Dauðinn er víst það eina sem við getum reitt okkur á í þessu lífi. Hann er þrátt fyrir það furðu mikið tabú í nútímasamfélagi. Á öldum áður var nálægð dauðans hversdagsleg, fólk lá sjúkdóms- og banaleguna heima hjá sér, slasaðir voru færðir heim í baðstofu til aðhlynningar og börn fæddust í mömmubóli. Með sjúkdómavæðingu, lyfjaframleiðslu og sérnámi í læknisfræði færðist dauðinn inn á sjúkrastofnanir. Sjúklingurinn varð til sem viðfang skýrslu og rannsókna, settur í sótthreinsað umhverfi og meðhöndlaður með klínískum aðferðum. Nánustu aðstandendur áttu ekki að þvælast fyrir, læknirinn átti lokaorðið því hans var valdið og þekkingin. Á allra síðustu árum hefur þróunin orðið sú að dauðvona fólk fær að vera heima hjá sér ef það kýs eins lengi og unnt er og aðstandendur fá að vera með í ferlinu.
Þrátt fyrir þá staðreynd að dauðinn bíður okkar allra er hann ekki mikið ræddur svona hvunndags en með útbreiðslu samfélagsmiðla hefur hann ratað á netið. Nú er svo komið að ekki er óalgengt að fylgjast með sjúkdómsbaráttu og dauða á netinu og stundum flýgur andlátsfregnin hraðar á facebook en um símalínurnar. Vilborg Davíðsdóttir bloggaði um það á sínum tíma hvernig krabbamein í heila lék eiginmann hennar og dró loks til dauða í ársbyrjun 2013. Pistlar hennar vöktu athygli fjölmiðla, lesendur þökkuðu henni fyrir skrifin og deildu með henni eigin reynslu af ástvinamissi (162). Þessi reynsla Vilborgar varð síðan efni í bókina Ástin, drekinn og dauðinn sem kom út á dögunum. Bókin er byggð upp eins og ævintýri þar sem prinsinn og prinsessan una glöð við sitt þar til drekinn ógurlegi vaknar og slær til halanum. Úrvinnsla Vilborgar á þessu efni er einstaklega vönduð og skemmst er frá því að segja að bókin sker hvaða harðjaxl sem er í hjartað. Hún er vel skrifuð og aldrei væmin, myndræn og skáldleg og um leið er hún ofurraunsæ. Í gegnum nákvæmar frásagnir af tölvusneiðmyndum Björgvins, vonum hans og vonbrigðum, lyfjagjöf og flökurleika, kvíða og ótta, útlitsbreytingum, málstoli og verkstoli má lesa hversu gríðarlegt farg er lagt á aðstandendur. Og ekki síður eftir á, við að takast á við tilveruna að nýju, snúa til vinnu, kljást við erfðamál, garfa í lífeyrisréttindum o.fl. Af frásögn Vilborgar má ráða að þeim hjónum hafi lánast að nota tímann vel, horfa á björtu hliðarnar og reyna að æðrast ekki. Boðskapur bókarinnar er skýr, hann snýst um að lifa í núinu, njóta stundarinnar og reyna að skilja hversu dýmæt litlu augnablikin eru, því þau eru lífið sjálft (265).
Dauðinn er sígilt yrkisefni í bókmenntum, sveipaður ógn, grimmum goðsögnum og óhugnanlegu tákn- og myndmáli. Það er löngu tímabært að svipta hann tabúhulunni, horfast í augu við hann sem hluta af lífinu og taka honum eins og hann er. Sorg og dauða fylgir ekki bara táraflóð, sorg og reiði heldur líka æðruleysi og nýr lærdómur. Um það fjallar Vilborg ákaflega vel og viturlega. Áttatíu lítrar er víst meðaltalið af tárum sem við úthellum yfir ævina (235) og hluta þeirra mun lesandinn vafalítið fella við lestur þessarar fallegu bókar. Birt í Kvennablaðinu, 3. apríl 2015
Þarna kemstu vel að orði systir góð 🙂 eins og vanalega!