Bjartur

Hippar fara yfir strikið

Fyrsta skáldsaga hinnar ungu Emmu Cline, The Girls, sló í gegn í Bandaríkjunum þegar hún kom út á árinu. Hún kom nýlega út á íslensku í þýðingu Ingunnar Snædal og heitirStúlkurnar. Strax í upphafi sögunnar er tónn ógnar og ofbeldis sleginn og hann ómar til bókarloka. Hryllingur fortíðar er alltaf á sveimi í lífi Evu Boyd, sem fjórtán ára gömul var í slagtogi við hippaköltgrúppu sem seinna varð þekkt sem Manson-gengið og skildi eftir sig blóðuga slóð (lesendur undir þrítugu: Gúgglið þetta!)

Hass og sýra hippaáranna

bj-ecSagan byggir á sannsögulegum atburðum en nöfnum og staðháttum er breytt. Í Kaliforníu blómstraði hippamenningin undir lok sjöunda áratugarins, full vanþóknunar á ríkum smáborgurum, fjölmiðlum og stjórnvöldum. Russel (Manson), safnar um sig hirð ungra stúlkna og villuráfandi smákrimma og predikar um jöfnuð, ást og sannleika á yfirgefnum búgarði þar sem frjálsar ástir, hass og sýra eru allsráðandi. Þetta er paradís í augum Evie sem er orðin óþolinmóð eftir að glata sakleysinu og komast í fjörið. Hún er afskipt, einmana og leitandi unglingsstúlka sem þyrstir í viðurkenningu og ást; auðvelt fórnarlamb fyrir Russel sem með furðulegu aðdráttarafli nær ofurvaldi á fylgjendum sínum. En það er samt ekki Russel sem Evie girnist, heldur ein stúlknanna, Suzanne. Í von um athygli frá henni lætur Evie ýmislegt yfir sig ganga.

„Það fylgdi því að vera stelpa“

Á öðru tímasviði sögunnar dvelur Evie í sumarbústað, miðaldra, einmana og misheppnuð. Þar hittir hún unglingsstúlku í sömu aðstæðum og hún var sjálf forðum; á valdi kærasta sem er siðblindur og grimmur. Þetta mynstur virðist endurtaka sig í sífellu um heim allan. Kornungar stúlkur tapa áttum, glepjast af vondu gaurunum, týnast í marga sólarhringa þar til auglýst er eftir þeim í fjölmiðlum, skila sér loksins heim illa til reika eftir margvíslegt ofbeldi og sukk en sækja síðan strax aftur í sama farið. Þær eru á sama stað og Stúlkurnar, hamast við að þóknast og sjálfsmynd þeirra mótast af hegðun og viðhorfum karlkynsins:

„Það fylgdi því að vera stelpa – við urðum að sætta okkur við þau viðbrögð sem við fengum. Ef stelpa varð reið var hún sögð brjáluð, ef hún brást ekki við var hún kölluð tík. Ekkert annað í boði en að brosa út úr horninu sem búið var að króa mann af í. Taka þátt í gríninu þótt það væri alltaf á kostnað stelpunnar“ (47).  

05landis-master768-v2

Frá réttarhöldunum yfir Manson-genginu, 1970. Fremst gengur fangavörður, síðan þrjár þeirra stúlkna sem ákærðar voru en þær eru fyrirmyndir að persónum í bókinni.(CreditHarold Filan/Associated Press)

Heilaþvegnar og hættulegar

Stúlkurnar í hirð Russels dunda sér við matseld og húsverk, hnupl og dópneyslu. Þær eru ögrandi og hættulegar; „sleek and thoughtless as sharks breaching the water” sem er þýtt sem „þær runnu í gegn á lipurlegan og ósvífinn hátt, eins og hákarlsuggi sker vatnsborðið“. Þýðingin hefur verið lúmskt erfið viðfangs og sums staðar er fljótaskrift á henni. Textinn er myndríkur, mollulegur og fjarrænn, pirrandi á stundum því lýsingarnar á niðurníddum búgarðinum, framferði Russels og skilyrðislausri hlýðni stúlknanna skapa vaxandi óþol hjá lesandanum. Framferði stúlknanna virðist ekki vera uppreisn gegn ríkjandi samfélagsgildum og karlveldi, heldur flótti sem leiðir til verra hlutskiptis.

