Fyrstu dagar í Prag

Dagar í Prag líða eins og örskot. Borgin er með  fegurstu menningarborgum í Evrópu, með Karlsbrúnni frægu og heillegum virkisveggjum frá 14. öld; turnspírur gnæfandi, hallir og kastalar ljósum prýdd, glæst hús í art nouveau-stíl, þröngar götur, matsölustaðir sem hafa verið í sama húsinu í hundruðir ára, og ilm af kanilvefjum og heitu víni leggur út á hellulögð strætin. Þessa dagana er frekar svalt (2ja-8 stiga hiti) en snjólaust og hlýtt þar sem sólin nær að stinga sér niður.

Frá því ég kom hingað 1.febrúar hefur ferðamönnum fjölgað með degi hverjum. Asíubúar koma í stórum hópum, dúðaðir og með grímu fyrir vitunum og hvít heyrnartól,  þeir eru með síma, selfie-stangir og æpadda á lofti og fylgja gædinum flissandi í halarófu milli helstu túristastaðanna. Feitir og hávaðasamir Ameríkanar með loðhúfur koma í fjölskyldupakka og þræða söfnin og tripadvisor-staðina. Bretar, Rússar og Frakkar… allir vilja koma til Prag.

Á skokki mínu í gær rakst ég á par frá þeim fagra bæ, Bruges í Belgíu. Unga fólkið hafði ferðast víða og hafði mikinn áhuga á Íslandi. Prag hafði alltaf verið á listanum yfir áfangastaði hjá þeim, vegna skrautlegrar sögu og rómaðrar fegurðar. Bæði höfðu mikinn hug á að koma líka til Íslands en blöskraði ferðamannastraumurinn þangað, strákurinn vissi að íbúafjöldinn væri rétt yfir 300 þúsund og ógnaði að 1-2 milljónir hygðust leggja leið sína þangað. Lái honum hver sem vill.

Það er greinilega byrjað að undirbúa vertíðina hér í borg. Þar sem fyrir skömmu var harðlokað og eyðilegt hús með læstum gluggahlerum eru nú iðnaðarmenn eða ræstingafólk að störfum. Síðustu daga hafa tvö kaffihús bæst við í götunni minni. Veitinga-og kaffihús eru hér til fyrirmyndar, bæði verð og gæði. Áður fyrr drukku menn mest te í Prag, sem borið er fram á bakka í fallegum katli, sjóðheitt með hunangi og sítrónu en kaffi var varla í boði. Nú eru kaffihús hvert sem litið er, með allar hugsanlegar útgáfur af þeim eðaldrykk, wi-fi og enskumælandi þjónar. Veitingahúsaflóran er fjölbreytt en þjóðlegir tékkneskir staðir með sínum bragðlausu„dumplings“ eru algengir. Svejk- og Kafka-krár eru á nokkrum stöðum og trekkja verulega. Bjórinn freyðir hér á hverri búllu, gullinn með hnausþykkri froðu, einstaklega bragðgóður og hræódýr (um 200 kr ísl.). Enda svolgra Tékkar í sig flestum bjórlítrum af öllum þjóðum heims.

Tékkar eru ekkert að viðra sig upp við mann og kurteisin ekkert að drepa þá svona yfirleitt. Þeir brosa helst ekki að fyrra bragði og eldra fólkið skilur lítið í ensku. En þegar maður kynnist þeim er þetta auðvitað eðalfólk. Saga þjóðarinnar er skrautleg, vörðuð ofbeldi og yfirgangi nágrannaþjóðanna. En meira um það síðar. Fyrstu kynni af Prag lofa sérlega góðu þótt ég sé komin með hálsríg af turnspíruglápi.

IMG_7418

Einn af mörgum vinsælum ferðamannastöðum í Prag. Útsýnisturn á Petrín-hæð, byggður 1891 í anda Eiffel.

 

 

3 athugasemdir

  1. Elsku syst….svo langt í burtu. Njóttu þín sem allra best, gerinilega fallegur staður fyrir fallega systur 🙂 hlakka til að koma og aðstoða við bjórsmakk og turnspírugláp.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s