Páskaleyfið er dásamlegt, kyrrlátt og friðsælt. Ég hef hlustað mikið á útvarpið, rás eitt og tvö, og er frekar ánægð með dagskrána þar. Alls konar fróðlegir þættir um fortíð og nútíð, viðtöl og þægileg tónlist. Svona er maður orðinn ráðsettur. Við Binni stinni gengum svo á Helgafellið með Arwen um miðjan dag, vorum eldsnögg upp og hlupum niður. Engin mynd er til af atburðinum, aldrei þessu vant. Um kvöldið kom Þura systir og fjölskylda og mamma og pabbi í mat, menuinn var einfaldur og hefðbundinn: hamborgarahryggur og ís. Þessa vísu fékk ég senda frá föður mínum sem telur sig vera tiltölulega syndlausan á upprisuhátíðinni:
Drottins frið og fögnuð kýs,
fjarri sálarháska,
líkur engli upp ég rís
á öðrum degi páska.
Pabbi er bara krúttlegastur !! Vonandi rís hann úr veikindum sínum á annan dag páska….
Á leið að Helgafelli mætti ég Hrafnhildi, móður fermingarbarnsins tilvonandi, Örnu Páls, hún var að koma úr fjallgöngu, alsæl og rjóð í kinnum.