins og „fjólublátt armband“ ber vott um; það er glæpur í gangi og það að hafa ekkert aðhafst hvílir á samviskunni árum saman.

Myndmálið úr mal Bubba samanstendur oftlega af kunnuglegum eignarfallssamsetningum, eins og „ískaldir fingur vetrarins“ og „langir armar myrkursins“. En í Hreistri eru líka ljóðmyndir sem ganga vel upp og eru nýmeti, hressilega jarðtengt og alveg séríslenskt. Ég tíni hér til nokkrar slitrur:

„langir fölgrænir veggir með / blóðblettum vínblettum leifum af uppköstum / voru okkar kjarval (1)

stelpurnar / allar þessar sölkur / með hníf í hendi og hárið frjálst (15)

í þúsund fokkera fjarlægð

var borgin sem við höfðum flúið

(40)

ríkistónlistin barst frá hátalara sem hékk niður úr loftinu

torfbæjarraddir fluttu dánartilkynningar

og jarðarförin var fyrr en varði komin inn til okkar

(40)

fram þjáðir menn í lekum bússum

(53)

sjóveikt viðundur

í óráðinu ljómaði hafið í sökkvandi raunveruleika

spýjan skall á gólfið

hálfmeltar hugmyndir um sjómennskuna

skoluðust eftir þilfari fyrir borð

(62)

Ljóð nr 16 finnst mér gott, líka nr 40, 44, 55. Og að lesa nr 65 er eins og að koma í heimahöfn, það er framlenging á frægasta lagi Bubba sem gaulað er í öllum betri partýum. Hreistur boðar ekki nýjungar í skáldskap, það eru engin átök við form eða efni en vel er farið með. Hreistur er heldur ekki pólitísk bók, það er engin reiði eða ádeila á ferð í þessu uppgjöri heldur stafar einlægni af ljóðunum og jafnvel örlar á viðkvæmni. Hörkuleg ímynd töffarans með stálið og hnífinn hefur dignað og velkst af boðaföllum í lífsins ólgusjó.

Alexandra Buhl annaðist hönnun og umbrot Hreisturs sem er alltof fíngert og nostursamlegt og í hróplegu ósamræmi við hrátt og blautt innihaldið. Og ég verð að segja, sem fyrrum frystihúsgella, að ég hef á tilfinningunni að hreisturgrafíkin sem prýðir bæði bókakápu og blaðsíðurnar snúi öfugt.

 

Víðsjá, 7. sept 2017: http://www.ruv.is/frett/adeilunni-skipt-ut-fyrir-einlaega-vidkvaemni

 

 

Týpan sem konur falla fyrir?

Hús geta verið býsna ógnvekjandi fyrirbæri, eins og dæmin sanna bæði úr skáldskap og kvikmyndum. Ekki aðeins þau sem eru gömul og niðurnídd með ískrandi hjörum, brakandi stigaþrepum og dimmum kjallara, heldur ekki síður glansandi og stílhreinar nýbyggingar með öllum hugsanlegum þægindum. Slíkt hús er umgjörð ógnþrunginnar spennusögu, Stúlkan á undan (The Girl Before) eftir höfund sem skrifar undir ýmsum nöfnum, að þessu sinni dulnefninu JP Delaney.

Stelpan_a_undan_72Glæsihús í Lundúnum sem hinn vellríki og bráðmyndarlegi ekkill Edward Monkford hannaði og byggði er til leigu. Til að gerast leigjandi þarf viðkomandi að gangast undir ítarlegt persónuleikapróf þar sem spurt er samviskuspurninga á borð við: „Myndirðu fórna þér til þess að bjarga tíu saklausum, ókunnum manneskjum?“ (35). Leigjandinn þarf líka að uppfylla ströng skilyrði um umgengni og svara formlega matsspurningum í hverjum mánuði en leigan er fáránlega lág. Emma og Simon eru par á fallanda fæti og hvorugt þar sem þau eru séð. Þeim tekst að fá leigusamning hjá Monkford en brátt fer húsnæðið að hafa áhrif á líf þeirra og ekki síður arkitektinn, siðblindur og hættulega heillandi. Næsti leigjandi á eftir þeim, hin sakleysislega Jane Cavendish, er að jafna sig eftir erfiða lífsreynslu og fer ekki heldur varhluta af áhrifum hússins, saga  hennar fléttast saman við örlög fyrri leigjenda og brátt er um líf og dauða að tefla. Það verður að segjast að söguþráðurinn er hrikalega spennandi og hrollvekjandi og engin leið að hætta fyrr en sagan er öll.

