Kvennablaðið

Skíta-Grænlendingur segir frá

KimLeine

Kalak eftir Kim Leine (f. 1961) er afar óvenjuleg bók. Kannski er þetta skáldsaga eða þroskasaga að einhverju leyti en miklu líklegar þó (skáld)ævisaga eða endurminningar, ef marka má það sem höfundurinn segir sjálfur. Í það minnsta er Kalak bersögul og afdráttarlaus saga þar sem lestir og brestir sögumanns eru dregnir fram af sjaldséðu miskunnarleysi. En það sem heillar mest eru framandi staðhættir sögunnar sem gerist að mestu leyti á Grænlandi. Kynþáttafordómar og nýlendukomplexar krauma meðan leiftrum bregður fyrir af grandalausri þjóð sem undir merkjum kristni og skandinavískrar velferðar var varpað úr hlýjum snjóhúsum inn í gráar og kaldar steinsteypublokkir meðan auðlindir hennar voru mjólkaðar.

Norður-Grænland liggur í dimmum skugga vetrar. Sólarupprás rennur saman við sólsetur án þess að nokkur dagur hafi orðið. En þegar sólin nálgast sjóndeildarhringinn byrjar hafið að ljóma og suðurhiminninn deilist upp í mörg lög af litum. Rautt, appelsínugult, grænt, gult, dimmblátt. Hér er kalt, tólf stiga frost og fer kólnandi, en mér er hætt að vera kalt. Kuldanum fylgja hæðarsvæði og norðurljós. Sum kvöld eru þau grafkyrr eins og ljóskeilur frá frá tröllauknum kösturum, önnur skipti flökta þau, bylgjast, bregða lit í grænt, blátt, hvítt. Það heitir „boltaleikur“. Það er þegar dána fólkið fer í boltaleik með hauskúpu af rostungi (172).

Söguhetjan Kim starfar sem hjúkrunarfræðingur á Grænlandi og heillast af villtri náttúru og frumstæðri þjóð. Hann hefur djöfla að draga, faðir hans beitti hann kynferðisofbeldi á unglingsaldri, hann þjáist af lyfjafíkn, glímir við gamla heift og flóknar sálarkrísur og hrekst eirðarlaus milli gírugra ástkvenna. Fjölskylduna hefur hann skilið eftir í Danmörku og brátt trosnar sambandið við börnin hans tvö og óspennandi eiginkonu. Allt stefnir í átt að uppgjöri við hataðan föður, sem er sjálfhverfur hommi og Vottur Jehóva og sennilega enn meira einmana en Kim, ef það er hægt.

Kalak* þýðir „skíta-Grænlendingur“ (93) sem Kim segir sjálfur að lýsi honum best. Hann er ofurseldur einmanaleika og skömm en innst inni þráir hann auðvitað sátt og frið eins og við öll. Stemningin í sögunni er engu lík, köld og hrá. Frásögnin er bæði grimm og grípandi, textinn er þunglyndislegur; einhvern veginn hljómlaus og einkennist af sambandsleysi við annað fólk: „…einsemd mín, eða kaldlyndi, er nokkuð sem ekki verður ráðin bót á. Hún er eitthvað sem ég þarf að læra að lifa með“ (127). Bláköld hreinskilnin og átakanlegt varnarleysið í verkinu setjast í huga lesandans og láta hann ekki í friði.

Í starfi sínu gifsar Kim brotin bein, saumar saman skurði, fæst við voðaskot og sjálfsmorð, fæðingar og botnlangabólgu en er sjálfur í lamasessi; með taugaendana galvaníseraða af 400 mg af klópoxíði (261). Hann deyfir sársaukann vegna sifjaspellsins með lyfjum og kynlífi og færist sífellt nær glötun. En hann getur ekki snúið aftur til fyrra lífs í Danmörku „Því útlínur fjallsins hafa rist sig á sjónhimnur mínar og eru í æpandi andstöðu við þessa plægðu akra“ (165).

Þýðing Jóns Halls Stefánssonar er mjög fín víðast hvar en hugsanlega er Kalak ennþá magnaðri á frummálinu (dönsku) vegna flókinna tengsla Dana og Grænlendinga. Kim Leine hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2013 fyrir Spámennina í Botnleysufirði, frábæra bók sem líka gerist á Grænlandi – hjá nágrannaþjóð okkar sem við Íslendingar hefðum svo sannarlega getað reynst betur í gegnum árin.


Kalak eftir Kim Leine.

Sæmundur, 2017

319 bls.


*Kalak er líka nafn á vinafélagi Grænlands og Íslands. Ég mæli með þessari grein á heimasíðu félagsins: https://kalak.is/hryllilegt-hvernig-folkid-er-rifid-upp-med-rotum/


Ljósmyndina tók höfundur af Leine þegar hann las upp úr bókinni í Eymundsson á dögunum.