Stúlkurnar er áhrifarík og femínísk bók um tætingslegan hugarheim unglingsstúlku, með skapandi sjónarhorni á sögulega atburði sem á sínum tíma vöktu óhug um heim allan. Á sögutímanum eru kvenfrelsishugmyndir í burðarliðnum, bók Sylvie Plath, Glerhjálmurinn ogThe Feminine Mystique eftir Betty Friedan (enn óþýdd) komu út 1963 og höfðu mikil áhrif. Þunglyndar húsmæður flykktust til sálfræðings, æfðu jóga og sötruðu te; þær skildu við eiginmennina og reyndu að slíta af sér fjötra feðraveldisins en voru ennþá ofurseldar glápi og káfi karlanna, líkt og nýfrjáls móðir Evie. Í bókarlok er Evie hætt að vera viðfang karla en er í undarlegri stöðu; „glæpamaður án glæps“, kemst ekki undan bernskubrekunum og horfir sífellt óttaslegin um öxl.

Bjartur, 2016

292 bls.

Birt í Kvennablaðinu, 9. okt. 2016

Rödd að handan

Er líf eftir þetta líf? Tórir sálin þótt líkaminn tortímist? Er guð til? Ráða fyrirfram ákveðin örlög lífi okkar og dauða eða er það slembilukkan?

Steingrímur, aðalpersónan í Ævintýri um dauðann eftir Unni Birnu Karlsdóttur, rankar við sér handan heims og þarf að sætta sig við að hafa farist af slysförum í blóma lífsins. Hann horfir á konu sína og fjölskyldu syrgja og sjálfur er hann hnugginn og bugaður, fastur milli tilverusviða og „horfinn heiminum. Ekki lengur hluti af mannlífinu“ (12). Hann hefur tekið því sem sjálfsögðum hlut að vera sprelllifandi og ekki órað fyrir að endalokin gætu komið svona snögglega. Hann sér eftir ýmsu og ætlaði að gera svo margt þegar um hægðist, eins og við öll.

 Þorpið

bj-ubk1Steingrímur ólst upp í sjávarþorpi úti á landi í stórri fjölskyldu. Systur  hans og mágkona eru gæðakonur og burðarstólpar í plássinu og bróðirinn Jói er risi með hjarta úr gulli, athafnamaður með allar klær úti. Foreldrarnir eru dæmigerðir fulltrúar sinnar kynslóðar, heiðarleg og vinnusöm hjón sem hafa byggt upp allt sitt með eigin höndum og búið börnum sínum framtíð í öryggi og trausti. Ein persóna sker sig úr hópnum, vinkonan Elenóra sem átt hefur hug og hjörtu bræðranna beggja frá bernsku. Hún er gjörólík þeim, lesbísk listakona sem flúði þröngsýni þorpsins og hefur aldrei snúið aftur. Allt eru þetta sannfærandi og vel smíðaðar persónur sem takast á við sársaukann sem fylgir því að vera til og reyna að gera það besta úr lífinu. Og þegar á reynir stendur fólk saman þrátt fyrir ágreining og gamlar misgjörðir og verndar þá sem minnst mega sín.

Dauðinn er tabú

„Sorgin er eins og olía, þykk og svört“ segir Lilja (83), ekkja Steingríms. Sorgin er líka vandræðaleg, það er erfitt að tala um hana og tekur óratíma að losna við hana; hvenær er mál að harka af sér og halda áfram að lifa? Daglegar athafnir verða Lilju ofviða og hún á enga orku aflögu handa ungum syni þeirra. Hún fer ekki úr náttfötunum, hefur enga matarlyst; svefnvana og stendur varla undir sjálfri sér. Sjálfur syrgir Steingrímur líf sitt og líkama, hann átti allt og hefur misst allt.

