Tékkland

Prag, borgin fagra

25695288912_45634b5ea8_o

Nákvæmlega í dag er eitt ár síðan ég pakkaði fataleppum og bókum í tösku, yfirgaf fjölskyldu og vini á Íslandi og fór til hálfs árs námsdvalar við einn elsta háskóla í Evrópu, Univerzita Karlova í Prag. Fyrstu dagana var snjór yfir öllu og kuldinn óskaplegur. Það vandist fljótt og ég dvaldi í borginni í hálft ár og naut hverrar mínútu, enda á Kafkaslóðum. Prag er svo falleg og menningin stórbrotin, saga landsins löng og skrautleg, tungumálið og bókmenntirnar maður minn! Veðrið er gott, verðlag hagstætt, fólkið er yndislegt, samgöngur frábærar og svo mætti lengi telja. Aldrei langaði mig aftur heim. Ég sakna enn hellulagðra strætanna, ævagamalla húsanna, hinna margvíslegu brúa yfir Karlsána, kaffihúsanna, bókabúðanna, háskólans, safnahúsanna, sporvagnanna… Þarna kynntist ég frábæru fólki, bæði samnemendum frá Erasmus og innfæddum, og fékk til mín góða gesti. Ég kvaddi þessa fögru borg með söknuði á sjóðheitum sumardegi og er staðráðin í að heimsækja hana aftur. Við Íslendingar getum nefnilega margt lært af Tékkum, t.d. nægjusemi, núvitund, skipulag almenningssamganga og ölgerð.

Hjálagt er myndaalbúmið:

Albúm frá Prag

Kastalinn

Í mars sl. brá mér í skoðunarferð til Sternberger-kastala sem er í um 2 klst akstursfjarlægð frá Prag. Bygging hans hófst um það leyti sem Snorri Sturluson var veginn á Íslandi. Kastalinn er rammgerður og reisulegur, hann stendur á skógi vaxinni hæð, lítið þorp hefur byggst við rætur hennar og í gegnum það liðast falleg á. Það kostar skilding að fá að skoða kastalann og aukaskilding ef teknar eru ljósmyndir. Leiðsögumaðurinn var ung stúlka sem hefur unnið þarna mörg sumur, algjörlega heilluð af staðnum, ættgöfginni og fínheitunum. Þetta er algjör draumur, sagði hún, að búa hér á þessum fallega stað við forna frægð og gnótt fjár en þarna hefur Sternberger-ættin búið frá upphafi, nema þegar kommúnistar réðu ríkjum í Tékkó og hröktu aðalinn frá búum sínum. Af einhverjum óþekktum ástæðum fengu Sternbergarnir þá einir að snúa aftur og sýsla með sitt góss þótt kastalinn væri þá eign ríkisins. Þegar valdatíma kommúnista lauk, komst kastalinn aftur í eigu fjölskyldunnar sem hefur búið þar síðan.

kast

Sternberger-kastali í Tékklandi

Í kastalanum svífur andi íburðar, ríkidæmis og forréttinda. Skjaldarmerki ættarinnar, átta arma stjarna, er greypt í veggi og hurðir, gólf og skápa, salarkynni eru prýdd listaverkum og fallega útskorin húsgögnin eru sum frá 18. öld, bækur allt frá þeirri sextándu; postulín og kristall, flauel og mahóný hvert sem litið er. Herbergin hafa nöfn og hlutverk: guli salur til að taka á móti gestum, morgunverðarstofan snýr að sólaruppkomunni og veiðisalurinn er þakinn uppstoppuðum dýrahausum, reykherbergi er til skrafs og ráðagerða og kapellan er með öllu tilheyrandi. Mér varð hugsað til þess hvað við Íslendingar vorum að bralla meðan Sternberger-ættin bjó þarna um sig. Berjast um skitinn heiður og landamerki, grafa okkur inn í torfkofa, þjóna Noregskonungi, stjana við Dani, stauta grálúsugir í myrkri og myglu? Hefðum betur smíðað verkfæri en vopn, höggvið stein frekar en tré. Það eina sem eftir stendur eru handritalufsurnar, sem við höfum ekki einu sinni manndóm í okkur til að sýna almennilega virðingu.

