Hér liggur skáld

ForlagiðÉg las Hér liggur skáld eftir Þórarin Eldjárn í sundlaugargarðinum á Tamaimo Tropical á Tenerife á dögunum. Sagan byggir á atburðum Svarfdælasögu (sjá hér nýlegt um hana) og Þorleifs þáttar jarlaskálds þar sem galdrar, álög, ofbeldi og blóðug uppgjör eru daglegt brauð. Þorleifur fer úr Svarfaðardal, þar sem allt logar í illdeilum. með skipi sínu og dýrmætum farmi til Noregs en hittir þar svo óheppilega á Hákon hlaðajarl (d. 955) sem réð ríkjum á þessum tíma og er hið mesta fól í flestum heimildum. Fundur þeirra er afdrifaríkur fyrir þá báða. Sagan er stutt og auðlæsileg, svo stutt að stundum minnir hún á harðsoðna endursögn, lítið er um samtöl og þau eru meitluð. Kvæðin sem fylgja upphafi hvers kafla eru frábærlega skemmtileg. Stíllinn er forn og nýr í senn, fallegur og rennur vel. Skáldið steinliggur. Og húmorinn er alls ráðandi, hér má sjá breiðletrað úr Þorleifs þætti og meinfyndna úrvinnslu skáldsins.

Svo sem Sveinn konungur tjáði Þorleifi, þá þeir ræddust við um vorið að fluttu kvæði hafði eftir jólakvöldið burt rotnað af jarli allt skegg og svo hárið öðrum megin reikar. Kom hvorugt upp aftur. Hárið sem eftir skrimti var reytingur einn, gránaður og lífvana. Reyndist jarli er hann harmþrunginn leit í skuggsjá og vildi kemba hár sitt ekki síst örðugt að ákvarða hvoru megin reikar þær lýjur skyldu einkum liggja. Þótti honum afkáralegt að þær sætu allar á einn veg og reyndi því þráfellt að beina þeim til beggja átta.  Af því varð nokkur flækja sýnu snautlegri  og varð hann þess var að mörgum þótti harla kátleg. (149-150)

Þorleifur jarlaskáld var bróðir Yngvildar fagurkinnar sem var afburða fögur og síðhærð. Hún er eins og svo oft í sögunum viðfang karlanna og gengur kaupum og sölum eftir hagsmunum þeirra hverju sinni. Hún er ung tekin frillutaki og síðan nauðug gift Klaufa Hafþórssyni, snargeggjuðum og afspyrnu ljótum ofbeldismanni, loks gefin Skíða þræli sem áður hefur verið misþyrmt til stórra og ævilangra lýta, þá eru synir hennar drepnir fyrir augunum á henni og síðast er hún seld sem ambátt úti í heimi. Áhugavert er lífshlaup hennar, ekki síst samband hennar og Karls rauða,og efni í dramatíska skáldsögu sem mér þætti gaman að lesa.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s