 

Birt í Kvennablaðinu, 22.11.2017

Orðstír deyr á einu balli

sub9789935465634

Frumraun Ásdísar Thoroddsen í skáldsagnaritun er afskaplega vel heppnuð enda má ætla að hún sé vön að sýsla með element skáldskaparins í kvikmyndagerð, svo þaulvön og þekkt sem hún er á þeim vettvangi.

Fyrsta skáldsaga Ásdísar, Utan þjónustusvæðis. Krónika,  sem kemur út hjá bókaforlaginuSæmundi er  vel skrifuð, skemmtileg aflestrar og persónur sprelllifandi. Þessu litla forlagi sem hefur aðsetur á Selfossi hefur vaxið fiskur um hrygg á síðustu árum og útgáfulistinn í ár spannar 20 bækur. Á saurblaði skáldsögu Ásdísar er sú nýlunda að geta yfirlesara sem vinna oftast að tjaldabaki.  Bókarkápunni er vert að hrósa fyrir mikil smekklegheit.

Innansveitarkrónika

Sögusviðið  þessarar innansveitarkróniku er í afskekktu þorpskríli þar sem kjaftasögur fljúga, heitar þrár og ástríður blómstra um leið og lágkúrulegar kenndir leita útrásar. Sagan gerist fyrir daga internetsins, persónurnar eru utan þjónustusvæðis í afmörkuðum heimi. Örlög manna og samfélags ráðast af gömlum erjum, einu tilsvari; orðstír deyr á einu balli. Heiður Gyðudóttir er aðflutt sambýliskona drykkfellds skólastjóra, hún stendur í ströngu við að kenna æsku þorpsins og stjórna barnakór, réttindalaus í starfi en knúin áfram af eldmóði, ásamt því að elska giftan mann og reyna að ala upp baldinn vandræðaungling að sunnan. Hún er breysk og hvatvís; hressileg týpa með munninn fyrir neðan nefið. Heiður býr yfir mikilli orku sem getur breyst í áráttu þegar áföll dynja yfir og ekki bætir það úr skák, nógu skrýtin er hún samt ef marka má þorpsslúðrið.

Illar tungur

Sögunni vindur fram með þjarki og tortryggni þorpsbúa gagnvart öllu nýju og fjandskap hvers í annars garð. Ýmsir koma við sögu, s.s.  dularfullur viðskiptajöfur og pólskir farandverkamenn, frændur sem hatast, góðbændur og beiskar konur. Þetta er þó ekki einföld saga um skýrar andstæður sveitar og borgar, dyggða og lasta, heldur margradda raunsæisskáldsaga um heim sem mun tortíma sjálfum sér.

Röð atvika draga Heiði niður í svaðið, það eru tilviljanir sem verða til þess að tilvera hennar sundrast, þrátt fyrir velvilja hennar og fórnir. Hún lætur stjórnast af ást og kynhvöt í gamaldags og íhaldssömu samfélagi sem dæmir hana hart. Þetta er sígilt viðfangsefni í skáldskap enda er ástin líklega sterkasta lífshvöt mannins, nátengd sköpunarkrafti, erótík og sjálfsvitund. Heiður hefur marga fjöruna sopið í ástamálum um ævina en kemst að því fullkeyptu í þessari litríku og kímnu sögu.

Góði elskhuginn

Stíllinn er léttur og lýsingar á bæði landi og fólki skáldlegar og á gullaldaríslensku. Sjónarhornið fer víða og skyggnst er í huga þorpsbúa sem hafa hver sinn djöful að draga, m.a. Kristín Júl sem verður að teljast tragískasta persónan; „þokulæða“ sem leynir á sér. Saga fólksins í „pólskra húsi“ er dramatísk og það er kaldrifjaður lesandi sem ekki finnur til með Þórólfi, elskhuganum góða sem tekur hnökrað hjónaband á stórbýli fram yfir ástina og dæmir sjálfan sig til eilífrar óhamingju.

Heiður Heiðar

Heiður berst eins og ljón fyrir heiðri sínum, réttlæti og sanngirni, hún samþykkir ekki ytri viðmið og er fordæmd fyrir, bæði af almenningi og þeim sem völdin hafa. Hún er eins og Hvít, einkennilega hænan „sem fer sínar eigin leiðir og á sér hvergi stað í valdastiga hænsakofans“ (36). Það er stórskemmtilegt að guða á glugga þorpsbúanna um hríð og söguþráðurinn væri svo sannarlega feykigott efni í sjónvarpsseríu.

Sæmundur, 2016

363 bls

Bókarkápa: Aðalsteinn Svanur Sigfússon

Birt i Kvennablaðinu, 17. október 2016

Hippar fara yfir strikið

Fyrsta skáldsaga hinnar ungu Emmu Cline, The Girls, sló í gegn í Bandaríkjunum þegar hún kom út á árinu. Hún kom nýlega út á íslensku í þýðingu Ingunnar Snædal og heitirStúlkurnar. Strax í upphafi sögunnar er tónn ógnar og ofbeldis sleginn og hann ómar til bókarloka. Hryllingur fortíðar er alltaf á sveimi í lífi Evu Boyd, sem fjórtán ára gömul var í slagtogi við hippaköltgrúppu sem seinna varð þekkt sem Manson-gengið og skildi eftir sig blóðuga slóð (lesendur undir þrítugu: Gúgglið þetta!)

