Mexíkó

„Bókmenntirnar koma mér í gröfina“

2000

Frá blóðbaðinu í Tlatelolco, 1968

Að lokast inni á klósetti er ekki það skáldlegasta sem getur skeð. En í skáldsögu sem gerist í Mexíkó 1968 eftir heimsfrægan, chileanskan rithöfund sem lést langt fyrir aldur fram, getur allt gerst.

Á síðustu árum hefur leitað mjög á listamenn að gera upp við hugmyndir og atburði kynslóðar sem kennd er við 1968. Undir lok sjöunda áratugarins var eins og bylgja frelsis og andófs flæddi um heiminn, ungt og áræðið fólk reis gegn stöðnun og kúgun í þjóðfélaginu en íhaldssamir einræðisherrar og valdasjúkar herstjórnir reyndu að berja það niður með valdi og veittust sérstaklega að  háskólum þar sem gagnrýnin hugsun og ný vísindi voru í gerjun. Stúdentaóeirðir brutust út og enduðu oftar en ekki með ofbeldi og blóðbaði sem settu mark sitt á söguna.

Áhrifamikill höfundur

filesSkáldsagan Verndargripur eftir Roberto Bolaño (1953-2003) gerist einmitt þetta fræga ár. Þetta er fyrsta bók höfundar sem kemur út á íslensku en hann er talinn „áhrifamesti höfundur sem komið hefur frá hinum spænskumælandi heimi síðastliðin 30-40 ár“, eins og Ófeigur Sigurðsson segir í flugmælskum eftirmála þýðingar sinnar. Hann þýðir úr frummálinu sem er einkar lofsvert og ekki annað að sjá en þýðingin sé stórgóð. Seint verður þökkuð eins og vert er öll sú erfiðisvinna sem þýðendur leggja á sig við að færa íslenskum lesendum heimsbókmenntir.

Ævisaga Roberto Bolaño er rakin stuttlega í eftirmálanum en fjölmiðlar og bókaútgefendur hafa afbakað hana og blásið út til að maka krókinn. Hann lést aðeins fimmtugur að aldri: „Það eru bókmenntirnar, sagði Bolaño í einu af síðustu viðtölunum sem hann veitti, sem eru að rústa heilsu minni og koma mér í gröfina“ (184).

Á kvennaklósettinu

Sagan tengist raunverulegum atburðum (Bók vikunnar). Í september 1968 réðst mexíkanski herinn inn í háskóla Mexíkóborgar, UNAM, og handtók bæði nemendur og kennara. Hópur fólks var leiddur á brott og voru menn ýmist fangelsaðir, pyntaðir eða teknir af lífi. Í sögunni sleppur ein stúlka undan hermönnunum og lokast inni á kvennasalerni í skólanum. Þar hírist hún í dögum saman, les ljóðabók, grætur yfir glötuðum tíma, hripar gömul kvæði á klósettpappír og sturtar þeim niður og lætur hugann reika um dimma dali fortíðar, þjáningu mannlífsins og mátt skáldskaparins:

„Ég hugsaði: þrátt fyrir öll mín klókindi og allar mínar fórnir, þá er ég búin að vera. Ég hugsaði: það var mjög ljóðræn athöfn að eyðileggja skrifin mín. Ég hugsaði: það hefði nú verið betra að gleypa þau, nú er ég búin að vera. Ég hugsaði: hégómi skriftanna, hégómi eyðileggingarinnar. Ég hugsaði: vegna skriftanna spyrnti ég við fæti. Ég hugsaði: vegna þess að ég eyðilagði skrifin munu þeir finna mig, þeir munu berja mig, þeir nauðga mér, þeir drepa mig. Ég hugsaði: þessir tveir hlutir eru tengdir, að skrifa og eyðileggja, fela sig og vera fundin…“ (172).

Hálfskrýtin og tannlaus fyllibytta

Aðalpersónan, Auxilio Lacouture, er með indjánablóð í æðum. Hún kallar sig móður skálda og verndara ljóðlistar. Hún segist vera vesæl, úrúgvæsk skáldkona og ferðalangur án vegabréfs, hún þvælist um ganga háskólans en er þó ekki námsmaður, vinnur stopult og býr hvergi, dandalast bara með hinum og þessum stefnulaust. Hún virkar eins og hún sé hálfskrýtin og tannlaus fyllibytta, hangir á börum með ungu menntafólki sem spjallar um bókmenntir og listir. Minni hennar er gloppótt og sjónarhornið hálfbrjálað, reikult og óáreiðanlegt. En hún hefur húmor fyrir sjálfri sér og lífinu öllu:

„Ég hló að pilsunum mínum, þröngu buxunum mínum, að röndóttu sokkabuxunum mínum, að Prins Valíant-klippingunni, hárinu sem varð með degi hverjum minna ljóst og meira hvítt, að augum mínum sem grannskoðuðu nætur Mexíkóborgar, að rauðum eyrum mínum sem hlustuðu á sögurnar í háskólanum, um stöðuhækkanir og stöðulækkanir, ómerkingana, þá hunsuðu, smjaðrarana, skjallarana, fölsku verðleikana, titrandi rúmin sem þau skriðu úr og skriðu aftur upp í undir nötrandi himni Mexíkóborgar, þessum himni sem ég þekkti svo vel, þessu róstusama og óaðgengilega himni, sem var eins og astekapottur sem ég gekk lífsglöð undir, með öllum skáldum Mexíkó…“(47).

