Þórarinn Eldjárn

Fárleg örlög

Lenda þar að landi
líst sá staður sístur
halda vilja heldur
harla skjótt frá jarli.
Sigla þöndum seglum
sunnar slóðir kunnar.
Örlög flúið fárleg
fengið hefur enginn

 

Ekki margir sem geta ort dróttkvætt. En það gerir Þórarinn Eldjárn léttilega.

Hér liggur skáld, 2012

Krúttlegir smáglæpir

my-new-presenta_23258363_b91f2f37f2b8bfc7569b24af12e81e51d0b5e2baÍslensk smásagnagerð stendur með miklum blóma um þessar mundir. Höfuðskáld eins og Gyrðir Elíasson, Þórarinn Eldjárn, Svava Jakobsdóttir, Jakobína Sigurðardóttir og fleiri hafa með verkum sínum sýnt svo listilega hvers formið er megnugt og nú spreytir sig hver lærisveinninn af öðrum.

Smásagnasafn Björns Halldórssonar (f. 1983), Smáglæpir, hlaut nýræktarstyrk frá Miðstöð íslenskra bókmennta 2016 en kom út nú á dögunum hjá bókaforlaginu Sæmundi. Björn er nýr í bransanum en lofar góðu, í bókinni eru sjö sögur sem allar eru ánægjuleg lesning.

Fyrsta sagan í safninu, Barnalæti, sker sig úr. Þar talar telpa sem er nýflutt í hverfið og býr við þreytandi heimilislíf. Hún er auðveldlega útsett fyrir undarlegu ofbeldi nágrannadrengsins og virðist vera í þann veginn á leggja út á óheillavænlega braut. Þetta er langbesta sagan í bókinni; áhrifamikil og uggvekjandi í einfaldleika sínum. Í hinum sögunum hafa karlar orðið, á ýmsum aldri og í misjöfnum aðstæðum. Í sögunni Ef þið hefðuð hringt er nöturleg spenna milli þess sem Sólmundur gamli hugsar og þess sem hann segir en dregin er upp mynd af harðjaxli sem ætlar ekki að gefa færi á sér eða linast með aldrinum og dæmir sjálfan sig þar með til einsemdar. Rekald fjallar um mann á elliheimili, lítt notað sögusvið sem býður upp á skemmtilegar senur. Endirinn er stíðnislegur og lesandinn fær ekki það sem hann bjóst við. Marglyttur er á yfirborðinu byggð á bernskuminningu um sjóferð sem endar illa en hún er áleitin og snýst ekki síður um sekt og fíkn. Saga sem heitir Eiginmaðurinn og bróðir hans segir frá Bödda sem giftist konu frá Filipseyjum. Hún fer frá honum og Jóhann, bróðir hans, rifjar upp ýmis atvik sem varpa ljósi þá ákvörðun hennar. Sjálfur á Jóhann í frekar brengluðu sambandi við sína eigin fjölskyldu. Það er ýjað að ýmsu og boðið upp á óvænta túlkun undir lokin og ógnin seytlar inn í huga lesandans.

Það er margt gott í Smáglæpum en stíllinn er helsti veikleikinn; stundum myndrænn en oftast raunsær og hversdagslegur; einkennist af talmáli víða og málvillur eru á stangli. Stílinn þarf að æfa og nostra við, fága og pússa til að nálgast fullkomnun lærimeistaranna og varla við slíku að búast í frumraun höfundar.

En hverjir eru smáglæpirnir sem verkið dregur nafn sitt af? Þeir felast í hikinu, hugleysinu, lygunum og ofbeldinu í lífi okkar; glæpum sem við höfum öll gerst sek um gagnvart hvert öðru og sjálfum okkur.

Bókaforlagið Sæmundur 2017

Smáglæpir, 142 bls.

 

Birt í Kvennablaðinu, 7. júlí 2017

 

 

Hér liggur skáld

ForlagiðÉg las Hér liggur skáld eftir Þórarin Eldjárn í sundlaugargarðinum á Tamaimo Tropical á Tenerife á dögunum. Sagan byggir á atburðum Svarfdælasögu (sjá hér nýlegt um hana) og Þorleifs þáttar jarlaskálds þar sem galdrar, álög, ofbeldi og blóðug uppgjör eru daglegt brauð. Þorleifur fer úr Svarfaðardal, þar sem allt logar í illdeilum. með skipi sínu og dýrmætum farmi til Noregs en hittir þar svo óheppilega á Hákon hlaðajarl (d. 955) sem réð ríkjum á þessum tíma og er hið mesta fól í flestum heimildum. Fundur þeirra er afdrifaríkur fyrir þá báða. Sagan er stutt og auðlæsileg, svo stutt að stundum minnir hún á harðsoðna endursögn, lítið er um samtöl og þau eru meitluð. Kvæðin sem fylgja upphafi hvers kafla eru frábærlega skemmtileg. Stíllinn er forn og nýr í senn, fallegur og rennur vel. Skáldið steinliggur. Og húmorinn er alls ráðandi, hér má sjá breiðletrað úr Þorleifs þætti og meinfyndna úrvinnslu skáldsins.

Svo sem Sveinn konungur tjáði Þorleifi, þá þeir ræddust við um vorið að fluttu kvæði hafði eftir jólakvöldið burt rotnað af jarli allt skegg og svo hárið öðrum megin reikar. Kom hvorugt upp aftur. Hárið sem eftir skrimti var reytingur einn, gránaður og lífvana. Reyndist jarli er hann harmþrunginn leit í skuggsjá og vildi kemba hár sitt ekki síst örðugt að ákvarða hvoru megin reikar þær lýjur skyldu einkum liggja. Þótti honum afkáralegt að þær sætu allar á einn veg og reyndi því þráfellt að beina þeim til beggja átta.  Af því varð nokkur flækja sýnu snautlegri  og varð hann þess var að mörgum þótti harla kátleg. (149-150)

Þorleifur jarlaskáld var bróðir Yngvildar fagurkinnar sem var afburða fögur og síðhærð. Hún er eins og svo oft í sögunum viðfang karlanna og gengur kaupum og sölum eftir hagsmunum þeirra hverju sinni. Hún er ung tekin frillutaki og síðan nauðug gift Klaufa Hafþórssyni, snargeggjuðum og afspyrnu ljótum ofbeldismanni, loks gefin Skíða þræli sem áður hefur verið misþyrmt til stórra og ævilangra lýta, þá eru synir hennar drepnir fyrir augunum á henni og síðast er hún seld sem ambátt úti í heimi. Áhugavert er lífshlaup hennar, ekki síst samband hennar og Karls rauða,og efni í dramatíska skáldsögu sem mér þætti gaman að lesa.