Hass og sýra hippaáranna

bj-ecSagan byggir á sannsögulegum atburðum en nöfnum og staðháttum er breytt. Í Kaliforníu blómstraði hippamenningin undir lok sjöunda áratugarins, full vanþóknunar á ríkum smáborgurum, fjölmiðlum og stjórnvöldum. Russel (Manson), safnar um sig hirð ungra stúlkna og villuráfandi smákrimma og predikar um jöfnuð, ást og sannleika á yfirgefnum búgarði þar sem frjálsar ástir, hass og sýra eru allsráðandi. Þetta er paradís í augum Evie sem er orðin óþolinmóð eftir að glata sakleysinu og komast í fjörið. Hún er afskipt, einmana og leitandi unglingsstúlka sem þyrstir í viðurkenningu og ást; auðvelt fórnarlamb fyrir Russel sem með furðulegu aðdráttarafli nær ofurvaldi á fylgjendum sínum. En það er samt ekki Russel sem Evie girnist, heldur ein stúlknanna, Suzanne. Í von um athygli frá henni lætur Evie ýmislegt yfir sig ganga.

„Það fylgdi því að vera stelpa“

Á öðru tímasviði sögunnar dvelur Evie í sumarbústað, miðaldra, einmana og misheppnuð. Þar hittir hún unglingsstúlku í sömu aðstæðum og hún var sjálf forðum; á valdi kærasta sem er siðblindur og grimmur. Þetta mynstur virðist endurtaka sig í sífellu um heim allan. Kornungar stúlkur tapa áttum, glepjast af vondu gaurunum, týnast í marga sólarhringa þar til auglýst er eftir þeim í fjölmiðlum, skila sér loksins heim illa til reika eftir margvíslegt ofbeldi og sukk en sækja síðan strax aftur í sama farið. Þær eru á sama stað og Stúlkurnar, hamast við að þóknast og sjálfsmynd þeirra mótast af hegðun og viðhorfum karlkynsins:

„Það fylgdi því að vera stelpa – við urðum að sætta okkur við þau viðbrögð sem við fengum. Ef stelpa varð reið var hún sögð brjáluð, ef hún brást ekki við var hún kölluð tík. Ekkert annað í boði en að brosa út úr horninu sem búið var að króa mann af í. Taka þátt í gríninu þótt það væri alltaf á kostnað stelpunnar“ (47).  

05landis-master768-v2

Frá réttarhöldunum yfir Manson-genginu, 1970. Fremst gengur fangavörður, síðan þrjár þeirra stúlkna sem ákærðar voru en þær eru fyrirmyndir að persónum í bókinni.(CreditHarold Filan/Associated Press)

Heilaþvegnar og hættulegar

Stúlkurnar í hirð Russels dunda sér við matseld og húsverk, hnupl og dópneyslu. Þær eru ögrandi og hættulegar; „sleek and thoughtless as sharks breaching the water” sem er þýtt sem „þær runnu í gegn á lipurlegan og ósvífinn hátt, eins og hákarlsuggi sker vatnsborðið“. Þýðingin hefur verið lúmskt erfið viðfangs og sums staðar er fljótaskrift á henni. Textinn er myndríkur, mollulegur og fjarrænn, pirrandi á stundum því lýsingarnar á niðurníddum búgarðinum, framferði Russels og skilyrðislausri hlýðni stúlknanna skapa vaxandi óþol hjá lesandanum. Framferði stúlknanna virðist ekki vera uppreisn gegn ríkjandi samfélagsgildum og karlveldi, heldur flótti sem leiðir til verra hlutskiptis.

Stúlkurnar er áhrifarík og femínísk bók um tætingslegan hugarheim unglingsstúlku, með skapandi sjónarhorni á sögulega atburði sem á sínum tíma vöktu óhug um heim allan. Á sögutímanum eru kvenfrelsishugmyndir í burðarliðnum, bók Sylvie Plath, Glerhjálmurinn ogThe Feminine Mystique eftir Betty Friedan (enn óþýdd) komu út 1963 og höfðu mikil áhrif. Þunglyndar húsmæður flykktust til sálfræðings, æfðu jóga og sötruðu te; þær skildu við eiginmennina og reyndu að slíta af sér fjötra feðraveldisins en voru ennþá ofurseldar glápi og káfi karlanna, líkt og nýfrjáls móðir Evie. Í bókarlok er Evie hætt að vera viðfang karla en er í undarlegri stöðu; „glæpamaður án glæps“, kemst ekki undan bernskubrekunum og horfir sífellt óttaslegin um öxl.

