Alvöru menn er að finna í Austurbæjarbíói og eru síðustu sýningar í gangi. Það er þýtt og staðfært alla leið frá Ástralíu og lukkast það bara vel. Fór á föstudagskvöldið og skemmti mér konunglega. Þetta er frábært leikrit og margt sannleikskornið um karleðlið, bresti þeirra og komplexa, langanir og þrár, en stykkið segir ekki síður margt um konur þegar að er gáð. Er ekki endalaus togstreita milli kynja um kynhlutverk og ólíkar skilgreiningar og áherslur á ábyrgð og skyldum, barnauppeldi, kynlífi, lífsfyllingu og þörfum? Að ég tali ekki um miðaldurskrísuna og gráa fiðringinn. Alla vega er hér fullt af efni til að moða úr. Á sviðinu eru engir leikmunir en leikararnir sýna snilldartakta í leikmunagerð, þeir brjóta sér leið í gegnum frumskóg, fikra sig yfir hengibrú, svamla í sjó, spóka sig á sandströnd og sötra bjór úr kæliboxi – allt með látbragði og tilheyrandi hljóðum frá Pálma píanóleikara. Mörg atriði voru stórfyndin og leikararnir allir frábærir, Kjartan og Jóhann hittu mig alveg í hjartastað með snilldarleik, Egill er alltaf heillandi og Jóhannes Haukur er flottur. Hárbeitt og miskunnarlaust grín og snilldarleikur, ágætis kvöldskemmtun fyrir konur og kalla.
mér fannst þetta mjög skemmtileg sýning og við hjónin skemmtun okkur konunglega – ég lét það aðeins pirra mig að fólk var að opna bjórdósir í salnum með á sýningu stóð!!! Er det ikke lidr i overkanten?????