Um páskana las ég Nemesis eftir Jo Nesbö. Hörkuspennandi reyfari um (eins klisjulega og það hljómar) drykkfellda, kaldhæðna og kvensama löggu með sálarflækjur en skýra rökhugsun, endalausa þolinmæði og öfluga rannsóknarhæfileika. Minnir stundum á samlanda hans Morgan Kane, lögregluforingja sem einnig var veikur fyrir víni og villtum meyjum og leysti sakamál á sinn hátt. Atburðarásin er hröð, persónurnar áhugaverðar, t.d. Beate Lönn sem er límheili og áþekk Lisbeth Salander um margt, hinn hégómagjarni Iversen, spillta löggan Tom Waaler o.m.fl. Þessi reyfari er tæpar 500 síður og kom út á frummálinu 2002! Nesbö er heitur krimmahöfundur, vonandi þarf ekki lengur að bíða árum saman eftir þýðingum á bókum hans.