Ekki meir!

Rogastanz

Söguþráður Rogastanz eftir Ingibjörgu Reynisdóttur er í stórum dráttum á þessa leið: Einhleyp og barnlaus kona (42) sem er smá brussa og drekkur aðeins of mikið, býr í 101 og á skrautlegan vinahóp, hittir draumaprinsinn en þarf að yfirstíga ýmsar hindranir, s.s. fordóma og afbrýðisemi, til að geta höndlað hamingjuna.  Allt hljómar þetta frekar ófrumlega en kemur kannski ekki að sök í bókarkorni ef efnistök, mál og stíll eru nýstárleg eða spennandi, erindið brýnt eða hægt er að bjarga sér fyrir horn með góðum húmor. Því er bara ekki að heilsa í þessari bók.

Það slær lesandann strax að sagan er að mestu skrifuð í nútíð sem virkar yfirmáta ankannalegt.  Það er eins og verið sé að lesa handrit að sjónvarpþáttum eða fyrirmæli í leikriti:

„Sara veit hvorki í þennan heim né annan. Við hlið hennar  sefur næturgestur eins og ungbarn, vafinn í mjúka dúnsæng. Það hvílir ró yfir hlýlegri íbúðinni. Á gömlum tekkskenk hringsnýst vínylplata á eikarklæddum „vintage“ Pioneer-plötuspilara frá árinu 1975. Nálin í spilaranum hjakkar í djúpri rispu á ágætu lagi hljómsveitarinnar Smokie, Living next door to Alice. Á sófaborðinu standa tvö vínglös ásamt tómri rauðvínsflösku. Karlmannsjakki hangir á stólbaki og taska Söru liggur opin í sófanum“ (5).

Persónurnar eru kynntar til sögu með ítarlegri upprifjun á fortíð þeirra sem gerir lítið fyrir framvinduna og lengir söguna sem er alveg nógu löng fyrir (334 bls).  Gallerýið er ansi skrautlegt, enda lífið svo skemmtilegt og fjölbreytt hér á landi, besti vinurinn er hommi, besta vinkonan er dönsk lesbía. Þegar Sara keyrir vinkonuna í mæðraskoðun rekst hún utan í bíl nágrannans sem þá ryðst inn í söguna og gerist ansi fyrirferðarmikill. Hann er karlrembusvín eins og þau gerast verst, með bjórbauk í annarri hendinni og fjarstýringuna í hinni. Og Borislav, eins og hann heitir, er útlendingur í ofanálag, verkamaður sem býr í Breiðholtinu og ætlar að verða ríkur af Tupperware-sölu. Er hægt að vera fyrirlitlegri á mælikvarða lopatreflanna?  Tilgangurinn með yfirgangi hans í sögunni er væntanlega sá að vekja athygli á veikri stöðu margra kvenna og varpa ljósi á meðvirkni Söru en þetta verður afskaplega tuggið og þreytt þema til lengdar.

Stíllinn er tilþrifalaus og flatur,  ég man eftir einu skemmtilegu orðasambandi í allri sögunni, það er þegar nál sem hjakkar í bilaðri plötu verður hvíldinni fegin. Mig rak í rogastans þegar allt fór upp í loft í bókarlok og sagan endar í óvissu, eins og von sé á annarri seríu í þessari sápuóperu.  Vonandi verður  ekki af því, ekki vildi ég hitta neina af þessum persónum aftur. Það vekur athygli að á bókarkápu segir: Þessi saga byggist á persónum og atburðum sem eiga sér stað í raunveruleikanum. Er það eitthvað sérstakt?

Kvennablaðið, 27. jan. 2015

Ein athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s