Nóvember 1976

Nóvember 1976Skáldsagan Nóvember 1976 eftir Hauk Ingvarsson kom út 2011 en ég var að lesa hana núna fyrst í sumar. Hún er mjög fín,  vel skrifuð, fyndin og yfir henni notaleg nostalgía. Sjálf bjó ég í blokk (á Akureyri) 1976 en sagan fjallar um nokkra íbúa í blokk í Reykjavík sem allir hafa sinn djöful að draga og er um leið einskonar míníútgáfa af samfélaginu. Mjög gott form til að halda utan um persónugallerý  og söguþráð en vissulega hætta á að klisjur verði til. Það gerist þó ekki í þessari sögu þótt persónurnar séu ekki sérlega flóknar eða djúpar. Þær eru svo ljóslifandi, skoplega mannlegar í neyðarlegum aðstæðum, samtölin milli þeirra eru eðlileg og stórskemmtileg og sjónarhornið skiptist á milli þeirra. Sérstaklega eru kvenpersónurnar í sögunni flottar, bæði Dóróthea, kúskuð eiginkona Ríkharðs en hann er orðheppinn pungrotta og laus höndin, og Bíbí, mussan sem fer sínar eigin leiðir. Á sögutímanum er kvennabaráttan ótrúlega stutt á veg komin (og miðar enn hægt) og augljós er samúð sögumanns með málstað jafnréttis kynjanna. Konur vinna flestar heima og þjóna körlum sínum og börnum, þær sem stíga út fyrir það hefðbunda mynstur eru litnar hornauga. Kynslóðabilið er að verða til um þessar mundir, unglingarnir eru hálfvegis týndir og komnir í uppreisn gegn ríkjandi viðhorfum, s.s.nýtni og sparsemi, að vinnan sé dyggð og að það eigi að bera virðingu fyrir sér eldra fólki. Þóroddur er fulltrúi ungu kynslóðarinnar, latur og áttavilltur. Samfélagið er að opnast og breytast, hvort sem fólki líkar það betur eða verr. Litasjónvarpið er að ryðja sér til rúms og veldur á skemmtilega íronískan hátt straumhvörfum í lífi persónanna. Sagan er efni í hörkugóða bíómynd. Mæli með þessari bók, hér er góð gagnrýni um hana.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s