Dauði og sorg tilheyra þeim fjölmörgu tabúum í samfélaginu sem þögnin umlykur: „Þetta er litur þagnarinnar sem umlukti svo margt þegar ég var ung. Grá og þykk þögn um það sem skiptir máli, um það að vera manneskja, um tilfinningar, um það sem er erfitt, um sorgina, ástina, eineltið, drykkjuna, um lífið, draumana, dauðann. Manstu, það mátti aldrei tala um svoleiðis. Allt var þaggað niður. Maður gat næstum gleymt að maður hefði tilfinningar þegar maður var að alast upp“ (38) segir Elenóra.

Erfitt sjónarhorn

Margar bækur hafa verið skrifaðar um líf eftir dauðann, jafnvel með frásögnum af upplifun fólks af eigin andláti, ljósinu handan ganganna og langþráðri friðsæld. Í þessari bók er sjónarhornið óvenjulegt þar sem sögumaðurinn talar að handan. Það er býsna erfitt viðureignar og frekar sjaldgæft í skáldskap, Gyrðir Elíasson hefur beitt því listilega, t.d. íSvefnhjólinu. Margir muna eftir fyrstu tveimur seríunum af Aðþrengdum eiginkonum og skáldsögunni Svo fögur bein, þar sem sögumenn eru dánir. Lesandi verður að vera tilbúinn til að gangast inn á forsendur um framhaldslíf til að samþykkja þessa annars heims tilveru þar sem framliðnir svífa um í eins konar óljósri vídd óendanleika og æðruleysis. Í Ævintýri um dauðann birtast verur frá handanheimum sem hafa það hlutverk að leiða hina framliðnu inn í hliðarveruleika sem er hugsanlega biðsalur fyrir  næsta tilverustig. Þar reynir verulega á þrek og trú lesandans og vilja til að gefa sig skáldskapnum á vald.

Áhugaverðar pælingar eru í gangi í sögunni, um sæluríki, tilgang lífsins og alheimsvitundina og ótal spurningar vakna. Hvað sem fólki finnst um þessa hugmyndafræði er þetta vel gert og fallega.  Ævintýri um dauðann er í senn ástar-, fjölskyldu- og samfélagssaga sem snýst um tilvist mannsins þessa heims og annars, hún einkennist af mildi og mannúð, er vel skrifuð og boðskapurinn fallegur. Að lestri loknum, þarftu ekki lengur að óttast dauðann.

Bjartur, 2016

191 bls.

Birt í Kvennablaðinu, 19. sept. 2016

Bindið niður trampólínin, komið grillunum í skjól!

Á votviðrasömu hausti er Stormviðvörun send út til landsmanna, þriðja ljóðabók reykvískrar skáldkonu, Kristínar Svövu Tómasdóttur. Áður hefur hún samið tvær ljóðabækur sem vöktu athygli fyrir hressilegt tungutak og róttækni. Frumraunin Blótgælur (2007) ruddist fram með látum; ælu, djammi og kaldhæðinni ádeilu á lífsstíl og neyslu. Næsta bók, Skrælingjasýningin(2011) þótti hárbeitt og ögrandi. Í Stormviðvörun hafa ljóðin styst, meitlast og mildast, ádeilan er ekki lengur hvöss og klúr. Alls eru 18 ljóð í bókinni sem fjalla um margvíslegt efni, s.s. land, þjóð og fortíð.

Dapureygður klyfjahestur og horfnir heildsalar

Titilljóðið er aftast í bókinni, það rífur í þegar maður hyggst leggja bókina frá sér og maður flettir aftur á fyrstu síðu til að lesa öll ljóðin aftur og aftur. Myndhverfingar ljóðsins eru drungalegar; sálin er dapureygður klyfjahestur, melankólían er ræktuð einsog hjartfólgin planta og líkaminn er eins og stór, þunglamalegur björn sem þráir að leggjast í híði. Tilfinningin sem skapast fyrir komandi vetri er þrungin þreytu og kvíða.

Í nokkrum ljóðum leitar fortíðin á, t.d. í „Passé 3: Rómantískt ljóð um kapítalista fortíðarinnar“ þar sem horfnir heildsalar koma við sögu en þeir eru orðnir sígilt tákn græðgi og efnishyggju. Í „Passé 4: Vér sigurvegarar“ er brugðið upp skuggalegri heimssýn, einhver hnýsist stöðugt í og ráðskast með líf okkar, við höfum tapað en hvers eigum við að gjalda?

