Renndi yfir Jójó eftir Steinunni Sigurðardóttur. Sérkennileg bók um viðkvæmt mál. Sagan gerist í Berlín og er mjög fjölþjóðleg, persónurnar af ýmsu þjóðerni. Margt er vel skrifað, samtölin skemmtileg, ástinni fallega lýst. Aðalpersónan er læknir sem þarf að takast á við skuggalegt atvik úr fortíðinni þegar leiðinlegur sjúklingur leitar til hans. Læknir þessi er ungur og sprækur, á fallega og góða konu og hefur alla möguleika til góðra verka en fortíðin eitrar líf hans og hann hefur aldrei unnið úr henni. Hann dregur franskan róna upp úr ræsinu og þeir bindast vináttuböndum og í ljós kemur að þeir eiga meira sameiginlegt en að heita sama nafninu. Það er erfitt að finna til samúðar með persónunum, kannski af því að þeim er lýst utanfrá. Í lokin dregur til tíðinda og endirinn er opinn til túlkunar. Frásögnin er mjög meitluð og hefði mín vegna mátt vera lengri og dýpri, verið er að fást við stórar siðferðilegar spurningar. Það er örugglega framhald í smíðum.