ferðasaga

Frábært ferðalag

Ég hef víða farið um landið á frækna húsbílnum okkar stjörnuparsins og jafnan haldið ferðadagbók sem ég birti hér á vefnum. Í breytingum á útliti vefsins fyrir löngu týndi ég þeim og fann þær aldrei aftur. Því var ég glöð að rekast á þessa pdf ferðasögu í möppu í tölvunni í gær og rifja upp dásamlega daga meðan frostið bítur kinn.

Húsbílareisan 2012

 

cropped-mg_2924.jpg

Íslandsbréf 1874

itayloy001p1

Bayard Taylor, 1825-1878 (Brittanica)

Bandarískt skáld, Bayard Taylor að nafni (1825-1878), var meðal erlendra gesta á þjóðhátíð Íslendinga árið 1874. Hann hafði verið á ferðalagi um Egyptaland og var staddur í Bretlandi þegar dagblaðið New York Tribune bað hann að skreppa á hátíðarhöldin og senda fréttir yfir hafið. Hann kom til landsins á gufuskipinu Albion og var Eiríkur Magnússon (1833-1913, bókavörður og þýðandi) honum samferða frá Cambridge. Taylor gaf síðan út ferðabók um reisurnar, Egypt and Iceland in the Year 1874, sem kom út samtímis í New York og London 1875.

Tómas Guðmundsson, skáld, leitaði lengi að bók Taylors til þýðingar í fornbókaverslunum í Englandi og víðar en árangurslaust þar sem hún er mjög sjaldgæf. Honum tókst loks að fá hana góðfúslega lánaða hjá Þórði Björnssyni, sakadómara „sem sennilega á stærra safn ferðarita um Ísland en nokkur annar“. Íslandsbréf 1874 kom út hjá Almenna bókafélaginu 1963 og ritaði Tómas greinargóðan formála og segir þar m.a.:

Samt ætla ég, að sumar þær þjóðlífsmyndir, sem þar er brugðið upp, varpi allskírri birtu yfir ævikjör og umkomuleysi fólksins á þessum tíma, sem nú er flestum okkar horfinn … Og þá er það líka nokkurs vert, að  hér kynnast menn mjög geðfelldum og drengilegum höfundi, sem fjallar um menn og málefni af óvenjuglöggum skilningi og ríkri samúð (10).

Rakst á þessa bók í dag í hillu og sökkti mér í hana. Bók úr safni föður míns og/eða afa sem báðir voru ástríðufullir bókasafnarar, unnu þjóðlegum fróðleik, hagmæltir heiðursmenn.

Nú er hægt að lesa bók Taylors á rafrænu arkívi.

Sigrún og Friðgeir. Ferðasaga

Sigrún og Friðgeir„Hvernig drukknar maður með börnum sínum?“ Þessi setning úr Ferðasögu Sigrúnar og Friðgeirs (JPV) eftir Sigrúnu Pálsdóttur hefur ómað í höfði mér síðan ég lauk við bókina. Flestar ferðasögur hefjast á brottför að heiman, ævintýrum og sigrum og loks farsælli heimkomu en hér er því ekki að heilsa. Þau hjónakornin fara ung til Bandaríkjanna til náms í læknisfræði í heimstyrjöldinni síðari. Það er ekki auðvelt en allt gengur þeim í haginn enda harðduglegt og metnaðarfullt fólk með brennandi áhuga á að bæta heiminn. En grimm örlög bíða þeirra og það hefur mikil áhrif á mann að vita að þau munu farast ásamt þremur börnum sínum með Goðafossi sem var sökkt af þýskum kafbáti rétt fyrir stríðslok úti fyrir Garðsskaga, þann 10. nóvember 1944. Þvílik sóun og blóðtaka fyrir þjóðina, 24 manneskjur drukknuðu, 19 var bjargað við illan leik. Tónninn fyrir þessi grimmu örlög er sleginn strax á fyrstu blaðsíðum bókarinnar þegar dregin er upp mynd af hollensku farþegaskipi, Voledam, sem varð fyrir kafbátaárás og 77 börn deyja í náttfötunum sínum og björgunarvestum á kaldri haustnóttu, 400 sjómílur vestur af Skotlandi. En engum kom til hugar að slík örlög biðu íslenskra barna þótt ógnin vofði alls staðar yfir.

Þeim hjónum er fylgt eftir í Bandaríkjunum, lýst er fjölskyldulífi þeirra og framgangi við fræga spítala en Friðgeir var fyrsti Íslendingurinn sem lauk doktorsprófi frá Harvard og Sigrún hafði rétt lokið kandídatsári sínu þegar þau sneru heim, ein örfárra kvenkyns lækna á Íslandi. Þau áttu þriggja ára son áður en þau fóru utan, Óla, en Ragnheiður, barnlaus vinkona Sigrúnar, gætti hans meðan þau fóru að leita fyrir sér  um húsnæði og skóla. Það hefur eflaust hefur tekið á þær báðar, Friðgeir fer síðan stutta ferð til  Íslands að sækja Óla og fjölskyldan er sameinuð, Sverrir fæðist og loks Sigrún litla sem er pelabarn í heimferðinni. Sigrún hægir á námi sínu og frama með barneignunum en fjölskyldan er hamingjusöm og allt stefnir í bjarta framtíð.