Bjartur, 2016

292 bls.

Birt í Kvennablaðinu, 9. okt. 2016

Síðustu fjörkippir kerlingar

Er gamalt fólk ekki mestmegnis til óþurftar í samfélaginu? Úrelt og afdankað? Hætt á vinnumarkaði og komið á stofnanir þar sem það  hangir á horriminni vælandi um hærri ellistyrk. Það hefur gegnt sínu hlutverki, ætti það ekki bara að vera til friðs? Og ef það fer að hlaupa út undan sér, eyða arfinum eða verða ástfangið, þá er illt í efni.

12493764_682634515213193_3080483639432154021_oStutt skáldsaga, Tvöfalt gler eftir Halldóru K. Thoroddsen, hlaut nýlega Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna 2015. Sagan birtist fyrst í tímaritaröðinni 1005 en kemur nú út hjá bókaútgáfunni Sæmundi.

Halldóra er enginn nýliði þótt ekki sé hún afkastamikil, frá 1990 sent hún sent frá sér þrjár ljóðabækur og tvö smásagnasöfn í knöppum og íronískum stíl. Orðheppin er hún með afbrigðum og ætti að fá aukaverðlaun fyrir að nota svo hnyttilega orðasambandið að selja blíðu sína um áratuga starf við umönnun og barnakennslu. Hún vakti verulega athygli með eitursnjöllum örsögum, 90 sýni úr minni mínu (2002) þar sem hún sagði stórar sögur með fáum orðum. Í Aukaverkunum sem komu út 2007 tekur hún sér stöðu annálaritara eða þjóðsagnasafnara með gagnrýna sýn á nútímann en Halldóra hefur sterkar skoðanir á þjóðfélagsmálum. Ljóð hennar eru sömuleiðis beitt og bæði meitluð og myndvís.

Gamlingjar og geldingaást

Hingað til hefur Guðbergur Bergsson aðallega róið á gamlingjamiðin í íslenskum bókmenntum og dregið upp gróteskar myndir sem sýna einsemd, firringu og margrætt eðli mannsins. Í Tvöföldu gleri er fjallað um ellina og stigvaxandi hrörnun líkama og hugar á nærfærnari hátt, um það að hafa ekkert hlutverk í öllum hamaganginum, horfa á samfélagið utan frá, bíða dauðans og taka síðustu fjörkippina.

78 ára gömul kona þreyr þorrann í lítilli íbúð á Lindargötunni. Hún er þokkalega ern og sýslar við sitt, prjónar og hlustar á útvarpið, hittir vini sína sem brátt tína tölunni og fylgist með lífinu fyrir utan gluggann. Óforvarendis kynnist hún manni og tekur upp sambúð við hann, öllum til hrellingar. Kerling þarf reyndar að hugsa sig vel um áður en hún stígur inn í ástina á ný og breytir svona hressilega til í lífinu. Hún óttast að sprengja upp einmanalega veröld sína en vill heldur ekki verða doðanum að bráð (32). Hún hefur hingað til varast sársauka og hikað, alltaf staðið sína plikt og er „siðprútt gamalmenni“ (44).

Ástir eldra fólks eru tabú, einhvers konar geld ást sem stangast á við lífseigar hugmyndir okkar um norm í samfélaginu:

„Sjálft ímyndunarafllið verður feimið við hugmyndina um krumpuð og þurr gamalmenni að riðlast hvort á öðru með aðstoð sleipiefna“ (52).

Ansi svæsin mynd en í sögunni er þetta bæði  fallegt og sjálfsagt.

Kynslóðabil og hið vélræna líf

Í kyrrstæðu bændasamfélagi á öldum áður skipti aldur engu máli. Fólk lifði og starfaði eins og geta þess og heilsa leyfðu uns það lagðist í kör eða dó. Kynslóðir bjuggu saman og unnu að velferð heildarinnar. Þegar ellin og dauðinn færðust frá heimilinu til stofnana myndaðist rof í samhengið. Í sögunni er kynslóðabilið til gagnrýninnar umfjöllunar, ádeilan er grímulaus og beinist einnig að vélrænu lífi þræls gróðaaflanna:

„Hún fæddist inn í iðnbyltinguna sem seint og um síðir barst inn í íslenskar miðaldir og þá loksins gat þetta sker brauðfætt ættbálkinn. Hennar tími var heimskur þurs sem þurfti þó að fá sinn þroska. Það var í upplýsingunni, já, hún man það, sem við fórum að rífa allt í sundur til að skoða innviðina. Upp úr því grúski iðnvæddum við félagið og hólfuðum það niður í núverandi bása. Vinnuna í sérstakt hólf, þar sem hún smám saman hrökk í sjálfstýringu og snýst nú aðallega um eigin vöxt. Rányrkja dugnaðarforkanna eirir engu. Hver kynslóð ratar í sín hólf, bernsku og elli skipað í einangrun. Við hrópum í helli okkar og nemum aðeins eigið bergmál“ (17-18).

