ofbeldi

Dýrið gengur laust

 

Stefán Máni heldur sig við glæpi úr undirheimum Reykjavíkur í nýrri bók sem nefnist Nautið. Titillinn tengist m.a. Chicago Bulls-fána, gróteskri senu þar sem saklausu nauti er slátrað og örlögum mesta illmennisins í sögunni auk þess sem karlpersónurnar yfirleitt eru ansi tuddalegar. Sagan gerist að stórum hluta á landsbyggðinni og þar eru sömuleiðis framdir glæpir, s.s. sifjaspell, hópnauðgun og sálarmorð.

Obeldið er alls staðar í sögunni og margar persónur eru hressilega stangaðar, s.s. smákrimminn Ríkharður, Hanna sem þarf að þola hroðalegri meðferð en lengi hefur sést í íslenskum bókmenntum og Óskar, léttvangefinn  strákur, sem býr við illt atlæti á afskekktum sveitabæ.

Það er ekki vert að gefa of mikið upp um söguþráðinn en sagan er krassandi og hreinlega hrollvekjandi allan tímann. Styrkur hennar liggur í hraðri frásögn, tíðum senuskiptingum í tíma og rúmi og trúverðugum persónum sem allar hafa sinn djöful að draga.

Persónurnar eru allar ógeðfelldar, ýmist fíklar eða vondar manneskjur eða hvort tveggja. Óskar er óvenjuleg persóna sem hefði getað þegið örlítið meiri alúð af hendi höfundar. Hann er algjör steríótýpa, góður risi sem óvart drepur köttinn, og minnir aðeins of mikið á Lenny úr skáldsögu Steinbecks, Músum og mönnum. Karlarnir eru allir ofbeldisseggir og kvenpersónurnar eru fórnarlömb sem þola ofbeldið af fálæti eða varnarleysi.

Í frásögninni miðar allt  í átt að meiri ógæfu og spennan er gífurleg. Fyrirboði um ógn og dauða er undirstrikaður með óreglulegu og feitletruðu „tikk takki“ – sem er kannski fulldramatískt. Ítarlegar og raunsæislegar lýsingar á umhverfi skapa andrúmsloft  þar sem eitthvað illt er sífellt í aðsigi og voðinn gefinn í skyn, eins og í stofunni sem hér er lýst en þar mætir ein sögupersónan grimmum örlögum:

„Stofan er lítil og ofhlaðin húsgögnum, skrautmunum og grænum plöntum sem allar eru ofvaxnar, teygja sig  til allra átta og varpa kræklóttum skuggum á ljósgula veggina – engu líkara  en herbergið sé fullt af lappalöngum risakóngulóm sem grafkyrrar bíða þess að hann loki augunum, þá stökkva þær af stað og spýta í hann eitri. Húsgögnin eru gömul og lúin, úr tekki og lökkuðum viði, heklaðir dúkar á borðunum, slitið flauelsáklæði á stólunum og sófanum. Á veggjunum eru plattar, myndir og alls konar drasl sem klifurjurtirnar skríða eftir og hanga á. Þykkt teppi á gólfinu, lykt af ryki og tekkolíu í loftinu (117-118)

Stefán Máni er á kunnuglegum slóðum í þessari bók, hægt er að ganga að honum vísum með vel byggða og óhugnanlega sögu þar sem smákrimmar og steratröll rífa kjaft, allt veður í dópi og druslum og dýrið gengur laust. Nýjustu fréttir eru þær að sjónvarpsþáttaröð sé í bígerð eftir sögunni. En það er langt í það, lesið bókina fyrst.

Spennusaga

Sögur, 2015

234 bls

 

Birt í Kvennablaðinu, 21. des. 2015

Fokk ofbeldi!

