Ég lauk við Allt með kossi vekur á dögunum. Ég er búin að vera með hana og Hjarta mannsins á náttborðinu alllengi. Bók Guðrúnar Evu Mínervudóttur er fersk, frumleg, ágeng og spennandi, byggingin er úthugsuð og frásagnarhátturinn flottur. Farið er milli heima í tíma og rúmi, mörk veruleika, draums og ímyndunar renna saman, persónurnar eru eins og hjá Dostojevskí; ramba á barmi geðveiki, fara út á ystu nöf og láta mann ekki í friði með örlög sín, einkalíf, skoðanir og gjörðir. Elísabet er klikkuð og kæfandi, Láki maður hennar er myndasögusmiður og tvær sagna hans eru birtar í bókinni, ástar/sköpunarsaga um koss lífsins. Sonur Elísabetar er Davíð sem reynir að lifa venjulegu lífi og púsla sjálfsmyndinni saman eftir erfiða bernsku. Hann á í ástarhaturssambandi við móður sína, og skrifar söguna jafnóðum og brotin raðast saman en það sem knýr hann áfram er m.a. að komast að þætti móður hans í dauða Indi, bestu vinkonu Elísabetar. Indi er kaupsjúk og kvalin, músarleg og meðvirk, í sambúð með dauðyflinu Jóni sem breytist í geðsjúkling þegar hann er vakinn með kossi. Svo fer allt af stað, eldgos og eiturlyf, draumfarir og djöfulgangur. Vel hugsað, spennandi saga með djúpum pælingum um list, heimsendi og dauða. Hér er mjög góður ritdómur um bókina.