Eftirfarandi er vel byggt og myndrænt ljóð sem sýnir vel húmorinn og þau frábæru tök sem Kristín Svava hefur á ljóðmálinu.

Gróðurhús

Geislavirkur birtukúpull
yfir snævi þakinni jörð

þrisvar á sólarhring er slökkt
svo plönturnar haldi að það sé komin nótt
leggst þá þunglyndi yfir mennska þegna
þessa varma lands
(13)

Sukk og froða
Myndmál flestra ljóðanna er einfalt, mest beinar myndir sem leyna þó á sér, t.d. „vonum að heimurinn tortímist í neistaflugi frá millistykkinu“ (8). Upphafsljóðið, „Böbblí í Vúlvunni“, er mjög í anda þeirrar róttækni og orku sem einkenndi fyrri ljóðabækur Kristínar Svövu. Ádeilan á neyslu og efnishyggju er umbúðalaus. Orðræða bókhaldsins birtist þar innan um allt sukkið og froðuna; rekstrarreikningur, risna og prósentur; og svo er bara að sækja um frest til að hægt sé að halda áfram að elska draslið og djönkið, efnisheiminn og ofgnóttina.

Lykt af brauðtertum
Það ríkir víða gleði í ljóðum Kristínar Svövu enda eru tilefnin ærin. Í ljóðinu „Austurvöllur á kistulagningardaginn“ er föstudagur með tilheyrandi grilli og gleði; tannlaus börn, stelpur í þynnku og fótbrotnir rónar í huggulegri sumarstemningu í Reykjavík og sorgin er víðs fjarri. Á gamlárskvöld hristir maður af sér grámann í opnu og lífshættulegu rými en fermingarveislan er hins vegar fyrirkvíðanleg, þar er lykt af brauðtertum og gömlu fólki og búið að læsa dyrunum.

Fossaljóð
„Upp við fossinn Lubba“ er náttúruljóð, nýtt innlegg í fossakvæði íslenskra (karl)skálda sem skipta tugum. Hér er ekki verið að dásama fossinn, fegurð hans og afl, heldur er hann tengdur við héraðsmót og fyllibyttur, ættbók og súra rigningu. Ljóðið er byggt á sífelldri endurtekningu sem minnir á vatnsnið. En í lokaerindinu hefur náttúrunni verið misboðið svo mjög að heimsendir blasir við.

Veðurhorfur næsta sólarhring
Það er af nógu að taka í Stormviðvörun, ljóðin eru ekki heildstæð eða þematengd en standa vel fyrir sínu hvert og eitt. Í titilljóðinu er vitnað í þunglyndislegan veðurfræðing sem kemst þannig að orði: „Dagurinn á morgun verður verri en það þýðir ekki að dagurinn í dag sé ekki slæmur“. Stormurinn er ekki brostinn á af fullum þunga en hann er í vændum og þá verða engin grið gefin.

Ljóð
Bjartur, 2015
36 bls

Birt í Kvennablaðinu, 17. okt. 2015

Rola verður að manni

Titill fyrstu skáldsögu Sigurjóns Bergþórs Daðasonar, Hendingskast, er grípandi og lofar góðu.  Hér segir frá ungu fólki í hvunndagskrísum í Reykjavík samtímans. Aðalsöguhetjan, ungur nafnlaus maður (kannski hver sem er) stendur á krossgötum. Íbúðin í Þingholtunum sem hann býr í með kærustunni er í eigu foreldra hans og lokaritgerðin er það eina sem eftir er af háskólanáminu. En það sem virtist örugg og friðsæl tilvera fer skyndilega á flot, honum er ýtt út úr hreiðrinu og stendur uppi atvinnu- og húsnæðislaus, einhleypur og í þann veginn að klúðra skólanum. Nú þarf að taka á honum stóra sínum.