„Fyrir þrjátíu árum síðan hefði hegðun mín verið talin einn kostnaðarliða karlmennskunnar. Líklega hefði einhver þorað að segja að „strákar væru bara strákar“. Það væri þeim ekki eðlislægt að lesa í fínleg og flókin skilaboð kvenna. Þær gætu sjálfum sér um kennt. Nú er þessi lestrarhæfileiki orðinn lífsnauðsynlegur ef við ætlum að eiga í farsælum samskiptum við konur. Svo við endum ekki á bak við lás og slá“ (172)

Hegðun Sölva Kárasonar gagnvart Söru, kærustunni sinni, kristallar hvernig kærasti á ekki að vera. Hann er tillitslaus og sjálfhverfur, gerir lítið úr henni, móðgar hana og særir, hunsar hana og svíkur, bregst henni á ögurstundum, kúgar hana og misbýður henni í kynlífinu. Manneskja sem er flækt í slíkt niðurlægjandi hegðunarmynstur í ástarsambandi er of niðurbrotin til að sjá samhengið í skýru ljósi, eðlileg mörk þurrkast út og ofbeldið heldur áfram, jafnvel áratugum saman. Eftir eins árs stormasamt samband tekst Söru að rífa sig burt frá Sölva en sjálfsvirðing hennar er í molum. Hún berst við þunglyndi og skömm í nokkur ár uns hún leitar sér faglegrar hjálpar. En Sölvi er grunlaus um ofbeldið í sambandinu, unir glaður við sitt og á sér einskis ills von þegar Sara tekur til sinna ráða. Um þetta efni fjallar Valur Grettisson í fyrstu skáldsögu sinni, Góðu fólki.

Fórnarlömb kynferðisofbeldis, einkum konur, veigra sér við að sækja rétt sinn til dómskerfisins. Dæmin sanna að sú píslarganga er sjaldnast þess virði. En það er hægt að hafa önnur ráð til að ná réttlætinu fram og skila skömminni þangað sem hún á heima. Eitt þeirra er svonefnt ábyrgðarferli sem felst í að þrýsta á ofbeldismanninn til að horfast í augu við sjálfan sig, játa sök, taka ábyrgð og breyta hegðun sinni. Sara sendir Sölva formlegt bréf þar sem hann er krafinn um ábyrgð á gerðum sínum og hún setur harða skilmála, með það að markmiði að þau  bæði geti síðan hafið eðlilegt líf og orðið betri manneskjur. En Sölvi sér enga sök hjá sér, það kemur algjörlega flatt upp á hann að hún skuli líta á hann sem ofbeldisfullan dóna og fant. Hann er þrítugur bóhem og blaðamaður í góðum fíling, kannski fær hann Edduna og hann er kominn með aðra kærustu fyrir löngu. Smátt og smátt birtast brotakenndar myndir úr sambandi þeirra Söru og velt er upp ágengum spurningum um hvar mörk ástar og ofbeldis liggja. Er Sölvi bara óforskammaður og illkvittinn náungi, borinn röngum sökum í kafkaísku drama? Órétti beittur í nafni réttlætis? Eða er hann illmenni, spilltur af alkóhólísku uppeldi, klámi og rugli? Og getur Sara sjálfri sér um kennt? Gat hún bara ekki hætt þessum leik þegar hæst stóð? Lítið fer fyrir sjónarhorni hennar í sögunni sem skapar togstreita í huga lesanda um um sekt eða sakleysi og hvenær ást verður ofbeldi.

Sölvi er vel gefinn, sjálfsöruggur og gagnrýninn hugsjónamaður. Hann brynjar sig með kaldhæðni og sjónarhorn hans á samfélagið er meinfyndið og íronískt: „Þannig kvarta póst-hipparnir yfir baununum í kakóinu sem við drekkum, og eru tíndar af börnum á Fílabeinsströndinni, með því að skrifa status á Facebook með rándýru Mac-eitthvað tölvunni sinni, sem tíu ára gömul þrælabörn settu saman fyrir hálfa krónu á tímann. Svona viljum við vel. Svona erum við góð“ (187). Sölvi er alls ekki tilbúinn til að gangast við óljósum ásökunum Söru. Hann brýtur skilmálana og brátt fer hrikta í öllu í kringum hann.

Í ljós kemur að sú skjólgóða og örugga tilvera sem hver maður skapar sér er viðkvæm og brothætt og við minnstu sprungu hrynur hún til grunna. Nú berast fréttir hratt um netmiðla og heiður fólks er auðvelt skotmark á þeim veiðilendum. Sölvi málar sig út í horn, kaldhæðnin, þrjóskan og fíknin ráða örlögum hans. Gott fólk er vel skrifuð og hörkuspennandi bók, persónur líflegar og viðfangsefnið brýnt. Hún skoðar  karlmennsku, internetfemínistana, krúttkynslóðina, feðraveldið og alkabörnin í skörpu ljósi.

