Morgnar í Jenín segir frá fjórum kynslóðum Palestínumanna. Eftir seinni heimstyrjöldina var Ísraelsmönnum úthlutað landssvæði þar til eignar og ábúðar en svo virðist sem enginn hafi tekið með í reikninginn að þar var þjóð á fleti fyrir og engu skeytt um örlög hennar. Í landinu höfðu Palestínumenn búið öldum saman með geitur sínar og arabíska gæðinga, ræktað ólífur og appelsínur og unað glaðir við sitt. Yfirgangur Ísraelsmanna er hrikalegur, rán, morð og nauðganir eru daglegt brauð, og skv. bókinni var mörgum ofbeldisverkum þeirra leynt fyrir umheiminum og vitnað er í skýrslur og blaðagreinar því til sönnunar. Palestínumenn voru hraktir frá heimilum sínum og Ísraelsmenn lögðu þau hreinlega undir sig, ferðafrelsi þeirra var heft, þeir voru skotnir eða þeim misþyrmt og sér ekki fyrir endann á því eins og alþjóð veit. Börn í Palestínu þekkja ekki annað en að búa í flóttamannabúðum og eiga von á ofbeldi á hverjum degi. Þetta er verðugt efni að fjalla um í skáldsögu, bæði dramatískt og pólitískt, en sagan verður því miður ansi langdregin, víða er þýðingin klaufaleg, litríkt myndmálið sem tengist arabískum siðum og málvenjum verður einhvern veginn tilgerðarlegt. Bókin vekur vissulega til umhugsunar, bæði um þau alltof mörgu stríð sem háð eru í heiminum þar sem gengdarlaust ofbeldi, fjölda- og þjóðarmorð viðgangast og um þann hrikalega vanda sem skapast af straumi flóttafólks sem hrekst af landi sínu vegna stríðsátaka og á hvergi höfði sínu að halla.