Mánasteinn

MánasteinnLengi hafði ég beðið nýrrar bókar Sjóns. Mánasteinn segir frá samnefndum dreng í Reykjavík og hefst sagan síðla árs 1918, sem er sögulegt ár: heimstyrjöld lauk, frostaveturinn mikli og Kötlugos, spænska veikin geisaði og Íslendingar urðu fullvalda þjóð. Það er þó ekki verið að fjalla um þessa merku atburði heldur er athyglin á almenningi og samfélaginu sem það bjó í, sögumaður slær úr og í með veruleika og skáldskap og heldur manni sífellt  á tánum, drengurinn er ættfærður í bókarlok en var aldrei til. Máni Steinn er munaðarlaus, vinalaus og utangarðs og hættur í skóla. Hann er óskabarn óhæfunnar sem selur blíðu sína í skúmaskotum og drekkur í sig drama úr bíómyndum, hvort tveggja talið ósiðlegt athæfi. Hin dularfulla Sóla Guðb- er draumadísin en drengurinn gerir varla greinarmun á henni og kvikmyndastjörnum. Örlögin haga því svo að hann verður aðstoðarmaður læknisins og Sólu í Reykjavík í níu daga og þannig gefst færi á að fara í húsvitjun og horfa á bæinn breyta um ásýnd, verða að auðri sviðsmynd fyrir ískyggilega atburði (50). Þá skyndilega er hann orðinn hluti og þátttakandi í samfélaginu en honum er síðan úthýst jafn skyndilega.. Skemmst er frá því að segja að sagan er spennandi og afspyrnu vel skrifuð, lýsingar myndrænar og ljóðrænar  og beiting sjónarhorns minnir margoft á kvikmyndatækni (maðurinn er jú myndavél). Senur eru dimmar og dramatískar og renna vel, t.d. þegar drengurinn býður fóstru sinni í bíó og þegar verið er að fagna fullveldinu, drengurinn gleymir sér  í djúpum bíópælingum undir hástemmdum ræðum, kemur svo auga á myndarlegan matrós og þeir draga sig í hlé inni á lager.  Hræsni og fordómar losna aldeilis úr læðingi þegar drengurinn er gripinn glóðvolgur og látinn taka úr refsingu sína. Kynlífssenur eru ljóslifandi og ekkert dregið undan, ekkert gefið í skyn eða væmið rósamál hér, aðeins köld linsa og kastarar á allt draslið.

Drengurinn leitar skjóls í heimi kvikmyndanna, hann horfir á samfélagið og sjálfan sig þaðan, órar hans og draumar eiga rætur sínar þangað að rekja, í heim myrkurs, vampýra og skuggalegs myndmáls. Bókin er prýdd nokkrum draugalegum myndum, skemmtilegum tilvitnunum og ótal vísunum vítt og breitt. Mögnuð saga og sannarlega biðarinnar virði.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s