Harðsoðin og ljóðræn

Sagan er fallega skrifuð, harðsoðin og ljóðræn í senn, hvert orð er valið af kostgæfni. Myndmálið rímar fullkomlega við efni og þema; konan „hrærir næturkvíðanum út í dimmt kaffið“ (25) og það er „Hem á pollum, ósnertur dagur undir kristal“ (28). Glerið hefur margvíslegt tákngildi, það bæði einangrar og veitir útsýni og birtu, verndar um leið og það er brotgjarnt og skeinuhætt. Skáletruð (gler)brot með þönkum konunnar fleyga textann og þau síðustu bera feigðina í sér; sprungin pera, lekur eldhúskrani, nornagrátt hár og grimmt skammdegismyrkur, minnisleysi og einsemd taka völdin.

Halldóra hefur sýnt að hún er jafnvíg á örsögur og breiðari verk. Það er af ótal mörgu að taka í þessari sögu þótt stutt sé, hún fjallar um tilvist og tilgang, líf og dauða; þrungin speki, lífsreynslu og ríkri réttlætiskennd; tær og hvöss eins og titill hennar ber augljóslega með sér.

Bókaútgáfan Sæmundur, 2015. 75 bls

Birt í Kvennablaðinu, 14. 02. 2016

 

Kvennablaðið lengi lifi

Álfabækur

Álfabækur Guðlaugs Arasonar

KVENNABLAÐIÐ er tveggja ára!

44 ritdóma hef ég skrifað og lesið allavega helmingi fleiri bækur mér til skemmtunar og yndisauka.

Til að styrkja Kvennablaðið sem berst í bökkum má gauka að því afmælisgjöf, smellið hér!

Rola verður að manni

Titill fyrstu skáldsögu Sigurjóns Bergþórs Daðasonar, Hendingskast, er grípandi og lofar góðu.  Hér segir frá ungu fólki í hvunndagskrísum í Reykjavík samtímans. Aðalsöguhetjan, ungur nafnlaus maður (kannski hver sem er) stendur á krossgötum. Íbúðin í Þingholtunum sem hann býr í með kærustunni er í eigu foreldra hans og lokaritgerðin er það eina sem eftir er af háskólanáminu. En það sem virtist örugg og friðsæl tilvera fer skyndilega á flot, honum er ýtt út úr hreiðrinu og stendur uppi atvinnu- og húsnæðislaus, einhleypur og í þann veginn að klúðra skólanum. Nú þarf að taka á honum stóra sínum.

Þroskasaga

Hugmynd og þema bókarinnar snýst um tilviljunina (hendingu) sem niðurrifsafl  og heppnina sem er bæði gleðigjafi og böl. Einnig um það æviskeið þegar maður er hvorki ungur né gamall, veit ekki hvert skal stefna og er undir pressu frá foreldrunum, þráir sjálfstæði en er latur, háður öðrum og kemst aldrei út úr sjálfhverfunni. Þetta er þroskasaga, frá því að fljóta að feigðarósi til þess að róa í land; frá því að vera sveimandi stefnulaust um loftin blá til þess að verða hluti af heiminum og heimurinn hluti af manni.

En ef netið dettur út?

Persónurnar lifa auðveldu og þægilegu lífi við allsnægtir en þola þó tæplega nokkurt hnjask eins og kemur í ljós þegar netið dettur út og pirringur hleypur í kærustuparið: „við þurfum að komast inn á heimabankann auk þess sem við höfum ekkert að gera í kvöld ef við getum ekki streymt sjónvarpsseríunni sem við erum að horfa á … (39). Það er enginn háski yfirvofandi í þessari sögu né stórkostleg glötun eða tortíming á næsta leiti en sjálfsköpuð ógæfa svífur yfir vötnum, eitthvert úrræðaleysi, frestunarárátta og rolugangur.

Öfund og græðgi

Broddur sögunnar beinist að fjölskyldu, kynslóðabili, agaleysi, snobbi og græðgishyggju. Í vinahópnum eru týpur sem tengjast hugmyndafræði sögunnar. Símon vinnur milljónir í Lottóinu en þær eru fljótar að fara í græjur, sukk og bruðl. Hann hættir í námi, tekur lífinu létt og fær allt upp í hendurnar. Anton hefur brotist til mennta, fetað fyrirfram ákveðna og hefðbundna braut í lífinu: að ljúka hagnýtu námi, fá góða vinnu og kaupa íbúð. Samt er hann ósáttur við sinn hlut. „Það er skrítið að hann finni fyrir öfund þegar svona margt gengur honum í hag en kannski er það einmitt öfugt. Hann hefur eignast þetta allt af því að hann er öfundsjúkur. Það er driffjöður í samkeppnisssamfélagi að vilja líka eignast þá hluti sem aðrir eiga“ (114).

