Blanda

Einsýnn porri

…Jón var fremur lágur vexti, en hverjum manni harðgerðari og snarmenni hið mesta, svo að fáir eður engir stóðust honum snúning. Hann var vel greindur maður. Réttust lýsing á  Jóni er í vísu, er hann kvað um sjálfan sig, þótt hún hafi ekki mikið skáldskaparlegt gildi. Vísan er þannig:

Einsýnn porri er að skálda

æði mikla vitleysu.

Hann er líkur gráum fálka,

þegar hann er í skinnpeysu.

 

(Laxárdals menn í Hrunamannahreppi eftir Þorstein Bjarnason frá Háholti.

Blanda, fróðleikur gamall og nýr VI, bls.277.

Leiði Kára löngu týnt

Breiðármörk hefur bær heitið, og bygð fyrir 14 árum; var hálf konungs eign, en hálf bænda eign, öll 6 hdr. að dýrleika. Hún er nú af fyrir jökli, vatni og grjóti; sést þó til tópta. Þar hafði verið bænhús, og sá þar til tóptarinnar fyrir fáum árum, og garðsins í kring. Þar lá milli dyraveggjanna í bænhústóptinni stór hella, hálf þriðja alin á leingd, en á breidd undir 2 álnir, víðast vel þverhandar þykk, hvítgrá að lit, sem kölluð var Kárahella, og þar liggur á leiði Kára Sölmundarsonar, hverja hann hafði sjálfur fyrir dauða sinn heim borið, til hverrar nú ekki sést. Þó kunna menn að sýna, hvar hún er undir.

(Njála segir skýlaust, að Kári og Hildigunnur hafi fluttzt að Breiðá hér um bil 1017, og búið þar „fyrst“.)

Úr skrá Ísleifs sýslumanns Einarssonar um eyddar jarðir í Öræfum. Blanda I, Reykjavík 1918-20.

Ávallt berfættur…

Fyrstu minningar mínar eru þær, er eg fór á stekkinn á morgnana með móður minni, og er mér jarmur og fögnuður litlu lambanna í fersku minni, þá er þau fundu mæður sínar og þær þau. Þá er eg var orðinn 6 ára, fór eg að reka kýrnar í haga á hverjum morgni langa leið, ávallt berfættur, og stóð þá ekki upp úr djúpu moldargötunum á Brúarheiði, en frá því eg var 10 ára og til fermingaraldurs hafði eg smalamennsku á hendi, og var hún mjög erfið, einkum eptir fráfærur á sumrin, því að Brú liggur nálægt afréttinni, og sótti ærnar mjög þangað. Varð eg að fara á fætur fyrir miðjan morgun og kom opt ekki aptur fyrr en undir hádegi og varð þá stundum að leggja aptur af stað, ef eitthvað vantaði. Hljóp eg jafnan við fót, léttklæddur og berfættur, og mæddist lítt, þótt eg trítlaði þetta tímunum saman, en þreyttur var eg opt orðinn og sofnaði stundum út frá matnum. En fullorðna fólkið var þá ekki alveg á því að vorkenna unglingunum, þótt þeir fengju svefn og hvíld af skornum skammti, þóttist hafa haft það miklu verra í uppvexti sínum, krakkarnir hefðu gott af því að reyna dálítið á sig, þeim væri léttur fóturinn o.s.frv. Menn hafa enga hugmynd um það nú, hversu óharðnaðir unglingar voru þrælkaðir í sveitunum fyrir 50-60 árum, því að nú eru allt aðrir tímar og hugsunarháttur manna mjög breyttur. Orðið barnlúinn mun tæpast þekkt í sveitum nú, en þá heyrðist það opt sagt um miðaldra fólk og þar yfir, en þeim mönnum hafði verið ofþjakað á barnsaldri og báru þess menjar alla ævi. Einna verst þótti mér að vaða elginn á mýrunum við smalamennskuna snemma á vorin í rigningum og leysingum. Var mér þá svo kalt á fótunum þótt í sokkum væri, að þeir voru dofnir af kulda, svo að eg varð að hlaupa upp á þúfurnar og hrista þá, þangað til ylur færðist í þá.

Æviágrip dr. Hannesar Þorsteinssonar, þjóðskjalavarðar f. 1860, ritað af honum sjálfum. Blanda, fróðleikur gamall og nýr VII, bls. 6-7,  Sögufélagið gaf út 1940-1943. Seinna gaf hann út ítarlega sjálfsævisögu.

Sveinn Pálsson, læknir

Ég var að ljúka við grein um Svein Pálsson (1762-1840), lækni og náttúrufræðing í Vík sem byggð á fyrirlestri mínum á degi umhverfisins 2012 (frétt og mynd hér). Þar sem ég var að blaða í Blöndu, 5. bindi (úr bókasafni afa og ömmu), rakst ég á frásögn af Sveini og Páli prófasti í Hörgsdal. Séra Páll var á leið í afmælisfagnað Magnúsar sýslumanns á Höfðabrekku þegar hestur hans hrasaði í myrkri og hríðarbyl með þeim afleiðingum að vinstri fótur prófasts mölbrotnaði um hné. .“…var þá þegar sent til Sveins læknis Pálssonar í Vík, og kom sendimaður þangað í vökulok. Var það lán Páls prófasts í óláni, að slys þetta vildi til svo nærri lækni, því að þá var strjált um lækna hér á landi, og ekki nema einn læknir alt frá Reykjavík og í Austfjörðu; hittist svo á að þessi eini læknir var aðeins röskar tvær bæjarleiðir frá Höfðabrekku. Lá Páll prófastur síðan þar, hjá Magnúsi sýslumanni alt fram í miðjan maí í meiðslum þessum undir aðgerðum Sveins læknis. Þá var Sveinn freklega sjötugur og leið mjög örðug á vetrardag og opt snjóþungi milli Víkur og Höfðabrekku, en 35 sinnum vitjaði hann prófasts í legunni, ósjaldan fótgangandi í byljum og ófærð, var oft hjá prófasti dægrum saman“ (308-309). Í Blöndu er svo vitnað í dagbók Sveins frá 10. jan.-15.maí þar sem læknisvitjanirnar 35 eru tíundaðar. Fótbrot Páls var svo slæmt að Sveinn taldi „að ekki yrði hann græddur öðruvísi en að örkumlamanni, og yrði annað hvort að taka fótinn af um hnéð eða hann fengi liðamótalausan fótinn um hnjáliðinn, ef freistað væri að  halda honum og græða svo. Kaus prófastur að halda fætinum, og hafði hann staurfót upp þaðan og varð að ganga við hækjur æ síðan til dauðadags. Þoldi hann furðanlega ferðalög og sat undravel hesta, þótt fjörugir væru, en fylgdarmannslaus fór hann aldrei neitt eptir þetta“ (312).