En kongelig affære / Royal Affaire kallast á íslensku Kóngaglenna sem er frekar furðuleg þýðing. Sagan gerist á seinni hluta 18. aldar og segir frá völdum, áhrifum og endalokum dr. Johanns Struensee en hann giljar Caroline drottningu og er besti vinur, einkalæknir og ráðgjafi geðveika kóngsins, Kristjáns sjöunda. Ríkisráðið unir ekki áformum Struensee um innleiðingu upplýsingarstefnunnar, skerðingu á völdum kirkjunnar, afnám bændaánauðar, ritskoðunar og pyntinga til sagna. Struensee vinnur ötullega að góðum áformum og umbótum fyrir almenning en vopnin snúast í höndunum á honum, ritfrelsið er notað til að útbreiða slúður og skrípó af spilltu hirðlífinu og alþýðan sem hann er að berjast fyrir hatar hann. Í myndinni er mikið drama, valdabrölt, ást í meinum og dapurleg örlög. Leikararnir eru allir frábærir og myndatakan flott og smekklega farið með efnið. Í myndinni er sem betur fer hvorki klæmst á sambandi Struensee og Caroline né farið út í hrikaleg smáatriði í grimmdarlegu lífláti hans. Skáldsagan Líflæknirinn (2003) eftir Per Olov Enquist fjallar ítarlega um þetta sama efni, mögnuð bók þar sem átökin eru aðallega milli nýrra hugmynda um jafnrétti, frelsi og bræðralag og hinnar gömlu heimsmyndar þar sem aðallinn nýtur allra forréttinda sem hugsast geta.