Borða, sofa, skíta

Kærastan, Katrín, er óspennandi og dregin daufum dráttum, aðrar kvenpersónur sömuleiðis. Loks er  Guðmundur, skólabróðir og einfari, sem vegna óframfærni verður af happafengnum. Hann á margt sameiginlegt með sögumanni sem sjálfur segist vera skýjaglópur og íhugull athugandi:

„Mig langar ekki að vera fyrir neinum en hvað get ég gert? Sú einfalda staðreynd að einhvers staðar þarf maður að vera virðist meiri háttar vandamál. Ég á í mestu vandræðum með þennan líkama sem þarf að borða, sofa og skíta, svo ég tali ekki um allar tilfinningarnar sem ég held í skefjum því enginn vill  sjá þær. Það væri best að geta horfið algjörlega og svifið um loftið eins og draugur“ (115).

Það er eitthvað

Þótt Hendingskast sé enn ein mjúk og átakalítil Reykjavíkursaga um krísu nútíma(karl)mannsins sem ristir ekki djúpt er eitthvað við hana. Hún er ágætlega skrifuð, stíll og málfar hægfljótandi og tiltölulega hnökralaust.  Samtöl eru að miklu leyti óbein sem undirstrikar einhvers konar fjarlægð frá persónunum sem fellur vel að hugmynd og boðskap sögunnar um að rífa sig upp úr roluganginum til að finna sína eigin leið í lífinu. Það er viðbúið að þessi ungi höfundur á eftir að láta frekar að sér kveða.

Bjartur og Veröld 2015

191 bls.

Birt í Kvennablaðinu, 12. okt 2015

Kona ársins

download (1)

Ofbeldi og glæpir eru ein af skuggahliðum samfélagsins. Það færist í aukana með vaxandi misrétti í hálfhrundu velferðarkerfi, fjársveltu skólakerfi og vanhæfu dómskerfi eins og íslenska þjóðin býr við um þessar mundir. Konur eru sláandi oft fórnarlömb glæpa og eru eiginlega hvergi óhultar, síst heima hjá sér. Kynbundið ofbeldi þrífst, dafnar og viðgengst sem aldrei fyrr í samfélagi okkar og ratar sem eðlilegt er í bókmenntirnar. Elísabet Jökulsdóttir hlaut t.d. Fjöruverðlaunin nýlega fyrir einlæga og berorða ljóðabók um andlegar og líkamlegar misþyrmingar í ástarsambandi.  Doðranturinn Kata eftir Steinar Braga ryðst fram með réttlátu reiðiöskri og miskunnarlausum lýsingum á stöðu og hlutskipti kvenna í ofbeldisfullum heimi. Þar er vaktar upp siðferðislegar spurningar um glæp og refsingu, sígilt þema en nú í femínísku ljósi.

Titilpersónan Kata er hjúkrunarfræðingur og vinnur á krabbameinsdeild Landspítalans þar sem dauðinn er sífellt yfirvofandi. Hún heldur kúlinu, skammtar lyf og spjallar hljóðlega við sjúklingana eins og líknandi engill. Á bráðamóttökunni þar sem Kata leysir af er allt í uppnámi; stjórnleysi, víma, ofbeldi, nauðganir, slagsmál og grátur; þannig er umhorfs árið um kring og sumir koma um hverja helgi til að láta tjasla sér saman. Ástandið versnar sífellt og úrræðin eru engin en Kata gerir sitt besta, „hokrandi eins og kósí rúsína í umönnunarstarfi sem samfélagið gaf skít í. – Dyramotta“ (171). En þegar hún kemur heim úr vinnunni þarf hún að glíma við eigin sorg og reiði eftir að Vala, dóttir hennar, hvarf með voveiflegum hætti.

Kata hélt að hún byggi í fullkominni veröld,  kona í ágætum efnum og  vel menntuð, á fallegt hús og er í góðri vinnu, maður hennar ötull læknir og Vala fullkomnar fjölskyldumyndina.  Kata er trúuð og hefur áhuga á bókmenntum og klassískri tónlist. Þegar lík Völu finnst, og í ljós kemur að hún hefur verið myrt og beitt kynferðislegu ofbeldi, hrynur veröld Kötu til grunna. Í rústunum sér hún allt í nýju ljósi; líf sitt, hjónaband og samfélag.  Ofurfínt og rándýrt dúkkuhús sem Vala átti er ekki bara íbsensk vísun heldur táknmynd fyrir líf hennar til þessa, öllu er þar snyrtilega stillt upp, allt er í réttum hlutföllum en þar búa bara dúkkur. Í lyfjarússi fer Kata í dúkkuhúsið sem endurspeglar sálarlíf hennar og þar er ekki fagurt um að litast. Þar hittir hún m.a. Kalman, rithöfundinn sem hún dáir en það er lítið  hald í honum í þeirri krossferð sem Kata tekst á hendur. Þar er líka stelpa í fjötrum og karl sem minnir á nashyrning sem seinna holdgerist í sögunni á hryllilegan hátt. Martraðarkennd veröld dúkkuhússins er táknræn fyrir vanlíðan og vímu Kötu meðan hefndaráætlunin er að taka á sig mynd. Kata kynnist Sóleyju og þegar þær stöllur sjá fram á að lögregla og dómsvald eru máttvana gagnvart ofbeldinu taka þær til sinna ráða.

