„Jaðrar hverrar miðborgar eru bestu blettirnir, er bara hvar sem engir túristar eru, og pláss fyrir flakkara og náttúrurannsakanda eins og mig, manninn frá landinu sem er alltaf alls staðar, manninn sem er er alltaf innfæddur, kamelljónið… Jaðrarnir já, því þangað sem túristar leita, er okur garanterað. Fyrst er okrað, svo restinni rænt. Þetta er nýtt lögmál. Og jaðrarnir færast út, það er þeirra náttúra. Útþensla heimsins; rotnunin breiðist út frá miðjunni, innan frá. Það er mengun túristanna, afmáning hefðanna, sem byrjar í miðju hverrar borgar og við sérstæð náttúrufyrirbrigði, og dreifir sér síðan um alla jörðina. Hið fagra er fyrst til að rotna. Allar fallegar borgir eru þegar rústir einar, og náttúran niðurtroðin og yfirbyggð. Að ferðast og sjá nýja staði er ekkert merkilegt lengur, það er ekkert nýtt að sjá, allt er eins alls staðar, eða á hraðri leið í þessa einsleitni. Staðsetningar eru smávægilegar. Að fara á framandi slóðir er ekki hægt, allt sama óupprunalega draslið…“ (35)
Rakst á þessa stórskemmtilegu bók (2005) eftir Ófeig Sigurðsson. Sögumaður er einn á þvælingi um heiminn, án annars tilgangs eða fyrirheits en að kynnast landi og þjóð, læra að þekkja sjálfan sig, lenda í ævintýrum, mannast, drepa tímann. Mér sýnist að hann sé kannski í Afganistan eða Suður-Ameríku en það eiginlega skiptir engu máli. Það er farið út á ystu nöf. Sögumaður er oft nær dauða en lífi í öllu ruglinu, fullur og peningalaus, kynnist alls kyns furðufuglum og grimmum örlögum, sér skrýtnar siðvenjur og borðar ógeðslegan mat, lendir í klóm grimmra landamæravarða og verður ástfanginn. Hann pælir og pælir í tilgangi jarðlífsins, eðli mannsins og fáránleikanum í heiminum. Hrikalega fyndnar persónur og aðstæðurnar óborganlegar. Efitr lesturinn situr bæði ælubragð í munni og skítaykt í nösum og það er snilld, Langt síðan ég hef lesið svona krassandi og magnaða ferðasögu, vel skrifaða og eftirminnilega. Áferð myndar tengsl við Áform eftir Houellebecq (2001), þá mögnuðu bók, þar sem túrisminn, markaðshyggjan, einmanaleiki og firring mannsins fara út í átakanlegar öfgar.