Amtmaðurinnn á einbúasetrinu

Ég hef verið að lesa ævisögu Gríms Jónssonar amtmanns á Möðruvöllum í Hörgárdal  (1785-1849) eftir Kristmund Bjarnason. Ég hef varla getað lagt hana frá mér þar sem hún er afar fróðleg og skemmtileg. Tímabilið sem fjallað er um er svo merkilegt og heillandi, Grímur sjálfur var merkismaður sem stóð í stappi bæði opinberlega og í einkalífi og dregin er upp sannfærandi mannlýsing, fjallað er bæði um lífshlaup hans og framavonir, ættir og fjölskyldu, persónuleika hans, kosti og galla. Mál og stíll bókarinnar má kenna við gullaldaríslensku. Engu er haldið fram í bókinni án raka og heimilda en stundum spurt kurteislega hvort hitt og þetta gæti verið orsök og afleiðing, margt er hrakið og ný gögn dregin fram í dagsljósið. Gaman er m.a. að lesa um skólahald á Íslandi í byrjun nítjándu aldar en Grímur var fátækur nemandi í Hólavallarskóla í Reykjavík. Kennslan er bágborin og snjóar inn í kennslustofurnar, margir skólapiltar eru með skyrbjúg, líkamlegar refsingar viðgangast og skólameistari er sífullur. Þá gerði ég mér ekki almennilega grein fyrir önnum þeim sem embættis-og valdsmenn hér á landi höfðu hér áður fyrr. Maður skyldi ætla að allt hefði verið hér meira og minna í dróma og deyfð og fátt borið til tíðinda sem Danakóngur hefði áhuga á eða vildi setja sig inn í. En aldeilis ekki, skrifa þurfti ótal skýrslur, yfirlit, tilkynningar og bréf í tví- og þríriti, taka við tilskipunum konungs og koma þeim til framkvæmda, eltast við að óléttar vinnukonur, níðskáld og niðursetninga, yfirheyra og ávíta vanhæfa  hreppstjóra  og svikula presta, refsa alþýðunni grimmilega fyrir minnstu yfírsjónir, standa skil á öllu regluverkinu, sköttum og verðgildi jarða, fjalla um verslun og búnaðarmál, vísitera í amtinu um óbrúaðar ár og í vondum veðrum, og skera úr deilum og margvíslegum klögumálum sem bárust endalaust inn á borð amtmannsins. Einkalíf Gríms var líka snúið, kona hans var dönsk og vildi búa í heimalandi sínu, börnin voru mörg og þau hjónin skuldum vafin. Á efri árum var hann oft sárþjáður bæði á sál og líkama, hann var rúmfastur og langt leiddur af margvíslegum kvillum (s.s. gyllinæð og tannleysi) þegar þjóðfrelsisþenkjandi bændur tóku sig til og riðu heim til hans með þeirri kröfu að hann segði af sér þar sem hann væri fulltrúi kúgunarvalds. Hálfum mánuði síðar lést Grímur amtmaður.  Ævisaga hans er stórmerk heimild um manninn og aldarfarið, minnst er á margt fólk og merkilegt sem gaman er að lesa um, ýmist þjóðþekkt eða löngu gleymt. Vísað er í margvíslegar heimildir, m.a. er vitnaði í dagbók Nínu, dóttur Gríms, sem ég hefði hug á að lesa meira í. Ekki hefur mikið þess háttar efni eftir konur varðveist frá þessu tímabili, þó er eitthvað til að bréfum, t.d. þau sem fóru á milli Gríms og systur hans, Ingjbjargar sem var móðir Gríms Thomsens.

5 athugasemdir

  1. Ég fékk þessa bók í jólagjöf 2008 og er óhætt að segja að engu er logið hjá þér um málfarið hjá höfundi. Skemmtanagildið tel ég hinsvegar takmarkað í meira lagi. Get í mesta lagi lesið 2 síður án þess að sofna.

  2. Jú jú man ég þau jól er þetta var efst á óskalista bóndans og þótti mér ég mikill höfðinigi að gefa honum svo þykka og vel máli farna bók,….en mikið var geispað og stunið yfir þessu, svo mikið er víst og hef ég ekki lagt í að lesa hana.

  3. Steina sagði mér í stuttu mál en þó ekki ! ( það tók 6 km.göngu) frá þessari bók og fannst mér þetta mjög áhugavert og spunnust spekingslegar umræður eftir það um lífshætti og aðbúnað fólks á þessum árum en það miklu betra að láta hana bara lesa og segja frá … – held að ég hefði orðið eins og Halli sofnað á annari…

  4. Og áttu þessa góðu bók? Ég man að hún fékk góða dóma og ætlaði mér að nálgast hana á bókasafninu en svo gleymir maður því um leið og tekur bara reyfara og tímarit.

  5. Fékk hana lánaða hjá pabba. Maður nýtur hverrar mínútu, þarna eru þeir t.d. á vappi, Bjarni Thorarensen, Baldvín Einarsson og Jón Espólín og sýna á sér óvæntar hliðar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s