Keyrslan á Kötu er rosaleg, bæði í vinnu og einkalífi, tilfinningarnar eru á yfirsnúningi og loks endar hún á geðdeild eftir máttlausa morðtilraun. En hvort verður Kata geðveik í öllum þessum hremmingum eða loksins heilbrigð þegar hún sér grímulausan veruleikann blasa við sér? Því spurt er hvort maður á að láta berast með straumnum, meðvitundarlaust vinnudýr og skuldaþræll fram á grafarbakkann, eða á maður að segja sig úr lögum við guð og menn og ryðja skrýmslunum úr vegi? Hverju hefur maður eiginlega að tapa? Verðum við ekki að taka undir orð Kötu? „Ég ætla ekki að sitja hjá og fela mig fyrir lífinu, ég vil sjá það eins og það er og taka þátt í því og breyta því“ (441). Hún gerist hefndargyðja og refsinorn, „kona ársins“ – hún hefur fína aðstöðu á spítalanum til að ná sér í morðvopn og skirrist ekki við að nota þau. Samúð lesandans sveiflast milli þess að samþykkja krossferð Kötu, réttmæta heift hennar og grimmdarlegar aðferðir, og þeirrar viðteknu og trúarlegu  hugmyndar að hefnd og ofbeldi skili engu en réttlætið sigri samt að lokum.

Sumar persónur og atburðir sögunnar eiga sér þjóðþekktar fyrirmyndir. Björn Boli er t.d. greinilega greyptur úr góðkunningjum eins og yfirlýsingaglöðum steratröllum sem fjölmiðlar hafa furðulegt dálæti á og smákrimmum sem níðast á barnungum „skinkum“ sem þeir ná á vald sitt. Bæði Kalman og blaðamaðurinn Jakob Bjarnar koma fram undir eigin nafni þótt þeir séu ekki beinlínis í draumahlutverki. Kunnuglegar persónur með þekkt nöfn eða dulnefni knýja lesendur til að tengja við við félagslegt raunsæi bókarinnar sem er umbúðalaust. Millistéttin fær makið um bakið, skuldug og óhamingjusöm lifir hún fyrir eitt í einu: „…dagurinn var röð úrlausnarefna sem leysa þurfti hvert af öðru, og þar sem þeim sleppti tók við þreyta, svefn og vonin um að eitthvað betra tæki við á morgun, um helgina eða um sumarið, haustið, vorið, stundum veturinn…“ (356). Í sögunni er hamrað á því að á meðan þegnar samfélagsins hlaupa eins og hamstrar í hjóli gerist ekkert í brýnum þjóðþrifamálum.

Kata er bæði sorgarsaga og mergjuð skammarræða, loksins heyrum við í rithöfundi sem hefur fengið nóg af kynbundnu ofbeldi og spilltu samfélagi og og segir því stríð á hendur: „Níska og ömurleiki, Ísland á einar gjöfulustu náttúruauðlindir heims og ef auðnum væri ekki sóað  í græðgishít peningakarla gæti sérhver manneskja á eyjunni lifað ef ekki í velsæld þá að minnsta kosti mannsæmandi lífi“ (253). Ef  skammarræða Steinars Braga nær eyrum þeirra sem ráða í samfélaginu og þeir sjá að sér er það fagnaðarefni. Og ef við sem hlýðum og þegjum förum að hugsa okkar gang, er það líka fagnaðarefni.  Þá er Kata komin með nýtt hlutverk, ekki bara að hefna harma sinna, heldur líka að breyta heiminum:  „Þegar ég hef velt mér nógu mikið upp úr sjálfri mér til að geta hætt því ætla ég að beita mér meira en ég hef gert, hætta að sóa tíma mínum í dútl, bíða eftir einhverju sem aldrei kemur. Ég get breytt heiminum á hvaða hátt sem mér sýnist. Við getum það öll“ (262).

Kata vekur upp fleiri spurningar en hún svarar. Er auga fyrir auga og tönn fyrir tönn heilladrjúgt til langframa? Eru öfgafemíninstahreyfingar eins og aðgerðahópurinn KATA sem boðar áherslur á borð við vernd, refsingu og systralag fyrir allt það sem karlar hafa gert konum til miska og taka sér svo vald til að refsa þeim án dóms og laga rétta svarið? Hvað er að dómskerfi sem hnekkir dómum um nálgunarbann, tekur kynbundna afstöðu í nauðgunarmálum og vægir kynferðisbrotamönnum? Hvað er að þessum blessuðu körlum sem hata konur? Og af hverju eru konur ekki búnar að segja stopp fyrir löngu?