Bókmenntir sem endurspegla samfélagið eins og það er á hverjum tíma verða til þess að við sjáum hlutina í öðru ljósi. Gott fólk  býður lesendum að horfast í augu við blákaldan raunveruleikann, draga mörk og verða gott fólk, þá verður heimurinn kannski örlítið betri.

Birt í Kvennablaðinu, 16. maí 2015

BJ VG

Kona ársins

download (1)

Ofbeldi og glæpir eru ein af skuggahliðum samfélagsins. Það færist í aukana með vaxandi misrétti í hálfhrundu velferðarkerfi, fjársveltu skólakerfi og vanhæfu dómskerfi eins og íslenska þjóðin býr við um þessar mundir. Konur eru sláandi oft fórnarlömb glæpa og eru eiginlega hvergi óhultar, síst heima hjá sér. Kynbundið ofbeldi þrífst, dafnar og viðgengst sem aldrei fyrr í samfélagi okkar og ratar sem eðlilegt er í bókmenntirnar. Elísabet Jökulsdóttir hlaut t.d. Fjöruverðlaunin nýlega fyrir einlæga og berorða ljóðabók um andlegar og líkamlegar misþyrmingar í ástarsambandi.  Doðranturinn Kata eftir Steinar Braga ryðst fram með réttlátu reiðiöskri og miskunnarlausum lýsingum á stöðu og hlutskipti kvenna í ofbeldisfullum heimi. Þar er vaktar upp siðferðislegar spurningar um glæp og refsingu, sígilt þema en nú í femínísku ljósi.

Titilpersónan Kata er hjúkrunarfræðingur og vinnur á krabbameinsdeild Landspítalans þar sem dauðinn er sífellt yfirvofandi. Hún heldur kúlinu, skammtar lyf og spjallar hljóðlega við sjúklingana eins og líknandi engill. Á bráðamóttökunni þar sem Kata leysir af er allt í uppnámi; stjórnleysi, víma, ofbeldi, nauðganir, slagsmál og grátur; þannig er umhorfs árið um kring og sumir koma um hverja helgi til að láta tjasla sér saman. Ástandið versnar sífellt og úrræðin eru engin en Kata gerir sitt besta, „hokrandi eins og kósí rúsína í umönnunarstarfi sem samfélagið gaf skít í. – Dyramotta“ (171). En þegar hún kemur heim úr vinnunni þarf hún að glíma við eigin sorg og reiði eftir að Vala, dóttir hennar, hvarf með voveiflegum hætti.

Kata hélt að hún byggi í fullkominni veröld,  kona í ágætum efnum og  vel menntuð, á fallegt hús og er í góðri vinnu, maður hennar ötull læknir og Vala fullkomnar fjölskyldumyndina.  Kata er trúuð og hefur áhuga á bókmenntum og klassískri tónlist. Þegar lík Völu finnst, og í ljós kemur að hún hefur verið myrt og beitt kynferðislegu ofbeldi, hrynur veröld Kötu til grunna. Í rústunum sér hún allt í nýju ljósi; líf sitt, hjónaband og samfélag.  Ofurfínt og rándýrt dúkkuhús sem Vala átti er ekki bara íbsensk vísun heldur táknmynd fyrir líf hennar til þessa, öllu er þar snyrtilega stillt upp, allt er í réttum hlutföllum en þar búa bara dúkkur. Í lyfjarússi fer Kata í dúkkuhúsið sem endurspeglar sálarlíf hennar og þar er ekki fagurt um að litast. Þar hittir hún m.a. Kalman, rithöfundinn sem hún dáir en það er lítið  hald í honum í þeirri krossferð sem Kata tekst á hendur. Þar er líka stelpa í fjötrum og karl sem minnir á nashyrning sem seinna holdgerist í sögunni á hryllilegan hátt. Martraðarkennd veröld dúkkuhússins er táknræn fyrir vanlíðan og vímu Kötu meðan hefndaráætlunin er að taka á sig mynd. Kata kynnist Sóleyju og þegar þær stöllur sjá fram á að lögregla og dómsvald eru máttvana gagnvart ofbeldinu taka þær til sinna ráða.