Hönnun hússins er ætlað að breyta lífi leigjendanna til hins betra og búa þeim fullkomið líf í skjóli frá skarkala umheimsins. Í húsinu eru engar hurðir, engar myndir, engar mottur, engin perustæði. Allt sem þarf er innfellt, sérsmíðað og tölvustýrt.  Hönnunin minnir á dystópíu sem í rauninni er orðin að veruleika í nútímalegri byggingalist. Með úthugsuðum þægindum og nýjustu tækni, sjálfvirkni og sínálægu eftirliti er lífi leigjendanna stjórnað á flauelsmjúkan hátt:

Daglega leggur Húsráðandi til hvaða fötum ég ætti að klæðast með tilliti til veðurs, minnir á stefnumót og fundi og sýnir mér stöðuna á óhreina þvottinum. Ef ég ætla að borða heima sýnir Húsráðandi  mér hvað er til í ísskápnum, bendir á eldurnarmöguleika og upplýsir um hitaeiningafjölda. „Leita“ sér hinsvegar um að sía burt auglýsingar, skotglugga sem bjóða mér upp á flatari kvið, truflandi fréttir, vinsældalista, slúður um smástjörnur, ruslpóst og vafrakökur. Það eru engin bókamerki, engin vafrasaga, engar geymdar upplýsingar. Allt er þurrkað út um leið og ég slekk á skjánum. Það er undarlega frelsandi… (72).

„Húsráðandi“ er app sem fylgir leigusamningnum og auðvelt er að ánetjast þar sem það er bæði hentugt og hagkvæmt. En um leið verður leigjandinn að vera tilbúinn til að breyta lífi sínu, aðlagast húsnæðinu og uppfylla kröfur leigusalans.

Edward hugsar sig um. „Við þurfum að vera agaðri í því að ganga frá snyrtivörunum. Í morgun, til dæmis, sá ég að þú hafðir skilið sjampóið þitt eftir.“

„Ég veit. Ég gleymdi því.“

„Jæja, ekki rífa þig niður. Það krefst sjálfsaga að lifa svona. En ég held að þú sért þegar farin að sjá að umbunin er þess virði.“  (207)

Það er algengt trix í reyfurum sem þessum að skipta sjónarhorni og tíma milli persóna til að skapa spennu. Formúlan  svínvirkar í þessari bók, Emma (fortíð) og Jane (nútíð) hafa orðið til skiptis og lesanda er sannarlega haldið í helgreipum. Engin persóna er þó sérlega geðfelld í þessari sögu. Það er að auki truflandi hversu viljalaus verkfæri kvenpersónurnar eru í höndum Monkfords sem minnir óhugnanlega á sjarmör Fimmtíu grárra skugga; glæsilegur og metnaðarfullur, eins og „afslappaður kennari með mikla kyntöfra“ (58) en undir yfirborðinu er hann einmana, sjúkur og þjáður. Er það týpan sem höfðar til allra kvenna? Líklega, því bókin hefur þotið upp metsölulista í þrjátíu og fimm löndum og endar væntanlega á hvíta tjaldinu.

Ísak Harðarson, hið magnaða skáld, þýðir á íslensku, víðast ágætlega en sums staðar er fljótaskrift á þýðingunni. Titillinn Stúlkan á undan er bein þýðing úr ensku og velta má fyrir sér hvort þýðandi hefði ekki mátt leyfa sér smá skáldaleyfi hér á ylhýrri íslensku. Hvað sem því líður er sagan óhemju spennandi; sjóðheit sumarlesning þar sem maður fær allt fyrir peninginn.

Stúlkan á undan

JPV útgáfa, Forlagið 2017

414 bls.

Þýðandi: Ísak Harðarson

 

Birt í Kvennablaðinu, 21. júlí 2017

Rödd að handan

Er líf eftir þetta líf? Tórir sálin þótt líkaminn tortímist? Er guð til? Ráða fyrirfram ákveðin örlög lífi okkar og dauða eða er það slembilukkan?

Steingrímur, aðalpersónan í Ævintýri um dauðann eftir Unni Birnu Karlsdóttur, rankar við sér handan heims og þarf að sætta sig við að hafa farist af slysförum í blóma lífsins. Hann horfir á konu sína og fjölskyldu syrgja og sjálfur er hann hnugginn og bugaður, fastur milli tilverusviða og „horfinn heiminum. Ekki lengur hluti af mannlífinu“ (12). Hann hefur tekið því sem sjálfsögðum hlut að vera sprelllifandi og ekki órað fyrir að endalokin gætu komið svona snögglega. Hann sér eftir ýmsu og ætlaði að gera svo margt þegar um hægðist, eins og við öll.

