Blátt blóð, í leit að kátu sæði eftir Oddnýju Eir er gullfalleg bók hvar sem á hana er litið. Hún er í litlu broti, fallegur og eigulegur prentgripur, með bláu letri og bláum millisíðum, þunnum pappír, óvenjulegri leturgerð og stílhreinni og táknrænni bókarkápu með margræðum titli. Innihaldið er einnig fagurt, ljóðrænt, sárt, berort og fyndið. Formið er svokölluð esseyja, frekar sjaldséð bókmenntaform sem er eiginlega hvorki skáldsaga, smásaga né ritgerð en líkist þeim systrum sínum samt. Þetta er afmarkað verk, persónulegt og knappt, aðeins rúmar hundrað síður. Yfirlýstur tilgangur sögumanns er að ljá langvinnum og misheppnuðum tilraunum sínum til að bæta úr barnleysi einhverja merkingu. Þemað er femínískt, fjallað er um egglos, getnað, meðgöngu, móðurhlutverk og fjölskylduform, hið kvenlega og karllega í lífinu. Verkið er afar persónulegt, aðalsöguhetjan er greinilega Oddný sjálf og hún er bæði einlæg í frásögn sinni og harla miskunnarlaus við sjálfa sig. Hún lýsir biturleika sínum og sorg hispurslaust, og ást sinni, vonum og heitri þrá af slíkri einlægni að það hrærir viðkvæmar sálir:
„Rétt áður en ég sofnaði með munúðina enn í mér óskaði ég þess að það hefði orðið getnaður. Ég hafði óskað þess áður. Oft. Alltaf. Að eitthvað yrði til þess að sæðið streymdi kátt og frjótt inn í kvið minn, að blóð okkar blandaðist og ég fengi að sjá hann glaðan sinna barninu sínu, kenna því fuglamálið og hundamálið og öll hin málin sem hann einn skildi“ (56).
Verkið skiptist upp í stutta og áhrifaríka kafla, sem heita t.d. Karlmennskan, Kvenleikinn, Fullnægingar, Játningar, Séfferhundur, Bænaduft, Kvika… Allt snýst um að verða barnshafandi og margvíslegra skýringa er leitað þegar það gengur ekki. Örvæntingin grípur kærustuparið heljartökum. Svo ótal margt minnir á það sem upp á vantar til að verða „venjuleg fjölskylda“ að það verður óbærilegt. Sambýlismaðurinn gengur líka í gegnum þjáningar vegna þessa og svo hart er gengið fram að brátt þolir parið ekki álagið lengur. Ófrjóseminni í sambandinu fylgja ásakanir, skömm, missir og sársauki sem lýst er einstaklega fallega og blátt áfram. Í bókarlok vakna bjartar vonir til þess eins að deyja og þá er ekkert orðið eftir nema uppgjöf, en líka sátt og það eftirsóknarverða ástand að vænta einskis og verða þannig frjáls. Blátt blóð er bæði listileg og lostafull bók sem þarf að liggja á hverju náttborði.