Þroskasaga

Hugmynd og þema bókarinnar snýst um tilviljunina (hendingu) sem niðurrifsafl  og heppnina sem er bæði gleðigjafi og böl. Einnig um það æviskeið þegar maður er hvorki ungur né gamall, veit ekki hvert skal stefna og er undir pressu frá foreldrunum, þráir sjálfstæði en er latur, háður öðrum og kemst aldrei út úr sjálfhverfunni. Þetta er þroskasaga, frá því að fljóta að feigðarósi til þess að róa í land; frá því að vera sveimandi stefnulaust um loftin blá til þess að verða hluti af heiminum og heimurinn hluti af manni.

En ef netið dettur út?

Persónurnar lifa auðveldu og þægilegu lífi við allsnægtir en þola þó tæplega nokkurt hnjask eins og kemur í ljós þegar netið dettur út og pirringur hleypur í kærustuparið: „við þurfum að komast inn á heimabankann auk þess sem við höfum ekkert að gera í kvöld ef við getum ekki streymt sjónvarpsseríunni sem við erum að horfa á … (39). Það er enginn háski yfirvofandi í þessari sögu né stórkostleg glötun eða tortíming á næsta leiti en sjálfsköpuð ógæfa svífur yfir vötnum, eitthvert úrræðaleysi, frestunarárátta og rolugangur.

Öfund og græðgi

Broddur sögunnar beinist að fjölskyldu, kynslóðabili, agaleysi, snobbi og græðgishyggju. Í vinahópnum eru týpur sem tengjast hugmyndafræði sögunnar. Símon vinnur milljónir í Lottóinu en þær eru fljótar að fara í græjur, sukk og bruðl. Hann hættir í námi, tekur lífinu létt og fær allt upp í hendurnar. Anton hefur brotist til mennta, fetað fyrirfram ákveðna og hefðbundna braut í lífinu: að ljúka hagnýtu námi, fá góða vinnu og kaupa íbúð. Samt er hann ósáttur við sinn hlut. „Það er skrítið að hann finni fyrir öfund þegar svona margt gengur honum í hag en kannski er það einmitt öfugt. Hann hefur eignast þetta allt af því að hann er öfundsjúkur. Það er driffjöður í samkeppnisssamfélagi að vilja líka eignast þá hluti sem aðrir eiga“ (114).

Borða, sofa, skíta

Kærastan, Katrín, er óspennandi og dregin daufum dráttum, aðrar kvenpersónur sömuleiðis. Loks er  Guðmundur, skólabróðir og einfari, sem vegna óframfærni verður af happafengnum. Hann á margt sameiginlegt með sögumanni sem sjálfur segist vera skýjaglópur og íhugull athugandi:

„Mig langar ekki að vera fyrir neinum en hvað get ég gert? Sú einfalda staðreynd að einhvers staðar þarf maður að vera virðist meiri háttar vandamál. Ég á í mestu vandræðum með þennan líkama sem þarf að borða, sofa og skíta, svo ég tali ekki um allar tilfinningarnar sem ég held í skefjum því enginn vill  sjá þær. Það væri best að geta horfið algjörlega og svifið um loftið eins og draugur“ (115).

Það er eitthvað

Þótt Hendingskast sé enn ein mjúk og átakalítil Reykjavíkursaga um krísu nútíma(karl)mannsins sem ristir ekki djúpt er eitthvað við hana. Hún er ágætlega skrifuð, stíll og málfar hægfljótandi og tiltölulega hnökralaust.  Samtöl eru að miklu leyti óbein sem undirstrikar einhvers konar fjarlægð frá persónunum sem fellur vel að hugmynd og boðskap sögunnar um að rífa sig upp úr roluganginum til að finna sína eigin leið í lífinu. Það er viðbúið að þessi ungi höfundur á eftir að láta frekar að sér kveða.

Bjartur og Veröld 2015

191 bls.