Ástin og myrkrið

Textinn einkennist af hiki og flæði í senn, ljóðrænu og röfli, eintali og upptalningum, alls konar óreiðu og vísunum í sögu og bókmenntir Suður-Ameríku sem oft er erfitt að bera kennsl á fyrir ókunnuga. Athugasemdir þýðanda neðanmáls eru hjálplegar auk eftirmálans sem er skyldulesning. Öllu ægir saman, kvíða og kulda, grimmum veruleika og fornum goðsögnum; tíminn er óljós og óraunverulegur, persónur sögunnar þvælast stefnulaust um stræti og torg í ölæði og angist en alls staðar er þessi heiti lífskraftur og ástin til skáldskaparins.

Margt er myrkt í þessari sögu. Auxilio er óvenjuleg persóna, lifandi goðsögn og útigangskona á einhverju óljósu ráfi um þessa risavöxnu borg og undirheima hennar. Voveiflegir atburðir úr ofbeldisfullri fortíð ryðjast fram og ýta við lesandanum sem verður bæði ráðvilltur og sorgmæddur.

En hver er verndargripurinn sem sagan dregur nafn sitt af? Er það háskólinn, miðstöð mennta og framfara? Skáldskapurinn sem stúlkan sökkti sér niður í meðan lífið steypti stömpum fyrir utan klósettdyrnar? Nei, það er ekkert einfalt í þessu myrkraverki. Í lok sögunnar hljómar draugalegur söngur ungs fólks sem stefnir í vísan dauða og tengist sögu um kynslóð ungmenna sem var fórnað, um börn sem stefndu í stríð, „um hugrekkið og um speglana, um þrána og um gleðina. Og þessi söngur er okkar verndargripur“ (181).

Sæmundur, 2016

187 bls.

Birt í Kvennablaðinu, 31. október 2016

Ljósmynd úr Guardian.

Í regnskóginum

Tristes tropique eða Regnskógabeltið raunamædda (1955, á íslensku 2011) er einkennileg blanda af ferðasögu, sjálfsævisögu, mannfræðirannsókn og heimspekipælingum. Hinn frægi og goðsagnakenndi Claude Leví-Strauss starfað um hríð sem háskólakennari í Sao Paulo, stórborg í Brasilíu, og ferðaðist um frumskóga Amasón undir lok fjórða áratugar síðustu aldar.

Regnskógabeltið fjallar um ferðalög, landkönnuði og túrista, mannfræði og heimspeki, vestræna menningu andspænis suðrænni, mann og náttúru, um nýlendukúgun og arðrán, landnám Evrópubúa og þjóðarmorð. Það er skrifað í mjög myndrænum og útspekúleruðum (strúktúralískum) stíl og svarthvítar ljósmyndir höfundar úr regnskóginum prýða bókina.

Leví-Strauss lést 2009 rúmlega aldar gamall en þá voru allir hinir frægu, frönsku heimspekipoppararnir dauðir. Hann sjálfur var orðinn fótsár af ævinnar eyðimörk og hafði dregið sig í hlé frá skarkala heimsins fyrir löngu. Pétur Gunnarsson vann að þýðingu bókarinnar úr frummálinu í hjáverkum um 17 ára skeið, listavel eins og hans er von og vísa. Áður hefur komið út eftir Leví-Strauss á íslensku ritgerðin Formgerð goðsagna (Sporin, 1991), sem ég las í háskólanum hjá Matthíasi Viðari á sínum tíma og var sannarlega hugvekja.

Það var áhugavert að rifja þessa bók upp í námskeiði um Travel Studies við Univerzita Karlova í Prag á dögunum. Einkum vegna þess að einn nemandinn er frá Mexíkó og hafði sterkar skoðanir á sýn höfundar á frumbyggjana og benti á dæmi þess að Leví-Strauss væri sjálfur ekki alveg laus við þann hroka og yfirgang sem hann gagnrýnir í bók sinni.

