Hippar fara yfir strikið

Fyrsta skáldsaga hinnar ungu Emmu Cline, The Girls, sló í gegn í Bandaríkjunum þegar hún kom út á árinu. Hún kom nýlega út á íslensku í þýðingu Ingunnar Snædal og heitirStúlkurnar. Strax í upphafi sögunnar er tónn ógnar og ofbeldis sleginn og hann ómar til bókarloka. Hryllingur fortíðar er alltaf á sveimi í lífi Evu Boyd, sem fjórtán ára gömul var í slagtogi við hippaköltgrúppu sem seinna varð þekkt sem Manson-gengið og skildi eftir sig blóðuga slóð (lesendur undir þrítugu: Gúgglið þetta!)

Hass og sýra hippaáranna

bj-ecSagan byggir á sannsögulegum atburðum en nöfnum og staðháttum er breytt. Í Kaliforníu blómstraði hippamenningin undir lok sjöunda áratugarins, full vanþóknunar á ríkum smáborgurum, fjölmiðlum og stjórnvöldum. Russel (Manson), safnar um sig hirð ungra stúlkna og villuráfandi smákrimma og predikar um jöfnuð, ást og sannleika á yfirgefnum búgarði þar sem frjálsar ástir, hass og sýra eru allsráðandi. Þetta er paradís í augum Evie sem er orðin óþolinmóð eftir að glata sakleysinu og komast í fjörið. Hún er afskipt, einmana og leitandi unglingsstúlka sem þyrstir í viðurkenningu og ást; auðvelt fórnarlamb fyrir Russel sem með furðulegu aðdráttarafli nær ofurvaldi á fylgjendum sínum. En það er samt ekki Russel sem Evie girnist, heldur ein stúlknanna, Suzanne. Í von um athygli frá henni lætur Evie ýmislegt yfir sig ganga.

„Það fylgdi því að vera stelpa“

Á öðru tímasviði sögunnar dvelur Evie í sumarbústað, miðaldra, einmana og misheppnuð. Þar hittir hún unglingsstúlku í sömu aðstæðum og hún var sjálf forðum; á valdi kærasta sem er siðblindur og grimmur. Þetta mynstur virðist endurtaka sig í sífellu um heim allan. Kornungar stúlkur tapa áttum, glepjast af vondu gaurunum, týnast í marga sólarhringa þar til auglýst er eftir þeim í fjölmiðlum, skila sér loksins heim illa til reika eftir margvíslegt ofbeldi og sukk en sækja síðan strax aftur í sama farið. Þær eru á sama stað og Stúlkurnar, hamast við að þóknast og sjálfsmynd þeirra mótast af hegðun og viðhorfum karlkynsins:

„Það fylgdi því að vera stelpa – við urðum að sætta okkur við þau viðbrögð sem við fengum. Ef stelpa varð reið var hún sögð brjáluð, ef hún brást ekki við var hún kölluð tík. Ekkert annað í boði en að brosa út úr horninu sem búið var að króa mann af í. Taka þátt í gríninu þótt það væri alltaf á kostnað stelpunnar“ (47).  

05landis-master768-v2

Frá réttarhöldunum yfir Manson-genginu, 1970. Fremst gengur fangavörður, síðan þrjár þeirra stúlkna sem ákærðar voru en þær eru fyrirmyndir að persónum í bókinni.(CreditHarold Filan/Associated Press)

Heilaþvegnar og hættulegar

Stúlkurnar í hirð Russels dunda sér við matseld og húsverk, hnupl og dópneyslu. Þær eru ögrandi og hættulegar; „sleek and thoughtless as sharks breaching the water” sem er þýtt sem „þær runnu í gegn á lipurlegan og ósvífinn hátt, eins og hákarlsuggi sker vatnsborðið“. Þýðingin hefur verið lúmskt erfið viðfangs og sums staðar er fljótaskrift á henni. Textinn er myndríkur, mollulegur og fjarrænn, pirrandi á stundum því lýsingarnar á niðurníddum búgarðinum, framferði Russels og skilyrðislausri hlýðni stúlknanna skapa vaxandi óþol hjá lesandanum. Framferði stúlknanna virðist ekki vera uppreisn gegn ríkjandi samfélagsgildum og karlveldi, heldur flótti sem leiðir til verra hlutskiptis.

Stúlkurnar er áhrifarík og femínísk bók um tætingslegan hugarheim unglingsstúlku, með skapandi sjónarhorni á sögulega atburði sem á sínum tíma vöktu óhug um heim allan. Á sögutímanum eru kvenfrelsishugmyndir í burðarliðnum, bók Sylvie Plath, Glerhjálmurinn ogThe Feminine Mystique eftir Betty Friedan (enn óþýdd) komu út 1963 og höfðu mikil áhrif. Þunglyndar húsmæður flykktust til sálfræðings, æfðu jóga og sötruðu te; þær skildu við eiginmennina og reyndu að slíta af sér fjötra feðraveldisins en voru ennþá ofurseldar glápi og káfi karlanna, líkt og nýfrjáls móðir Evie. Í bókarlok er Evie hætt að vera viðfang karla en er í undarlegri stöðu; „glæpamaður án glæps“, kemst ekki undan bernskubrekunum og horfir sífellt óttaslegin um öxl.

Bjartur, 2016

292 bls.

Birt í Kvennablaðinu, 9. okt. 2016

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s