Birt í Kvennablaðinu, 12. okt 2015

Fiskarnir hafa enga fætur

Fiskarnir-hafa-enga-fætur-175x275Í bókinni segir Jón Kalman Stefánsson sögu nokkurra kynslóða á Íslandi, í senn sögu tíma og þjóðar. Þetta eru dramatískar sögur, um minningar, gleymsku og bælingu, æsku og elli, ást, harm og dauða með áþekku ljóðrænu og heimspekilegu ívafi og í þríleiknum sínum mikla, með heillandi frásögn, djúpum þönkum, frábærum mannlýsingum og hápólitískum boðskap. Verkið er eins og fögur tónlist, kaflarnir hefjast á alls konar pælingum, um hamingjuna, ástina, karlmennsku tungumálsins og kúgun konunnar, endalokin, sem leiða svo lesandann til persónanna og örlaga þeirra.Svo fallega skrifað þótt endurtekningar séu margar og t.d. orðið dökknandi sé höfundi mjög tamt á tungu.  Keflavík er svartasti staður landsins, kvótinn farinn, herinn farinn, búið að dæma bæinn úr leik. Á Norðfirði eru erfiðir tímar, þung barátta, líf í sjávarplássi er basl og strit og hráslagi, þreyta og svefnleysi taka sinn toll, ástríðan glatast, neistinn slokknar og kona breytist í lifandi múmíu. Sjálfsmynd þjóðarinnar er byggð á blekkingum, hún er þjökuð af minnimáttarkennd, fyrirlítur fortíð sína, torfkofana og fiskihjallana, sjávarútvegurinn stendur undir íslensku efnahagslífi en samt mega hjallarnir ekki sjást frá veginum að nýju flugstöðinni.Kaninn og kvótinn eru svartir blettir á sögu þjóðarinnar, fortíðin rímar ekki við glæstan samtímann, hvað eigum við að gera við hana? (332) Græðgin er svarthol mannsins, okkur er innprentað að við þurfum alltaf meira og meira, óseðjandi fíklar sem er stjórnað af einhverjum hagsmunaöflum sem græða á því að forheimska okkur, halda okkur við efnið. Og við svíkjum þá sem við elskum, svíkjum okkur sjálf og svíkjum uppruna okkar. Það er beittur tónn í þessu frábæra verki Jóns Kalmans í bland við ljóðrænuna, fagran stílinn og harmsöguna.

„Því er þá þannig háttað að öll atvik fortíðar, þau smáu sem stóru, skítlegu sem fallegu, hlátur og snerting handa, allt saman er fyrr eða síðar flautað út af, dæmt til að gleymast, dæmt til dauða, útþurrkunar, en þó einvörðungu vegna þess að enginn man lengur eftir því, hugsar aldrei um það, eða heldur ekki til haga, og þar með verður allt sem við lifðum smám saman að engu, ekki einu sinni lofti, sem er svo sárt, mikil sóun, og ýtir okkur í átt að tilgangsleysinu. Líf mannsins er verður í mesta lagi stakir tónar án lags, tilviljunarkennd hljóð en engin tónlist – er þarna komin ástæðan fyrir því að við ávörpum þig með þessari sögu kynslóða og hundrað ára, þessari sögu, eða plánetu, halastjörnu, þessu dægurlagi, þessum vinsældalista á heimsenda, vegna þess að við viljum að þú vitir að Margrét var einu sinni nakin undir ameríska kjólnum, brjóstin smá, hvelfd, langir, grannvaxnir en sterkir fótleggirnir læstust skömmu síðar utan um Odd, svo þú vitir og gleymir helst aldrei að einu sinni voru allir ungir, svo þú áttir þig á því að öll verðum við einhverntíma að brenna, brenna af ástríðu, hamingju, gleði, réttlæti, þrá, því það er sá eldur sem lýsir upp myrkrið , sem heldur úlfum gleymskunnar fjarri, eldurinn sem hitar upp lífið, svo þú gleymir ekki að finna til, svo þú breytist ekki í mynd á vegg, stól í stofunni, mublu fyrir framan sjónvarpið, í það sem horfir á tölvuskjáinn, í það sem ekki hreyfist, svo þú verðir ekki að því sem tekur tæpast eftir neinu, svo þú dofnir ekki upp og verðir að leiksoppi valdsins, hagsmunaafla, verðir ekki að því sem skiptir litlu máli, dofinn, í besta falli smurning í dularfullu tannhjóli. Brenna, svo eldurinn dofni ekki, hjaðni, kulni, svo veröldin verði ekki að köldum stað, bakhlið mánans“ (300-301).