Ljósa

Ljósa eftir Kristínu Steinsdóttur er áhrifamikil saga. Eftirminnilegar persónur, skemmtilegar samfélagslýsingar, hrífandi saga, flottur frásagnarháttur sem lýsir vel andlegum þrengingum aðalpersónunnar, þöggun og bælingu, höfnun, úrræðaleysi aðstandenda og niðurlægingu sjúklingsins, fáfræði fólks og fordómum. Vel stílað og pælt, minnir stundum á Vigdísi Gríms, þekkt hugmynd um fugl sem tákn fyrir geðveikina stendur fyrir sínu. Hver verður ekki geðveikur af að búa í afskekktri sveit á nítjándu öld, í dimmum og lekum torfkofa, sligaður af vinnu og barneignum og bugaður af brostnum vonum og skilningsleysi?!

Ljósa er hreppstjóradóttir, hefur gengið í kvennaskóla, hefur tónlistarhæfileika og er eftirsótt saumakona. Sem barn er hún næm og draumlynd og veruleikinn kemur stundum harkalega við hana. Hún verður ung fyrir hjartasorg, giftist ágætum en andlausum bónda og þau hlaða niður börnum. Ekkert í umhverfi hennar ýtir undir gleði, sköpunarkraft eða frelsi og trú hennar á huldufólk er bábilja sem enginn tekur mark á. Nóg hefur fólkið að gera í sveitinni, ekki síst konurnar sem ganga bæði til úti- og inniverka, kasóléttar í þokkabót. Sagan endurspeglar vel hlutskipti og stöðu kvenna á þessum tíma, endalaust stag og nudd og jag, börn og fjósverk, eldamennska og skylduverk. Ljósa hefur samt nokkra sérstöðu, hún er sæmilega efnum búin og hefur fengið ýmis tækifæri í lífinu. Það sama er ekki hægt að segja um t.d. Möggu vinnukonu sem á ekki sjö dagana sæla. Geðveiki Ljósu lúrir undir og brýst fram þegar álagið verður of mikið, annað hvort liggur hún í kör eða þeytist út um allar sveitir og ruglar tóma þvælu. Á endanum er ekkert eftir nema algjör neyðarúrræði. Mér skilst að sagan sé byggði á sönnum atburðum. Ég átti von á að þessi bók yrði tilnefnd til bókmenntaverðlaunanna. Er það ávallt hlutskipti (kven)barnabókahöfunda að vera skör lægra en aðrir rithöfundar?

3 athugasemdir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s