Stuðst er við margvíslegar heimildir, s.s. hjartaskerandi ljósmyndir og ómetanlega dýrmæt bréfasöfn vina og vandamanna, m.a. bréf milli Sigrúnar og Ragnheiðar, ýmis viðtöl og margvíslegar prentaðar bækur, m.a. greinar um Reykjavík á þessum tíma, framtíðarhorfur íslensku þjóðarinnar, framvindu stríðsins og um innviði Gullfoss til að skapa rétta stemningu og rekja slóð þeirra hjóna. Heimildavinna er hin vandaðasta og er þá sama hvort litið er til tilvísana eða útlegginga af hendi höfundar.Oftast vil ég hafa tilvísanir neðanmáls en í þessu tilviki passa þær aftast. Þar segir m.a. að  lík þeirra Óla og Sverris voru þau einu sem fundust. Saga þeirra Sigrúnar og Friðgeirs er mjög vel skrifuð, hér er ekkert of eða van. Síðasti kaflinn er magnaður, ekkert yfirdrifið, engin væmni, átakanlega sorglegum atburði er lýst eins fallega og hægt er.

„Og myrkrið undir yfirborði sjávar sem verður svartara við hvert orð sem reynir að lýsa því sem þar hefur gerst“ (183).

Ferðasagan

Frá Borgarfirði eystri

Frá Borgarfirði eystri, sumarið 2012

Ferðasaga sumarsins er komin á bloggið. Ég hef vart haft undan að svara fyrirspurnum óþreyjufullra lesenda sem fylgst hafa með ferðasögunni frá upphafi og var farið að lengja verulega eftir 2012. Sagan er   hér til hægri, undir Ferðasögur, doldið lengi að hlaðast inn…

Áferð eftir Ófeig

„Jaðrar hverrar miðborgar eru bestu blettirnir, er bara hvar sem engir túristar eru, og pláss fyrir flakkara og náttúrurannsakanda eins og mig, manninn frá landinu sem er alltaf alls staðar, manninn sem er er alltaf innfæddur, kamelljónið… Jaðrarnir já, því þangað sem túristar leita, er okur garanterað. Fyrst er okrað, svo restinni rænt. Þetta er nýtt lögmál. Og jaðrarnir færast út, það er þeirra náttúra. Útþensla heimsins; rotnunin breiðist út frá miðjunni, innan frá. Það er mengun túristanna, afmáning hefðanna, sem byrjar í miðju hverrar borgar og við sérstæð náttúrufyrirbrigði, og dreifir sér síðan um alla jörðina. Hið fagra er fyrst til að rotna. Allar fallegar borgir eru þegar rústir einar, og náttúran niðurtroðin og yfirbyggð. Að ferðast og sjá nýja staði er ekkert merkilegt lengur, það er ekkert nýtt að sjá, allt er eins alls staðar, eða á hraðri leið í þessa einsleitni. Staðsetningar eru smávægilegar. Að fara á framandi slóðir er ekki hægt, allt sama óupprunalega draslið…“ (35)

Rakst á þessa stórskemmtilegu bók (2005) eftir Ófeig Sigurðsson. Sögumaður er einn á þvælingi um heiminn, án annars tilgangs eða fyrirheits en að kynnast landi og þjóð, læra að þekkja sjálfan sig, lenda í ævintýrum, mannast, drepa tímann. Mér sýnist að hann sé kannski í Afganistan eða Suður-Ameríku en það eiginlega skiptir engu máli. Það er farið út á ystu nöf. Sögumaður er oft nær dauða en lífi í öllu ruglinu, fullur og peningalaus, kynnist alls kyns furðufuglum og grimmum örlögum, sér skrýtnar siðvenjur og borðar ógeðslegan mat, lendir í klóm grimmra landamæravarða og verður ástfanginn. Hann pælir og pælir í tilgangi jarðlífsins, eðli mannsins og fáránleikanum í heiminum. Hrikalega fyndnar persónur og aðstæðurnar óborganlegar. Efitr lesturinn situr bæði ælubragð í munni og skítaykt í nösum og það er snilld, Langt síðan ég hef lesið svona krassandi og magnaða ferðasögu, vel skrifaða og eftirminnilega. Áferð myndar tengsl við Áform eftir Houellebecq (2001), þá mögnuðu bók, þar sem túrisminn, markaðshyggjan, einmanaleiki og firring mannsins fara út í átakanlegar öfgar.