„Fyrir þrjátíu árum síðan hefði hegðun mín verið talin einn kostnaðarliða karlmennskunnar. Líklega hefði einhver þorað að segja að „strákar væru bara strákar“. Það væri þeim ekki eðlislægt að lesa í fínleg og flókin skilaboð kvenna. Þær gætu sjálfum sér um kennt. Nú er þessi lestrarhæfileiki orðinn lífsnauðsynlegur ef við ætlum að eiga í farsælum samskiptum við konur. Svo við endum ekki á bak við lás og slá“ (172)
Hegðun Sölva Kárasonar gagnvart Söru, kærustunni sinni, kristallar hvernig kærasti á ekki að vera. Hann er tillitslaus og sjálfhverfur, gerir lítið úr henni, móðgar hana og særir, hunsar hana og svíkur, bregst henni á ögurstundum, kúgar hana og misbýður henni í kynlífinu. Manneskja sem er flækt í slíkt niðurlægjandi hegðunarmynstur í ástarsambandi er of niðurbrotin til að sjá samhengið í skýru ljósi, eðlileg mörk þurrkast út og ofbeldið heldur áfram, jafnvel áratugum saman. Eftir eins árs stormasamt samband tekst Söru að rífa sig burt frá Sölva en sjálfsvirðing hennar er í molum. Hún berst við þunglyndi og skömm í nokkur ár uns hún leitar sér faglegrar hjálpar. En Sölvi er grunlaus um ofbeldið í sambandinu, unir glaður við sitt og á sér einskis ills von þegar Sara tekur til sinna ráða. Um þetta efni fjallar Valur Grettisson í fyrstu skáldsögu sinni, Góðu fólki.
Fórnarlömb kynferðisofbeldis, einkum konur, veigra sér við að sækja rétt sinn til dómskerfisins. Dæmin sanna að sú píslarganga er sjaldnast þess virði. En það er hægt að hafa önnur ráð til að ná réttlætinu fram og skila skömminni þangað sem hún á heima. Eitt þeirra er svonefnt ábyrgðarferli sem felst í að þrýsta á ofbeldismanninn til að horfast í augu við sjálfan sig, játa sök, taka ábyrgð og breyta hegðun sinni. Sara sendir Sölva formlegt bréf þar sem hann er krafinn um ábyrgð á gerðum sínum og hún setur harða skilmála, með það að markmiði að þau bæði geti síðan hafið eðlilegt líf og orðið betri manneskjur. En Sölvi sér enga sök hjá sér, það kemur algjörlega flatt upp á hann að hún skuli líta á hann sem ofbeldisfullan dóna og fant. Hann er þrítugur bóhem og blaðamaður í góðum fíling, kannski fær hann Edduna og hann er kominn með aðra kærustu fyrir löngu. Smátt og smátt birtast brotakenndar myndir úr sambandi þeirra Söru og velt er upp ágengum spurningum um hvar mörk ástar og ofbeldis liggja. Er Sölvi bara óforskammaður og illkvittinn náungi, borinn röngum sökum í kafkaísku drama? Órétti beittur í nafni réttlætis? Eða er hann illmenni, spilltur af alkóhólísku uppeldi, klámi og rugli? Og getur Sara sjálfri sér um kennt? Gat hún bara ekki hætt þessum leik þegar hæst stóð? Lítið fer fyrir sjónarhorni hennar í sögunni sem skapar togstreita í huga lesanda um um sekt eða sakleysi og hvenær ást verður ofbeldi.
Sölvi er vel gefinn, sjálfsöruggur og gagnrýninn hugsjónamaður. Hann brynjar sig með kaldhæðni og sjónarhorn hans á samfélagið er meinfyndið og íronískt: „Þannig kvarta póst-hipparnir yfir baununum í kakóinu sem við drekkum, og eru tíndar af börnum á Fílabeinsströndinni, með því að skrifa status á Facebook með rándýru Mac-eitthvað tölvunni sinni, sem tíu ára gömul þrælabörn settu saman fyrir hálfa krónu á tímann. Svona viljum við vel. Svona erum við góð“ (187). Sölvi er alls ekki tilbúinn til að gangast við óljósum ásökunum Söru. Hann brýtur skilmálana og brátt fer hrikta í öllu í kringum hann.
Í ljós kemur að sú skjólgóða og örugga tilvera sem hver maður skapar sér er viðkvæm og brothætt og við minnstu sprungu hrynur hún til grunna. Nú berast fréttir hratt um netmiðla og heiður fólks er auðvelt skotmark á þeim veiðilendum. Sölvi málar sig út í horn, kaldhæðnin, þrjóskan og fíknin ráða örlögum hans. Gott fólk er vel skrifuð og hörkuspennandi bók, persónur líflegar og viðfangsefnið brýnt. Hún skoðar karlmennsku, internetfemínistana, krúttkynslóðina, feðraveldið og alkabörnin í skörpu ljósi.
Bókmenntir sem endurspegla samfélagið eins og það er á hverjum tíma verða til þess að við sjáum hlutina í öðru ljósi. Gott fólk býður lesendum að horfast í augu við blákaldan raunveruleikann, draga mörk og verða gott fólk, þá verður heimurinn kannski örlítið betri.
Áhugaverð bók, nýtt sjónarhorn, hlakka til að lesa þessa:)