Nú koma bækur út nokkurn veginn jafnt og þétt allt árið hér á landi þótt skriðþunginn sé mestur í jólabókaflóðinu. Aldrei hafa fleiri bækur komið út á Íslandi eins og á þessu ári, rúmlega 500 titla er að finna í Bókatíðindum. Sumar hafa ratað í ritdóm í Kvennablaðinu, aðrar ekki. Það sem ræður því vali er sínagandi bókahungur og lestrarástríða, brennandi áhugi á miðlun og menningu og auðvitað stuðið á gagnrýnandanum hverju sinni. Það er engin pressa á mínum bæ að skrifa um ákveðnar bækur, sumar hreinlega kalla á meiri athygli bókaormsins og vega þyngra í lestrarreynslunni.
Karla- og kvennabókmenntir
Ójöfn staða kynjanna í bókmenntum kom oft upp í umræðunni á árinu, s.s. við úthlutun listamannalauna og verðlaunaveitingar. Spurningin er hvort konur fá sömu athygli og umfjöllun og karlar um bækur sínar. Er gengið fram hjá konum og þær jaðarsettar í bókmenntaumræðunni? Er það ómeðvitað jafnvel? Hvað með status eins og þennan á facebook-síðu Kiljunnar (17. nóv.) þar sem bækur karlanna fá gildishlaðin lýsingarorð?
„Við fjöllum um einstæða bók Guðmundar Andra um föður sinn Thor, bók Iðunnar Steinsdóttur um sveitarómagann afa sinn, ljóðin hennar Ásdísar Óladóttur og svo stórbrotna sögu stríðsáranna á Íslandi, skráða af Páli Baldvini Baldvinssyni.“
Auður Styrkársdóttir hefur bent á að 12. nóvember hafi verið rætt við, fjallað um eða minnst á 45 karla í Kiljunni en aðeins 11 konur. Er það ásættanlegt?
Afmælisárið
Á metsölulista visir.is eru 50 söluhæstu bækurnar 2015, þar af 17 eftir konur.
Samt var þetta merka afmælisár kosningaréttar kvenna gjöfult að mörgu leyti. T.d. kom út bók um kvenréttindakonur fyrri tíma, Þær ruddu brautina, eftir Kolbrúnu S. Ingólfsdóttur með æviágripum nokkurra merkiskvenna sem hófu frelsisbaráttuna og úrval ljóða Guðrúnar Stefánsdóttur frá Fagraskógi sem stofnaði Nýtt kvennablað árið 1940. Það komu út ömmusögur (Örlög ráðast heima hljótt eftir Hildi Hauksdóttur), og ævisögur ógiftra vinnukvenna (Ljóð og líf Helgu Pálsdóttur á Grjótá) hjá litlum forlögum sem annars hefðu kannski legið áfram í skúffu en báðar þessar bækur drukknuðu þó í bókaflóðinu. Kristín Helga Gunnarsdóttir skrifaði sögu tíu kvenna sem er aldeilis vel við hæfi á þessu ári, undir þeim væmna titli Litlar byltingar, draumar um betri daga og hún náði ekki flugi.
Uppgangur ævisögunnar
Krimmarnir streymdu á markaðinn að venju og seldust eins og loðnar lundadúkkur. Enginn skilur af hverju Arnaldur, sem seldist best, fær misjafna dóma þegar bækur hans eru allar eins. Yrsa, sem seldist næstbest, og Stefán Máni eru við sama heygarðshornið en fer þó frekar fram en aftur ef marka má sölutölur. En krimminn er líklega orðinn svolítið þreyttur eftir mikinn uppgang síðustu ár, nú vilja menn safaríkar ævisögur og skandala.
Það var sem við manninn mælt, ævisögurnar risu úr öskustó, þrungnar nostalgíu og margvíslegum listrænum töktum. Æska og uppeldi, minningar og veröld sem var, gamlar syndir og tabú, allt leitar þetta á ráðsetta og miðaldra rithöfunda sem sakna hugsjónanna, undranna og baráttunnar úr lífi sínu. Menn tókust á um hvað væri satt og logið í þessum bókum eins og með Íslendingasögurnar forðum en hverjum er ekki sama? Skiptir það nokkru máli ef sagan er góð?
Ljóðaárið mikla
Ljóðið var með hressasta móti þetta árið en engin ljóðabók rataði samt í tilnefningar íslensku bókmenntaverðlaunanna. Tvö merk og góð ljóðasöfn eftir konur komu út á árinu, þeirraVilborgar Dagbjartsdóttur og Ingunnar Snædal. Linda Vilhjálms sætti mestum tíðindum í ár með kaldhömruðum ádrepum í Frelsi ásamt Sjón sem er á goðsögulegu sýrutrippi í langþráðri ljóðabók, báðar öndvegisbækur. Flippaðasta bókin var frá Ragnari Ólafssyni sem skaut upp á stjörnuhimininn í gegnum Tómasarverðlaunin. Ný rödd Eydísar Blöndal vakti vonir um að ungskáld séu enn til þótt þau hangi á horriminni. Lítið og metnaðarfullt forlag, Meðgönguljóð, hefur staðið sig með sóma í að koma unga fólkinu á kortið. Bubbi Morthens kom mest á óvart með ljóðabókinni Öskraðu gat á myrkrið, þó það ætti ekki að koma neinum á óvart að hann gæti sett saman ljóð.