A-PROPOS-DE-TRISTES-TROPIQUES-PR_medium

Úr Tristes Tropique, zaradoc.com

Týndar konur

Bækur sem gerast í fjarlægum löndum hafa alltaf heillað heimalninginn. Þær lýsa framandi lífi, siðum og trúarbrögðum og hafa vakið mikinn áhuga sannkristinna Vesturlandabúa síðustu ár og sannfært þá um yfirburði eigin menningar. Bækur þessar gerast t.d. í Austurlöndum og segja frá kúgun kvenna í nafni bókstafstrúarbragða, sárri fátækt, misþyrmingum, kynlífsþrælkun og nauðungarhjónaböndum. Oftast snýr ofbeldið og misréttið að konum og börnum. Nú bætist í hópinn bók eftir mexíkóskan rithöfund, Jennifer Clement, sem heitir Beðið fyrir brottnumdum. Clement ólst upp í Mexíkó, sem er einn helsti framleiðslustaður og dreifingarstöð eiturlyfja í heiminum eins og kunnugt er, og skrifar um hlutskipti kvenna þar í landi.

Í bókinni segir frá ungri stúlku sem heitir Ladydi „eins og dána prinsessan“ (202) og býr með meinyrtri og drykkfelldri móður sinni í Guerrero-fjallahéraðinu í Mexíkó. Þær mæðgur hokra við þröngan kost, hitinn er þrúgandi og allt morar af eitruðum köngulóm, snákum, risastórum kakkalökkum, maurum og sporðdrekum, sem þó eru smámunir einir samanborið við þá ógn sem íbúum héraðsins stafar daglega af melludólgum og fíkniefnasölum sem ryðjast inn og nema unglingsstúlkur á brott. Mæður bregða á það ráð að dulbúa dætur sínar sem syni, sverta tennur þeirra og skera hárið til að gera þær óaðlaðandi. Þær hverfa samt ein af annarri en hin gullfallega Paula er sú eina sem snýr aftur, þögul og gengin í barndóm með brunasár eftir sígarettuglóð um allan líkamann. Allir karlmenn í héraðinu sem vettlingi geta valdið eru löngu farnir til Acapulco eða yfir landamærin til Bandaríkjanna í leit að ameríska draumnum. Þetta er land yfirgefinna, varnarlausra og brottnuminna kvenna.

„Týnd kona er bara enn eitt laufið sem hverfur ofan í ræsið í rigningu,“ (63) er viðkvæðið í Mexíkó. Stjórnvöld skeyta engu um grundvallarmannréttindi og láta ofbeldið afskiptalaust enda eru þau gerspillt og vanhæf. Einu viðbrögð þeirra til að sporna við dópframleiðslunni eru að láta herinn úða plöntueitri yfir valmúaakrana en þyrluflugmennirnir óttast að verða skotnir niður og sáldra eitrinu þess í stað yfir fjallaþorpin, skólahúsið og lágreista kofana.

Forlagið

Forlagið

Frá þessum hörmungum er sagt á seiðandi kaldrifjaðan hátt. Tungutakið einkennist af hráu og grimmu raunsæi sem þýðandinn, Ingunn Snædal, kemur afar vel til skila. „Ég bara sneri mér alveg við, innviðunum út, beinin voru utan á mér, og hjartað hékk þarna á miðju brjósti mér eins og heiðursmerki. Þetta var bara einum of mikið, ég varð að hvíla mig … ég vissi að þessi maður gat séð alveg inn í mig, lifrina í mér og mænuna. Hann hefði getað rétt út höndina og hrifsað augað af andliti mínu eins og vínber,“ (57) segir móðir Ladydi á sinn beinskeytta og hispurslausa hátt.

Dregnar eru fram gríðarlegar andstæður á lífskjörum fólks í sögunni, geypilegur munaður andspænis sárustu örbirgð. Hér er ekki snefill af hinu ljúfa suðurameríska töfraraunsæi heldur harður veruleiki, misrétti, ofbeldi og örvænting, og mannslíf er einskis virði. Það er staðreynd að unglingsstúlkum í Mexíkó er rænt á götum úti á degi hverjum, af skólalóðinni og af heimilum sínum og seldar mansali. Þær eru meðal þúsunda fórnarlamba fíkniefnastríðs sem geisað hefur í landinu árum saman.

„Það er frægt um allt Mexíkó að fólkið frá Guerrero-héraði er barmafullt af reiði og álíka hættulegt og hvítur, glær sporðdreki sem felur sig undir koddanum manns“ (21). Ladydi er hörð í horn að taka, hefur ótrúlega aðlögunarhæfileika og gengur í gegnum hverja eldraunina á fætur annarri í sögunni. „Ef einhver vildi búa til tákn eða fána fyrir okkar hluta af heiminum ætti það að vera plastsandali,“ segir mamman (83) en í bókarlok kippir hún rauðu plastsandölunum af fótum Ladydi og hendir þeim út um bílglugga (213). Vonandi táknar það að Ladydi feti nýjar slóðir og að það sé einhver von um framtíð fyrir kvenþjóðina í Mexíkó.