Fallinn engill

Englaryk-Forlagið

Unglingsstúlkan Alma setur allt á annan endann í fjölskyldu sinni og í bænum sem hún býr í. Brugðið er á það ráð að koma henni í meðferð til geðlæknis, samt er hún ekki veik, vandræðagemsi, fíkill, vændiskona eða afbrotaunglingur – nei, hún var týndur sauður sem fann Jesú og vill breiða út fagnaðarerindið.  Er það svo hræðilegt? Það er ekki hægt annað en að taka  undir með geðlækninum sem segir: „Það hefur nú margt enn hrikalegra verið gert í Jesú nafni. Stríð hafa verið háð. Menn pyntaðir. Konur brenndar lifandi“ (53). En boðskapur Jesú á ekki upp á pallborðið í nútímanum, t.d. það að maður eigi ekki að tilbiðja hluti og peninga heldur elska náungann og skipta öllu jafnt  (70). Enginn vill hlusta og Alma er eiginlega kaffærð í vísindalegri rökhyggju og þögguð niður. Foreldrarnir hafa áhyggjur af framtíð dótturinnar, sá sem sker sig úr og brýtur „reglur samfélagsins á erfitt uppdráttar, segir mamman, reglurnar fara eftir aldri, kynferði og fjárhagslegri stöðu“ (177) en mest óttast þeir að missa  hana út í trúarofstæki eða að hún gangi í sértrúarsöfnuð. Helst vilja foreldrarnir skyndilausn sem felst í að kaupa sálfræðimeðferð og „lækna“ hana í snarhasti, svo hægt sé að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. Svona er söguþráður Englaryks, nýrrar skáldsögu Guðrúnar Evu Mínervudóttur, í stórum dráttum.

Kristindómur er í augum margra Íslendinga eitthvað sem ómar á rúv á sunnudögum og tengist frídögum og jarðarförum í stórfjölskyldunni.  Fæstir eru tilbúnir til að hlusta á trúarboðskap yfir kaffibollanum eða pæla til lengdar í kristilegum kærleiksblómum.  Alma, sem líka er of ung og loftkennd til að hægt sé að taka almennilegt mark á henni, mætir því miklu mótlæti í frelsun sinni, fórnum og baráttu fyrir betri heimi. Í sögunni er ætlunin að velta upp siðferðislegum spurningum og og fjalla um fordóma og margs konar vandamál, s.s. trúarbrögð, framhjáhald, fóstureyðingar,  alkóhólisma og rasisma. „Þið kallið alla Kínverja sem koma frá Asíu. Fólk er kannski frá Taílandi eða Malasíu eða Japan en þið segið bara Kínverjar. Svo getið þið ekki minnst á Indverja án þess að bæta við „rice and curry“ með einhverjum svona kjánalátum. Þið talið um litarhátt fólks eins og smákrakkar. Þið segið: brúnn, svartur, gulur, eins og það sé aðalmálið, eins og það sé sjálfsagt að flokka fólk svona niður. Samt viljið þið ekki kannast við að húðlitur skipti neinu máli, að hvíta fólkið hafi forréttindi…“ (182) segir John, nýbúi í bekknum hennar Ölmu. En einhvern veginn kviknar ekki almennilega í sögunni þrátt fyrir nægan eldivið. Persónurnar eru einfaldar og ná varla að hreyfa nægilega við lesandanum. Foreldrar Ölmu eiga sínar hversdagslegur krísur og gengur ekki vel að rækta hjónabandið, Snæbjörn er þorpsfyllibyttan sem Alma reynir að bjarga með því að boða honum guðs orð og svo er það geðlæknirinn, fulltrúi vísindanna, sem tengist fjölskyldunni á „óvæntan“ hátt. Þetta fólk er einhvern veginn dauflegt og fjarlægt.

Stundum fannst mér ég vera að lesa unglingabók þar sem hvorki mætti fara of djúpt né draga of mikið úr. Ágætis kaflar eru hér og hvar um unglingamenningu og unglinga yfirleitt, þessa skankalöngu klunna sem eru hvorki börn né fullorðnir en vita alveg sínu viti og eiga framtíðina fyrir sér. Bróðir Ölmu, Sigurbjartur, er einn af þeim. Afskaplega geðþekkur unglingur, hangir inn í herberginu sínu með stór áform, er engum háður og hefur hreinsað huga sinn af kynlífsórum. Það er auðvelt að taka undir með honum þegar hann segir: „trúarbrögð eru það sem mótar líf margra í heiminum meira en flest annað og þess vegna væri beinlínis heimskulegt að hafa engan áhuga á þeim“ (114). Hann er heillandi karakter sem er að uppgötva sjálfan sig, m.a. í gegnum kynlíf en sú sena í bókinni er frekar   tepruleg.   Eina persónan sem einhver töggur er í er presturinn. Hann er mannlegur  í afstöðu sinni, breyskur og einmana og á margar góðar ræður sem sýna vel hræsni hans og  yfirdrepsskap. Samskipti hans og Ölmu í fermingarfræðslunni eru bestu sprettirnir í sögunni, þar takast á trú og efahyggja, lítilmagni gegn yfirvaldi, engill gegn stofnun, töfrar og merking gegn stirðnaðri orðræðu og klisjum.

Trúarbrögð er viðkvæmt efni í skáldsögu og eldfimt en býður upp á endalausa möguleika. En þótt lagt sé upp með eitthvað í Englaryki rennur það út í sandinn, sagan verður aldrei nógu grípandi, áleitin, djörf eða grimm til að hreyfa við fólki sem hefur gleymt sínum guði og tapað sér í efnishyggju og sjálfselsku fyrir óralöngu.

2 athugasemdir

  1. Vel skrifaður ritdómur systir góð, á maður að spara sér lesturinn á þessari eða….. þetta er spennandi efni og leiðinlegt ef þetta rennur svo bara út, gæti verið skemmtilegt í leshring að ræða þetta efni 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s