 Þorpið

bj-ubk1Steingrímur ólst upp í sjávarþorpi úti á landi í stórri fjölskyldu. Systur  hans og mágkona eru gæðakonur og burðarstólpar í plássinu og bróðirinn Jói er risi með hjarta úr gulli, athafnamaður með allar klær úti. Foreldrarnir eru dæmigerðir fulltrúar sinnar kynslóðar, heiðarleg og vinnusöm hjón sem hafa byggt upp allt sitt með eigin höndum og búið börnum sínum framtíð í öryggi og trausti. Ein persóna sker sig úr hópnum, vinkonan Elenóra sem átt hefur hug og hjörtu bræðranna beggja frá bernsku. Hún er gjörólík þeim, lesbísk listakona sem flúði þröngsýni þorpsins og hefur aldrei snúið aftur. Allt eru þetta sannfærandi og vel smíðaðar persónur sem takast á við sársaukann sem fylgir því að vera til og reyna að gera það besta úr lífinu. Og þegar á reynir stendur fólk saman þrátt fyrir ágreining og gamlar misgjörðir og verndar þá sem minnst mega sín.

Dauðinn er tabú

„Sorgin er eins og olía, þykk og svört“ segir Lilja (83), ekkja Steingríms. Sorgin er líka vandræðaleg, það er erfitt að tala um hana og tekur óratíma að losna við hana; hvenær er mál að harka af sér og halda áfram að lifa? Daglegar athafnir verða Lilju ofviða og hún á enga orku aflögu handa ungum syni þeirra. Hún fer ekki úr náttfötunum, hefur enga matarlyst; svefnvana og stendur varla undir sjálfri sér. Sjálfur syrgir Steingrímur líf sitt og líkama, hann átti allt og hefur misst allt.

Dauði og sorg tilheyra þeim fjölmörgu tabúum í samfélaginu sem þögnin umlykur: „Þetta er litur þagnarinnar sem umlukti svo margt þegar ég var ung. Grá og þykk þögn um það sem skiptir máli, um það að vera manneskja, um tilfinningar, um það sem er erfitt, um sorgina, ástina, eineltið, drykkjuna, um lífið, draumana, dauðann. Manstu, það mátti aldrei tala um svoleiðis. Allt var þaggað niður. Maður gat næstum gleymt að maður hefði tilfinningar þegar maður var að alast upp“ (38) segir Elenóra.

Erfitt sjónarhorn

Margar bækur hafa verið skrifaðar um líf eftir dauðann, jafnvel með frásögnum af upplifun fólks af eigin andláti, ljósinu handan ganganna og langþráðri friðsæld. Í þessari bók er sjónarhornið óvenjulegt þar sem sögumaðurinn talar að handan. Það er býsna erfitt viðureignar og frekar sjaldgæft í skáldskap, Gyrðir Elíasson hefur beitt því listilega, t.d. íSvefnhjólinu. Margir muna eftir fyrstu tveimur seríunum af Aðþrengdum eiginkonum og skáldsögunni Svo fögur bein, þar sem sögumenn eru dánir. Lesandi verður að vera tilbúinn til að gangast inn á forsendur um framhaldslíf til að samþykkja þessa annars heims tilveru þar sem framliðnir svífa um í eins konar óljósri vídd óendanleika og æðruleysis. Í Ævintýri um dauðann birtast verur frá handanheimum sem hafa það hlutverk að leiða hina framliðnu inn í hliðarveruleika sem er hugsanlega biðsalur fyrir  næsta tilverustig. Þar reynir verulega á þrek og trú lesandans og vilja til að gefa sig skáldskapnum á vald.

Áhugaverðar pælingar eru í gangi í sögunni, um sæluríki, tilgang lífsins og alheimsvitundina og ótal spurningar vakna. Hvað sem fólki finnst um þessa hugmyndafræði er þetta vel gert og fallega.  Ævintýri um dauðann er í senn ástar-, fjölskyldu- og samfélagssaga sem snýst um tilvist mannsins þessa heims og annars, hún einkennist af mildi og mannúð, er vel skrifuð og boðskapurinn fallegur. Að lestri loknum, þarftu ekki lengur að óttast dauðann.

Bjartur, 2016

191 bls.

Birt í Kvennablaðinu, 19. sept. 2016