Sá hluti kastalans sem er opinn ferðamönnum er ekki í notkun hjá fjölskyldunni og ekki upphitaður þótt honum sé haldið ágætlega við. Nístingskulda leggur frá  veggjunum sem eru um armslengd að þykkt, hann umvefur slitin húsgögnin, ævaforn gólfteppin, kulnaðan arininn og 300 kílóa kristalsljósakrónurnar eins og verndarhjúpur. Núlifandi Sternberger er 92 ára og býr í kastalanum. Rúmið sem hann svaf í frá bernsku til fullorðinsára er til sýnis. Reykjarpípur afa hans prýða hillur, portrett af forfeðrum og bollastell langömmu troðfylla stofurnar. Svipir fortíðar eru alls staðar. Mér varð hugsað til þessa gamla manns sem þarna lifir og deyr. Langaði hann kannski að gera eitthvað allt annað í lífinu? Djamma í Prag, flytja til Íslands? Það er nefnilega ekkert endilega eftirsóknarvert að vera af gamalli og göfugri ætt, ræða stjórnmál í reykherbergi, fara á dýraveiðar, dreypa á sjérríi úr kristalskaröflu og skipa þjónustufólki fyrir, þegar maður er hálfpartinn til sýnis og þarf að búa í ísköldum og afskekktum kastala til dauðadags.

 

Sporvagninn Kind

Sporvagnar eru algjör snilld. Umhverfisvænir, ódýrir, hljóðlátir, hraðskreiðir og einfaldir í notkun. Alla vega einfaldir fyrir þá sem til þekkja og búa hér í Prag þar sem almenningssamgöngur eru til mikillar fyrirmyndar. Ég hef alltaf verið löt að setja mig inn í hvernig lestakerfi virkar, bara látið ferðafélagana sjá um það fyrir mig enda algjör óþarfi að allir séu að rýna í þær rúnir, og strætó hef ég ekki tekið í 30 ár. Hægri þekki ég varla frá vinstri og áttir eru í mínum huga bara upp og niður. Nú er ég ein að ferðast og þarf að bjarga mér á eigin spýtur.

12662432_1243715535645065_910818331177259886_n

Hvert ætli þessi sé að fara?   (Ljósm. Brynjar Ágústsson)

Ég hugðist taka sporvagninn heim til mín eftir heils dags þramm í gamla bænum, sárfætt, þyrst og svöng. Ég fyllti á matarbirgðirnar í næstu Billa-búð og rogaðist með feng minn í sporvagn nr 22 sem ég hafði tekið daginn áður örstuttan spöl með góðum árangri. En fljótlega áttaði ég mig á því að þessi vagn var að fara eitthvert allt annað, í öfuga átt. Nú voru góð ráð dýr. Myrkrið var að skella á, ekkert netsamband, stoppistöðvarnar hétu óskiljanlegum nöfnum og ég þorði ekki að hreyfa mig af ótta við að verða strandaglópur. Ég ákvað í örvæntingu að sitja áfram og vona að vagninn færi hring og kæmi á endanum á stoppistöðina mína.

Áfram hélt vagninn, lengra og lengra frá miðbænum, það dimmdi, fólk kom og fór en ég sat sem fastast. Loks stöðvaðist vagninn og rödd í hátalara tilkynnti að þetta væri endastöð, allir út. Ég þorði ekki annað en gegna. Reyndi að gefa mig á tal við lestarstjórann en hann virti mig ekki viðlits. Ég hrökklaðist út á lestarpallinn og sá að fólk streymdi inn í undirgöng og þaðan hvarf það út í myrkrið. Ég elti og reyndi að láta engan sjá á mér að ég væri villuráfandi sauður. Umhverfið var eyðilegt, skuggaleg  háhýsi og útkrotaðir veggir og fáir á ferli og mér var ekki orðið um sel. Þarna yrði ég örugglega rænd eða drepin eða eitthvað þaðan af verra. Af fyrirhyggju var ég með makkann og vegabréfið í bakpokanum, rándýr sólgleraugu, nokkra tékkneska þúsundkalla og æfóninn í brjóstvasanum. Sannkallaður happafengur. Sá svo óljóst í gegnum nærsýni og náttblindu að hinum megin voru fleiri lestarspor sem hlytu að liggja í bæinn aftur. Ég sá hins vegar enga leið þangað aðra en tipla yfir teinana, sem ég gerði með lífið í lúkunum. Tók svo sömu lest til baka og fékk illt auga frá lestarstjóranum sem kannaðist greinilega við þessa skrýtnu konu sem setið hafði í lestinni í 40 mínútur og virtist ætla að sitja aðrar 40.