Keyrslan á Kötu er rosaleg, bæði í vinnu og einkalífi, tilfinningarnar eru á yfirsnúningi og loks endar hún á geðdeild eftir máttlausa morðtilraun. En hvort verður Kata geðveik í öllum þessum hremmingum eða loksins heilbrigð þegar hún sér grímulausan veruleikann blasa við sér? Því spurt er hvort maður á að láta berast með straumnum, meðvitundarlaust vinnudýr og skuldaþræll fram á grafarbakkann, eða á maður að segja sig úr lögum við guð og menn og ryðja skrýmslunum úr vegi? Hverju hefur maður eiginlega að tapa? Verðum við ekki að taka undir orð Kötu? „Ég ætla ekki að sitja hjá og fela mig fyrir lífinu, ég vil sjá það eins og það er og taka þátt í því og breyta því“ (441). Hún gerist hefndargyðja og refsinorn, „kona ársins“ – hún hefur fína aðstöðu á spítalanum til að ná sér í morðvopn og skirrist ekki við að nota þau. Samúð lesandans sveiflast milli þess að samþykkja krossferð Kötu, réttmæta heift hennar og grimmdarlegar aðferðir, og þeirrar viðteknu og trúarlegu  hugmyndar að hefnd og ofbeldi skili engu en réttlætið sigri samt að lokum.

Sumar persónur og atburðir sögunnar eiga sér þjóðþekktar fyrirmyndir. Björn Boli er t.d. greinilega greyptur úr góðkunningjum eins og yfirlýsingaglöðum steratröllum sem fjölmiðlar hafa furðulegt dálæti á og smákrimmum sem níðast á barnungum „skinkum“ sem þeir ná á vald sitt. Bæði Kalman og blaðamaðurinn Jakob Bjarnar koma fram undir eigin nafni þótt þeir séu ekki beinlínis í draumahlutverki. Kunnuglegar persónur með þekkt nöfn eða dulnefni knýja lesendur til að tengja við við félagslegt raunsæi bókarinnar sem er umbúðalaust. Millistéttin fær makið um bakið, skuldug og óhamingjusöm lifir hún fyrir eitt í einu: „…dagurinn var röð úrlausnarefna sem leysa þurfti hvert af öðru, og þar sem þeim sleppti tók við þreyta, svefn og vonin um að eitthvað betra tæki við á morgun, um helgina eða um sumarið, haustið, vorið, stundum veturinn…“ (356). Í sögunni er hamrað á því að á meðan þegnar samfélagsins hlaupa eins og hamstrar í hjóli gerist ekkert í brýnum þjóðþrifamálum.

Kata er bæði sorgarsaga og mergjuð skammarræða, loksins heyrum við í rithöfundi sem hefur fengið nóg af kynbundnu ofbeldi og spilltu samfélagi og og segir því stríð á hendur: „Níska og ömurleiki, Ísland á einar gjöfulustu náttúruauðlindir heims og ef auðnum væri ekki sóað  í græðgishít peningakarla gæti sérhver manneskja á eyjunni lifað ef ekki í velsæld þá að minnsta kosti mannsæmandi lífi“ (253). Ef  skammarræða Steinars Braga nær eyrum þeirra sem ráða í samfélaginu og þeir sjá að sér er það fagnaðarefni. Og ef við sem hlýðum og þegjum förum að hugsa okkar gang, er það líka fagnaðarefni.  Þá er Kata komin með nýtt hlutverk, ekki bara að hefna harma sinna, heldur líka að breyta heiminum:  „Þegar ég hef velt mér nógu mikið upp úr sjálfri mér til að geta hætt því ætla ég að beita mér meira en ég hef gert, hætta að sóa tíma mínum í dútl, bíða eftir einhverju sem aldrei kemur. Ég get breytt heiminum á hvaða hátt sem mér sýnist. Við getum það öll“ (262).

Kata vekur upp fleiri spurningar en hún svarar. Er auga fyrir auga og tönn fyrir tönn heilladrjúgt til langframa? Eru öfgafemíninstahreyfingar eins og aðgerðahópurinn KATA sem boðar áherslur á borð við vernd, refsingu og systralag fyrir allt það sem karlar hafa gert konum til miska og taka sér svo vald til að refsa þeim án dóms og laga rétta svarið? Hvað er að dómskerfi sem hnekkir dómum um nálgunarbann, tekur kynbundna afstöðu í nauðgunarmálum og vægir kynferðisbrotamönnum? Hvað er að þessum blessuðu körlum sem hata konur? Og af hverju eru konur ekki búnar að segja stopp fyrir löngu?

Birt í Kvennablaðinu, 24. feb. 2015