Ávallt berfættur…

Fyrstu minningar mínar eru þær, er eg fór á stekkinn á morgnana með móður minni, og er mér jarmur og fögnuður litlu lambanna í fersku minni, þá er þau fundu mæður sínar og þær þau. Þá er eg var orðinn 6 ára, fór eg að reka kýrnar í haga á hverjum morgni langa leið, ávallt berfættur, og stóð þá ekki upp úr djúpu moldargötunum á Brúarheiði, en frá því eg var 10 ára og til fermingaraldurs hafði eg smalamennsku á hendi, og var hún mjög erfið, einkum eptir fráfærur á sumrin, því að Brú liggur nálægt afréttinni, og sótti ærnar mjög þangað. Varð eg að fara á fætur fyrir miðjan morgun og kom opt ekki aptur fyrr en undir hádegi og varð þá stundum að leggja aptur af stað, ef eitthvað vantaði. Hljóp eg jafnan við fót, léttklæddur og berfættur, og mæddist lítt, þótt eg trítlaði þetta tímunum saman, en þreyttur var eg opt orðinn og sofnaði stundum út frá matnum. En fullorðna fólkið var þá ekki alveg á því að vorkenna unglingunum, þótt þeir fengju svefn og hvíld af skornum skammti, þóttist hafa haft það miklu verra í uppvexti sínum, krakkarnir hefðu gott af því að reyna dálítið á sig, þeim væri léttur fóturinn o.s.frv. Menn hafa enga hugmynd um það nú, hversu óharðnaðir unglingar voru þrælkaðir í sveitunum fyrir 50-60 árum, því að nú eru allt aðrir tímar og hugsunarháttur manna mjög breyttur. Orðið barnlúinn mun tæpast þekkt í sveitum nú, en þá heyrðist það opt sagt um miðaldra fólk og þar yfir, en þeim mönnum hafði verið ofþjakað á barnsaldri og báru þess menjar alla ævi. Einna verst þótti mér að vaða elginn á mýrunum við smalamennskuna snemma á vorin í rigningum og leysingum. Var mér þá svo kalt á fótunum þótt í sokkum væri, að þeir voru dofnir af kulda, svo að eg varð að hlaupa upp á þúfurnar og hrista þá, þangað til ylur færðist í þá.

Æviágrip dr. Hannesar Þorsteinssonar, þjóðskjalavarðar f. 1860, ritað af honum sjálfum. Blanda, fróðleikur gamall og nýr VII, bls. 6-7,  Sögufélagið gaf út 1940-1943. Seinna gaf hann út ítarlega sjálfsævisögu.

2 athugasemdir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s