Kona kemur við sögu

Alls konar kerlingar

hsku201642

Komið hefur á daginn að konur eiga stærri þátt í menningararfinum en áður hefur verið talið. Á síðasta ári kom út í tilefni af 100 afmæli kosningaréttar kvenna safnritið Konan kemur við sögu þar sem fræðimenn fjalla um konur og kvennamenningu í aldanna rás.

 Alls eru 52 stuttir og snarpir pistlar í bókinni sem allir fjalla um konur á einn eða annan hátt. Við sögu koma „alls konar kerlingar“; bæði kvæða- og sagnakonur, skáldkonur og konur í bókmenntum; rímur af konum og eftir konur, handrit kvenna og handrit skrifuð af konum og fyrir konur. Pistlarnir eru áhugaverðir og skemmtilegir bæði fyrir fræðimenn og aðra áhugamenn um bókmenntir og menningarsögu. Nefna mætti sem dæmi stutta grein um afbyggingu hugtaksins kvenþjóð eftir Guðrúnu Nordal, um uppruna orðsins kona eftir Þórdísi Úlfarsdóttur og merkingu orðsins kerling eftir Guðrúnu Kvaran; um orðabókarstörf bæði Halldóru Jónsdóttur og Bjargar C. Þorláksson, frásögn af hinni sérlunduðu Guðnýju Snorradóttur sem bjó í Ambáttarhól og gekk í buxum og um ýmsar hagmæltar konur.  Ein þeirra er Helga Þórarinsdóttir (1797-1874) frá Hjallalandi í Vatnsdal en talið er að hún hafi verið innan við fermingu þegar hún orti vísuna um Litlu-Jörp sem varð landsfleyg:

„Litla Jörp með lipran fót
labbar götu þvera.
Hún mun seinna á mannamót
mig í söðli bera.“

(78)

Vísa Helgu hefur oft verið eignuð körlum, bæði prestum, hestamönnum og góðskáldum.  Kristján Eiríksson segir í pistli um Helgu:

„Og reyndar má telja nokkuð öruggt að minna hafi verið hirt um kveðskap kvenna en karla. Fyrir því eru ýmsar ástæður og eru þessar helstar: Konur nutu á þessum tíma minni menntunar en karlar, og nær óþekkt var að þær færu í langskólanám. Kynni þeirra af samtímakveðskap á erlendum málum voru því lítil sem engin. Þá lá það í tíðarandanum, og hafði gert um aldir, að konur ættu fremur að njóta skáldskaparins en karlar að skapa hann. Vegna þess munu konur síður hafa flíkað skáldskap en karlarnir.“

(76-77)

Guðrún Laufey Guðmundsdóttir segir hins vegar í pistli sínum, „Söngva-Borga og Galdra-Manga, um íslenskar kvæðakonur fyrri alda“ að konur hafi einnig verið virkir þátttakendur í veraldlegum söng og kveðskap „og jafnvel gefið körlunum lítið eftir á því sviði“ (118).

Þá er merkileg frásögn Soffíu Guðnýjar Guðmundsdóttur af spássíukroti í gömlu handriti sem varpar nýju ljósi á skriftarþjálfun kvenna forðum daga og skemmtileg ábending frá Guðrúnu Ingólfsdóttur um að Fljótsdælasaga er eina Íslendingasagan sem hefst á nafni konu: „Þorgerður hét kona. Hún bjó í Fljótsdal austur“ (79).

Er þá fátt eitt nefnt af fjölbreyttu og áhugaverðu lesefni sem finna má í Konan kemur við sögu. En hvert skyldi vera elsta bókmenntaverkið sem vitað er til að íslensk kona hafi samið og er varðveitt? Engar óvéfengjanlegar heimildir eru  fyrir hendi um aðkomu kvenna að ritun sagnaarfsins en ljóst þó er að kona hefur ort Landrés-rímur á 15. öld, segir Haukur Þorgeirsson í pistli sínum (48) enda talar hún um sjálfa sig í mansöng (eins konar inngangi) rímunnar.

„Geystur harmur í Gríðar vindi gjörir mig hljóða,
Valtýrs skal eg því vínið bjóða,
Vil eg enn gleðja fleina rjóða.

Gríðar vindur: hugur; Valtýrs vín: skáldskapur; fleina rjóðar: menn.“

(49)

Það væri kærkomið að rímur þessar yrðu gerðar aðgengilegar almenningi á vef stofnunarinnar sem fyrst og sama má segja um margt af því efni sem fjallað er um í bókinni.

Sú hugsun sækir að við lesturinn að til er ógrynni af dýrmætu efni sem liggur í handritum, órannsakað og óútgefið, sem gæti gefið svo miklu fyllri mynd af kvennamenningu fyrri tíma. Miðað við allt það áhugaverða efni tengt konum sem kynnt er í þessari bók má ætla að hægt sé að fylla margar slíkar og best væri að svona bók  kæmi út á hverju ári? Það er spennandi tilhugsun að viðtekin mynd af menningararfinum gæti breyst við að skoða þátt kvenna sérstaklega.

En það verður að segjast að hönnun og umbrot bókarinnar er umdeilanlegt. Textarnir eru ýmist í einum dálk eða tveimur, ósamræmi er í staðsetningu titla og númera pistlanna  sem kemur ekki vel út, myndir eru furðu stórar, sumar eru settar upp á rönd og línurit sem fylgja grein Steinþórs Steingrímssonar um starfsheiti eru slitin úr samhengi og birt á svörtum grunni sem stingur í augu. Laus hlífðarkápa sem fylgir nýtist illa eftir að bókin hefur verið opnuð. Bókarkápan er hins vegar falleg með mínimalískri teikningu af fornu Maríulíkneski frá Eyri í Skutulsfirði. Hugsanlega hefði farið betur á því að hafa bókina með harðspjöldum, jafnvel bundna í mjúkt geitaskinn með gylltum kili. Innihaldið á það fyllilega skilið.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, 2016

Ritstjórar: Svanhildur María Gunnarsdóttir og Þórður Ingi Guðjónsson

191 bls

 

Birti í Kvennablaðinu, 8. mars 2017