Loksins komst ég á Inception í gær, þá rómuðu bíómynd eftir Chris Nolan með Leonardo frá Caprí í aðalhlutverki. Ég var búin að snúa frá tvisvar því það hefur verið uppselt, meira að segja í lúxussal. Er skemmst frá því að segja að myndin er svaðalega spennandi og vel gerð, vel leikin og endirinn flottur. Plottið gengur út á að hægt sé að planta hugsunum og skoðunum í undirmeðvitund fólks, það er frekar óhugguleg framtíðarsýn. Þetta er soldið hugsað eins og tölvuleikur, því dýpra sem er farið, því flóknara og erfiðara borð í tölvuleiknum. Draumapælingarnar hefðu mátt vera fyrirferðarmeiri, heimur undirmeðvitundarinnar býður jú upp á óteljandi möguleika. Ætli Nolan sé ekki nú þegar farinn að láta sig dreyma um Inception 2?
Framhaldsmynd örugglega í bígerð, þá verður sko farið niður í draumastig sjö eða eitthvað rosalegt…