HANDRIT að 45 mín útvarpsþætti, Á sumarvegi, júlí 2009
Lesari í þættinum var Guðbjörn Sigurmundsson
(Bílhljóð og flaut, lækkar niður)
Kæru hlustendur
Við sem þeysumst á sumarvegi á nýjum kagga með myntkörfu-hjólhýsi í eftirdragi mættum leiða hugann að því hversu stutt er síðan að torvelt var að ferðast um landið. Og að mikið lögðu ferðalangar fyrri alda á sig til að skoða markverða staði á Íslandi.
Fámenni, dreifð byggð og lítil verkkunnátta héldust í hendur við að halda samgöngum innanlands á fremur frumstæðu stigi furðu lengi. Það var aðallega að messur og aðrir sjaldgæfir mannfagnaðir, eins og alþingisreið, ferðir pilta til skólasetra, ferðir vinnufólks í vist og sjómanna í verstöðvar og flakk umrenninga leiddi til ferðalaga.