Jungle er frá 1977 af ELO-plötunni Out of the Blue og kemur mér alltaf í stuð. Come join me if you so desire! Þetta lag var EKKI spilað á tónleikunum.
ELO
ELO í Hörpu
Ég hef árum saman verið mikill ELO-aðdáandi. Á níunda áratugnum var ég með lögin þeirra á heilanum og átti flestar plöturnar. Lög eins og Shine a little love, Confusion, Mr. Blue Sky og Living Thing (uppáhalds) eru sígilt gæðapopp. Við Halla frænka voru alveg heillaðar, tókum Discovery upp á ótal kassettur og skelltum svo þemaplötunni TIME undir nálina á gamla Grundig-grammófóninn hjá afa og ömmu á Akureyri, spiluðum og dönsuðum og sungum með. Á laugardagskvöldið voru ELO-tónleikar í Hörpu og ég lét mig ekki vanta. Stuðið fór rólega af stað og mér fannst hreinlega eins og það væri dósahljóð í flutningunum þar sem ég sat uppi á svölum, en það skánaði eftir hlé. Þarna voru úrvals hljóðfæraleikarar, m.a. Bryndís Halla Gylfadóttir á selló og einhver fiðlusnillingur en strengir eru auðvitað möst hjá ELO. Fimm söngvarar skiptust á að taka 1-2 lög og ég verð að segja að Magni Ásgeirsson skaraði þar fram úr. Hann var sá eini sem flutti lögin með sínu nefi, lagði soldið af sjálfum sér í þetta. Pétur Örn er næstur á gæðaskalanum, hann nær sömu tóntegund og Jeff Lynne með léttu og hafði einhvern veginn diskóið alveg í sér, gerði þetta mjög vel og maður fann að hann fílaði lögin. Eyþór Ingi var einhvern veginn bara í vinnunni og þeir Jóhann Helgason og Eiríkur Hauksson fóru þetta á gömlum sjarma. Bakraddirnar voru oftast góðar, þær eru líka ELO-möst, og Pétur Örn átti mestan heiður af þeim. Ég skemmti mér stórkostlega vel og var farin að dansa trylltan dans á svölunum ásamt hinum 1800 gestunum þegar síðasta lagið kom, Don´t bring me down.