Tvífari kominn á kreik

Skáldið. Mynd úr Kvennablaðinu

Skáldið. Mynd úr Kvennablaðinu

Ég var svo heppin að ná í eintak af nýjustu ljóðabók Antons Helga Jónssonar. Hún ber hið skemmtilega heiti Tvífari gerir sig heimakominn sem er ekki síðri titill en á síðustu ljóðabók hans, Tannbursti skíðafélagsins og fleiri ljóð. Anton Helgi er gamalreyndur í bransanum og kemur nú sterkur inn með hverja ljóðabókina á fætur annarri eftir áratuga hlé frá ritstörfum en hann var öflugur þýðandi, ljóðasmiður og leikritaskáld á síðustu áratugum 20. aldar (sjá hér). Í nýju bókinni er m.a. að finna hversdagslegar myndir úr lífi skálds og meðaljóns, hnyttnar hugmyndir og ádeilubrodd.

Ádeilan beinist ekki síst að sofandahætti og þrælslund sem skáldinu þykir ríkjandi í samfélagi okkar. „Kaffi og ég eitthvað“ (45) dregur upp skonda en beitta mynd af hlýðnum þjóðfélagsþegn sem gerir „allt fyrir samlyndið“ og hlýðir fyrirmælum kaffivélarinnar í blindni. Sama þegnskylda er á ferð í skemmtilega tvíræðu ljóði, „Miðaldra biðskyldumerki“ (10) en þar ríkja einnig hrópandi einsemd og vonleysi sem snerta streng í brjósti lesandans. Samfélagskyldunum er hins vegar gefið langt nef í ljóðinu „Störukeppni sunnan undir vegg“ (30) þar sem eftirlitsmyndavél gýtur auga á manneskju sem gerir sér lítið fyrir og gyrðir niður um sig. „Útsýnið frá Borgartúninu“ er tæpitungulaust og napurt ljóð, landslagið breytist ekki þótt maður sé gjaldþrota hálfviti og blábjáni, barinn þræll húsnæðislána, okurvaxta og vísitalna fram á grafarbakkann og engrar samúðar að vænta.

Nokkur ljóðanna eru býsna beitt þótt þau láti kannski lítið yfir sér. Í ljóðinu „Maður kominn á aldur flettir blaðinu“ er sterk stríðsádeila og þemað minnir á hið sígilda Slysaskot í Palestínu eftir Kristján frá Djúpalæk. Nokkur ljóðanna innihalda pælingar um lífið og tilveruna þar sem greina má söknuð og eftirsjá. Í „Eftirþönkum leiktjaldamálarans“ segir frá helgidögum og merkingu þeirra og því að óvíst er hvaða orð lýsa skáldinu best þegar upp er staðið: „þau sem ég sagði og setti á blað / eða hin sem mér hugkvæmdist ekki að nota“ (50). Í einu ljóði er beðið eftir „sektarlausa deginum“ á bókasafni lífsins, þegar bókinni sem útskýrir allt verður skilað, þar sem stendur „hvenær ég á að deyja“ (55). Það er skemmtileg pæling. Ljóðið „Lúr í vagninum“ lýsir lífinu á örskotshraða, allt í einu er tíminn liðinn, búinn, horfinn og gamall maður verður aftur barn. Ísmeygilega kaldhæðni má sjá í tvíræðu og bráðsnjöllu ljóði, sem heitir „Heitstrenging síðasta víkingsins“ (32), þegar milljónasti túristinn stendur í skafrenningi og hríðarkófi í miðjum Kömbunum og við sjáum þá loksins „ljósið“. Og ekki þarf lengur að leita að tilgangi lífsins segir skáldið, því hann er fundinn; hann er auðvitað í mollinu!

Einkunnarorð bókarinnar eru fengin úr bítlalaginu fræga um Eleanor Rigby og einsemd og eftirsjá tengjast augljóslega efni margra ljóðanna. Það er gleðiefni að Tvífarinn er kominn á kreik, hann er kíminn, samsettur úr margbrotinni þjóðarsál, virðist kannski meinlaus en getur verið skeinuhættur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s