Umdeild verðlaun
Miklar umræður eru jafnan um íslensku bókmenntaverðlaunin og sýnist sitt hverjum. Þau hafa nú verið við lýði í 25 ár. Bókaforlögin velja hvaða bækur fara í slaginn um tilnefningar og borga 25.000 kr fyrir hverja bók sem lögð er fram, fyrir lítil forlög getur þetta verið stór biti. Síðan velur dómnefnd fimm bækur og tilnefnir þær. Allnokkrar umræður urðu á árinu um það hvort breyta eigi þessu fyrirkomulagi og endurskoða gildismat og breyta skipan manna í nefndina, jafnvel var ýjað að hagsmunatengslum og hlutdrægni. Engin niðurstaða fékkst.
En fleiri verðlaun eru veitt árlega fyrir bókmenntir en verðlaun bókaútgefenda, s.s. lesendaverðlaun, bóksalaverðlaun og menningarverðlaun DV og Rúv. Fyrirkomulag Fjöruverðlaunanna er til fyrirmyndar, það eru bókmenntaverðlaun sem ætluð eru til að styrkja og hvetja konur til dáða á ritvellinum og hefur vaxið fiskur um hrygg með ári hverju. Forleggjarar þurfa ekki að leggja peninga fram með þeim bókum sem þeir senda þangað inn. Sama gildir um bækur sem lagðar eru fram til Þýðingarverðlaunanna en seint er sú vísa of oft kveðin að þrotlaust starf þýðenda skiptir sköpum fyrir íslenskt bókmennta- og menningarlíf.
Það var leitt að sjá að bækur Þórunnar Jörlu Valdimarsdóttur, Stúlka með höfuð, og Bergsveins Birgissonar, Geirmundar saga heljarskinns, voru ekki tilnefndar, enda báðar miklar merkisbækur. Bæði Þórunn og Bergsveinn takast á við tungumál og stíl af óvenjulegri djörfung og dug. Bók Þórunnar er heillandi og einlæg, skrifuð í ljóðrænum og skapandi stíl. Bók Bergsveins (sem sjálfur er kominn af Geirmundi heljarskinni í þrítugasta lið) er á fornu máli og var tilnefnd til Brageprisen í Noregi 2014. Hún er tímamótaverk í íslenskum bókmenntum, ný Íslendingasaga sem á brýnt erindi við samtímann, með nútímalegum töktum og meinfyndnum formála, neðanmálsgreinum og orðskýringum. Póstómódernismi og metafiksjón af bestu gerð.
Umdeild listamannalaun
Þá urðu heitar umræður á sl. ári um listamannalaun, bæði meðal listamanna og almennings, um árlegar niðurstöður úthlutunarnefndar launasjóðs rithöfunda, m.a. um hlut ungskálda í þeim potti. Rithöfundasambandið tilnefnir þrjá nefndarmenn til eins árs í senn sem starfa eftir reglugerð um starfslaun listamanna, einkum tilmælum um faglegt mat á umsóknum í 5. grein reglugerðarinnar:
„Í auglýsingu skal óska eftir upplýsingum um feril umsækjenda, listrænt gildi verkefnisins og rökstudda tímaáætlun. Umsókn skal fylgja hnitmiðuð greinargerð um verkefni það sem liggur til grundvallar og hve langan starfstíma er sótt um. Einnig skulu fylgja upplýsingar um náms- og starfsferil svo og verðlaun og viðurkenningar. Þessir þættir skulu að jafnaði liggja til grundvallar ákvörðun um úthlutun starfslauna“.
Ungskáld eiga vissulega ekki mikla möguleika þegar horft er til kröfu 5. gr. um starfsferil umsækjanda og verðlaun og viðurkenningar. En það getur varla talist ósanngjarnt að ætlast til þess að höfundar hafi sannað sig áður en þeir hljóta opinberan styrk til listsköpunar. Til þess að breyta fyrirkomulagi úthlutunar úr rithöfundasjóði þyrfti lagabreytingu, jafnvel hallarbyltingu sem kannski verður nú með nýrri stjórn listamannalauna.
Ég veit af reynslu að nefndarstarfið er mjög krefjandi og valið oft erfitt, það er ekki öfundsvert að hafa úr 555 mánaðarlaunum að spila þegar sótt er um á þriðja þúsund. Það er alveg skýrt að nefndarmenn svara ekki fyrir einstakar úthlutanir, þá ábyrgð ber stjórnin ein.
Og fleira
Ýmislegt fleira kemur upp í hugann sem tengist bókmenntum og var í umræðunni á árinu en er kannski ekki sérlega fræðilegt eða faglegt. Það sætti tíðindum að Borgarbókasafniðhafnaði hluta af safni hinsegin bóka sem voru á vergangi og var gefinn safninu þegar Samtökin 78 skiptu um húsnæði. Það kom flestum í opna skjöldu að á því góða safni væri einshvers konar siðferðisleg forsjárhyggja og ritskoðun í gangi.
Dulnefni Evu Magnúsdóttur og viðtal við hana í plati var algjört flopp, kaldhæðni Guðbergs Bergssonar í garð fjölmiðla og auglýsingamennsku var túlkuð sem ofsóknir í garð Hallgríms Helgasonar og vakti mikla reiði og hópnauðgun í bók Jóns Gnarr olli úlfaþyt. Það er hins vegar ánægjuefni að svo ótrúlega margt gott er ort, samið og þýtt hér á landi árið um kring að það er lyginni líkast og rústar öllum höfðatölukenningum. Hér í ófærðinni og myrkrinu, verðbólgunni, ruglinu og þenslunni lifa bókmenntir enn furðu góðu lífi. Og það sem mest er um vert: það er ennþá til fólk sem les þær.