Ferðasögur

Íslandsbréf 1874

itayloy001p1

Bayard Taylor, 1825-1878 (Brittanica)

Bandarískt skáld, Bayard Taylor að nafni (1825-1878), var meðal erlendra gesta á þjóðhátíð Íslendinga árið 1874. Hann hafði verið á ferðalagi um Egyptaland og var staddur í Bretlandi þegar dagblaðið New York Tribune bað hann að skreppa á hátíðarhöldin og senda fréttir yfir hafið. Hann kom til landsins á gufuskipinu Albion og var Eiríkur Magnússon (1833-1913, bókavörður og þýðandi) honum samferða frá Cambridge. Taylor gaf síðan út ferðabók um reisurnar, Egypt and Iceland in the Year 1874, sem kom út samtímis í New York og London 1875.

Tómas Guðmundsson, skáld, leitaði lengi að bók Taylors til þýðingar í fornbókaverslunum í Englandi og víðar en árangurslaust þar sem hún er mjög sjaldgæf. Honum tókst loks að fá hana góðfúslega lánaða hjá Þórði Björnssyni, sakadómara „sem sennilega á stærra safn ferðarita um Ísland en nokkur annar“. Íslandsbréf 1874 kom út hjá Almenna bókafélaginu 1963 og ritaði Tómas greinargóðan formála og segir þar m.a.:

Samt ætla ég, að sumar þær þjóðlífsmyndir, sem þar er brugðið upp, varpi allskírri birtu yfir ævikjör og umkomuleysi fólksins á þessum tíma, sem nú er flestum okkar horfinn … Og þá er það líka nokkurs vert, að  hér kynnast menn mjög geðfelldum og drengilegum höfundi, sem fjallar um menn og málefni af óvenjuglöggum skilningi og ríkri samúð (10).

Rakst á þessa bók í dag í hillu og sökkti mér í hana. Bók úr safni föður míns og/eða afa sem báðir voru ástríðufullir bókasafnarar, unnu þjóðlegum fróðleik, hagmæltir heiðursmenn.

Nú er hægt að lesa bók Taylors á rafrænu arkívi.

Óþefur, óveður, óþjóð. Tvær ferðasögur frá 19. öld og Íslandsförin

HANDRIT að 45 mín útvarpsþætti,  Á sumarvegi,  júlí 2009

Lesari í þættinum var Guðbjörn Sigurmundsson

(Bílhljóð og flaut, lækkar niður)

Kæru hlustendur

Við sem þeysumst á sumarvegi á nýjum kagga með myntkörfu-hjólhýsi í eftirdragi mættum leiða hugann að því hversu stutt er síðan að torvelt var að ferðast um landið. Og að mikið lögðu ferðalangar fyrri alda á sig til að skoða markverða staði á Íslandi.

Fámenni, dreifð byggð og lítil verkkunnátta héldust í hendur við að halda samgöngum innanlands á fremur frumstæðu stigi furðu lengi.  Það var aðallega að messur og aðrir sjaldgæfir mannfagnaðir, eins og alþingisreið, ferðir pilta til skólasetra, ferðir vinnufólks í vist og sjómanna í verstöðvar og flakk umrenninga leiddi til ferðalaga.

(meira…)