Nú sneri allt rétt og á endanum stöðvaðist vagninn á minni stoppistöð og mikið var ég fegin þegar ég skreið upp tröppurnar að íbúðinni minni, örmagna á sál og líkama. Óttaleg kind get ég verið.

 

Fyrstu dagar í Prag

Dagar í Prag líða eins og örskot. Borgin er með  fegurstu menningarborgum í Evrópu, með Karlsbrúnni frægu og heillegum virkisveggjum frá 14. öld; turnspírur gnæfandi, hallir og kastalar ljósum prýdd, glæst hús í art nouveau-stíl, þröngar götur, matsölustaðir sem hafa verið í sama húsinu í hundruðir ára, og ilm af kanilvefjum og heitu víni leggur út á hellulögð strætin. Þessa dagana er frekar svalt (2ja-8 stiga hiti) en snjólaust og hlýtt þar sem sólin nær að stinga sér niður.

Frá því ég kom hingað 1.febrúar hefur ferðamönnum fjölgað með degi hverjum. Asíubúar koma í stórum hópum, dúðaðir og með grímu fyrir vitunum og hvít heyrnartól,  þeir eru með síma, selfie-stangir og æpadda á lofti og fylgja gædinum flissandi í halarófu milli helstu túristastaðanna. Feitir og hávaðasamir Ameríkanar með loðhúfur koma í fjölskyldupakka og þræða söfnin og tripadvisor-staðina. Bretar, Rússar og Frakkar… allir vilja koma til Prag.

Á skokki mínu í gær rakst ég á par frá þeim fagra bæ, Bruges í Belgíu. Unga fólkið hafði ferðast víða og hafði mikinn áhuga á Íslandi. Prag hafði alltaf verið á listanum yfir áfangastaði hjá þeim, vegna skrautlegrar sögu og rómaðrar fegurðar. Bæði höfðu mikinn hug á að koma líka til Íslands en blöskraði ferðamannastraumurinn þangað, strákurinn vissi að íbúafjöldinn væri rétt yfir 300 þúsund og ógnaði að 1-2 milljónir hygðust leggja leið sína þangað. Lái honum hver sem vill.

Það er greinilega byrjað að undirbúa vertíðina hér í borg. Þar sem fyrir skömmu var harðlokað og eyðilegt hús með læstum gluggahlerum eru nú iðnaðarmenn eða ræstingafólk að störfum. Síðustu daga hafa tvö kaffihús bæst við í götunni minni. Veitinga-og kaffihús eru hér til fyrirmyndar, bæði verð og gæði. Áður fyrr drukku menn mest te í Prag, sem borið er fram á bakka í fallegum katli, sjóðheitt með hunangi og sítrónu en kaffi var varla í boði. Nú eru kaffihús hvert sem litið er, með allar hugsanlegar útgáfur af þeim eðaldrykk, wi-fi og enskumælandi þjónar. Veitingahúsaflóran er fjölbreytt en þjóðlegir tékkneskir staðir með sínum bragðlausu„dumplings“ eru algengir. Svejk- og Kafka-krár eru á nokkrum stöðum og trekkja verulega. Bjórinn freyðir hér á hverri búllu, gullinn með hnausþykkri froðu, einstaklega bragðgóður og hræódýr (um 200 kr ísl.). Enda svolgra Tékkar í sig flestum bjórlítrum af öllum þjóðum heims.

Tékkar eru ekkert að viðra sig upp við mann og kurteisin ekkert að drepa þá svona yfirleitt. Þeir brosa helst ekki að fyrra bragði og eldra fólkið skilur lítið í ensku. En þegar maður kynnist þeim er þetta auðvitað eðalfólk. Saga þjóðarinnar er skrautleg, vörðuð ofbeldi og yfirgangi nágrannaþjóðanna. En meira um það síðar. Fyrstu kynni af Prag lofa sérlega góðu þótt ég sé komin með hálsríg af turnspíruglápi.

IMG_7418

Einn af mörgum vinsælum ferðamannastöðum í Prag. Útsýnisturn á Petrín-hæð, byggður 1891 í anda Eiffel.