Týndar konur

Bækur sem gerast í fjarlægum löndum hafa alltaf heillað heimalninginn. Þær lýsa framandi lífi, siðum og trúarbrögðum og hafa vakið mikinn áhuga sannkristinna Vesturlandabúa síðustu ár og sannfært þá um yfirburði eigin menningar. Bækur þessar gerast t.d. í Austurlöndum og segja frá kúgun kvenna í nafni bókstafstrúarbragða, sárri fátækt, misþyrmingum, kynlífsþrælkun og nauðungarhjónaböndum. Oftast snýr ofbeldið og misréttið að konum og börnum. Nú bætist í hópinn bók eftir mexíkóskan rithöfund, Jennifer Clement, sem heitir Beðið fyrir brottnumdum. Clement ólst upp í Mexíkó, sem er einn helsti framleiðslustaður og dreifingarstöð eiturlyfja í heiminum eins og kunnugt er, og skrifar um hlutskipti kvenna þar í landi.

Í bókinni segir frá ungri stúlku sem heitir Ladydi „eins og dána prinsessan“ (202) og býr með meinyrtri og drykkfelldri móður sinni í Guerrero-fjallahéraðinu í Mexíkó. Þær mæðgur hokra við þröngan kost, hitinn er þrúgandi og allt morar af eitruðum köngulóm, snákum, risastórum kakkalökkum, maurum og sporðdrekum, sem þó eru smámunir einir samanborið við þá ógn sem íbúum héraðsins stafar daglega af melludólgum og fíkniefnasölum sem ryðjast inn og nema unglingsstúlkur á brott. Mæður bregða á það ráð að dulbúa dætur sínar sem syni, sverta tennur þeirra og skera hárið til að gera þær óaðlaðandi. Þær hverfa samt ein af annarri en hin gullfallega Paula er sú eina sem snýr aftur, þögul og gengin í barndóm með brunasár eftir sígarettuglóð um allan líkamann. Allir karlmenn í héraðinu sem vettlingi geta valdið eru löngu farnir til Acapulco eða yfir landamærin til Bandaríkjanna í leit að ameríska draumnum. Þetta er land yfirgefinna, varnarlausra og brottnuminna kvenna.

„Týnd kona er bara enn eitt laufið sem hverfur ofan í ræsið í rigningu,“ (63) er viðkvæðið í Mexíkó. Stjórnvöld skeyta engu um grundvallarmannréttindi og láta ofbeldið afskiptalaust enda eru þau gerspillt og vanhæf. Einu viðbrögð þeirra til að sporna við dópframleiðslunni eru að láta herinn úða plöntueitri yfir valmúaakrana en þyrluflugmennirnir óttast að verða skotnir niður og sáldra eitrinu þess í stað yfir fjallaþorpin, skólahúsið og lágreista kofana.

Forlagið

Forlagið

Frá þessum hörmungum er sagt á seiðandi kaldrifjaðan hátt. Tungutakið einkennist af hráu og grimmu raunsæi sem þýðandinn, Ingunn Snædal, kemur afar vel til skila. „Ég bara sneri mér alveg við, innviðunum út, beinin voru utan á mér, og hjartað hékk þarna á miðju brjósti mér eins og heiðursmerki. Þetta var bara einum of mikið, ég varð að hvíla mig … ég vissi að þessi maður gat séð alveg inn í mig, lifrina í mér og mænuna. Hann hefði getað rétt út höndina og hrifsað augað af andliti mínu eins og vínber,“ (57) segir móðir Ladydi á sinn beinskeytta og hispurslausa hátt.

Dregnar eru fram gríðarlegar andstæður á lífskjörum fólks í sögunni, geypilegur munaður andspænis sárustu örbirgð. Hér er ekki snefill af hinu ljúfa suðurameríska töfraraunsæi heldur harður veruleiki, misrétti, ofbeldi og örvænting, og mannslíf er einskis virði. Það er staðreynd að unglingsstúlkum í Mexíkó er rænt á götum úti á degi hverjum, af skólalóðinni og af heimilum sínum og seldar mansali. Þær eru meðal þúsunda fórnarlamba fíkniefnastríðs sem geisað hefur í landinu árum saman.

„Það er frægt um allt Mexíkó að fólkið frá Guerrero-héraði er barmafullt af reiði og álíka hættulegt og hvítur, glær sporðdreki sem felur sig undir koddanum manns“ (21). Ladydi er hörð í horn að taka, hefur ótrúlega aðlögunarhæfileika og gengur í gegnum hverja eldraunina á fætur annarri í sögunni. „Ef einhver vildi búa til tákn eða fána fyrir okkar hluta af heiminum ætti það að vera plastsandali,“ segir mamman (83) en í bókarlok kippir hún rauðu plastsandölunum af fótum Ladydi og hendir þeim út um bílglugga (213). Vonandi táknar það að Ladydi feti nýjar slóðir og að það sé einhver von um framtíð fyrir kvenþjóðina í Mexíkó.

Ein athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s