Birt í Kvennablaðinu, 24. feb. 2015

Að ná áttum

Ofbeldi og vanræksla gagnvart börnum er mun stærra vandamál í samfélagi okkar en við gerum okkur almennt grein fyrir. Börn sem alast upp við slíkt atlæti bera þess merki þegar þau vaxa úr grasi og eiga erfitt með að fóta sig í lífinu. Í Segulskekkju, fyrstu skáldsögu Soffíu Bjarnadóttur, segir frá konu sem hefur lent í ýmsu í uppeldinu og sambandinu við móður sína, Siggý, sem hún tignar og hræðist í senn.

Segulskekkja-175x274

Geðveiki, „leikhúsleg tilþrif“ (44) og furðulegt uppeldi hafa sett mark sitt á Hildi sem í æsku veit aldrei hvernig aðkoman er heima, hvort mamman er með réttu ráði, hvort fjölskylda er að flytja búferlum eina ferðina enn eða hvort Pétur stóri bróðir hefur fengið nóg og er farinn. Eina ráðið sem hún gat gripið svo hún hrapaði ekki fram af brúninni með Siggý var að slíta öll tengsl við hana. Byrja síðan að byggja upp sjálfsmynd, sætta sig við orðinn hlut og stefna fram á við.

En afleiðingar uppeldisins eru ekki auðveldlega umflúnar; bæling, sjálfsmorðshugleiðingar og sjálfshatur verða hennar fylgifiskar, tilfinningaleg flatneskja, höfnunarkennd og skömm heltaka hana.

Þetta er afskaplega vel skrifuð og falleg saga þótt hún lýsir angist og grimmd, sem verður átakanlegast þegar sjónarhorn barnsins ræður. Í tuttugasta kafla er brugðið upp mynd af heimilinu þar sem þær mæðgur bjuggu síðast saman, þar eru ömurleikinn og hjálparleysið hyldjúp og yfirþyrmandi en því er lýst með myndmáli sem er bæði fagurt og frumlegt.

Dýr koma víða fyrir í textanum og eru táknræn, bæði fuglar, ýmist vængstýfðir eða kramdir, kettir og köngulær. Gullbrá skýtur upp kolli en hún þurfti sem kunnugt er að prófa graut, stól og rúm til að vita hvort hún passaði inn á heimilið og Lína langsokkur á óborganlega senu í sögunni, sterkasta fyrirmynd sem til er. Stíllinn er svo ljóðrænn að sumir kaflarnir gætu staðið einir og sér sem ljóð:

„Regndroparnir eru hreint ekki svo slæmur félagsskapur. Þeir eru taktfastir og það er hægt að stóla á komu þeirra. Yfir dáleiðandi slætti þeirra velti ég fyrir mér hvort hægt sé að vera með áfalla- og streituröskun alla ævi, frá barnæsku og fram í elli. Hvort slík hugtök geti átt við um almenna líðan. Þrumu- og regnguðinn Indra hefur líklega haft auga með mér frá barnsaldri. Þegar ég heyri í honum kalla til mín af himnum og hann rífur upp festinguna verð ég undarlega sátt við það að búa undir þessum himni “ (43).

Við andlát Siggýjar skríður Hildur í skjól í hús hennar á Flatey á Breiðafirði. Þar gerir hún upp við minningarnar og stefnir kannski í átt að frelsandi uppgjöri og sátt og jafnvel ást í kaupbæti en þó er ekkert víst í þeim efnum vegna segulskekkjunnar í lífinu. En í bókarlok er Hildur a.m.k. farin að hallast frekar að því að lifa en deyja.

Sögumaður spyr guð í örvæntingu hvar skekkjumörkin liggi, hvar segulnálin sé (87) og í hvaða átt skuli halda. Eru engin takmörk fyrir hvað er lagt á sumt fólk? Það er ljóst að hér er um keðjuverkun og vítahring að ræða, undir yfirborðinu er þetta ættarsaga fjögurra kynslóða sem allar eru áttavilltar og hafa orðið fyrir einhverju tilfinningalegu hnjaski sem erfitt er að bæta, amman er þögul og lokuð, mamman klikkuð, Hildur skemmd og sonur hennar sjálfsagt eitthvað flæktur þótt hann segist vera kúl.

Fólk reynir að komast undan sársaukanum á ýmsa vegu, með kaldhæðni, vímu eða trú á guð, ástina og fyrirgefninguna. Siggý, með allt sitt rugl og kenjar, er eina manneskjan í ættinni sem hefur kjark til að biðjast fyrirgefningar, þótt það sé eftir dauðann. Vonandi nær Hildur áttum, samúð lesandans er með henni og öllum vanræktum börnum heimsins.

Birt í Kvennablaðinu 2. feb. 2015

Veröld sem var

Forlagið

Er mönnum ekki farið að fatast flugið þegar þeir eru farnir að skrifa endurminningar sínar? Verður það nokkurn tímann annað en sjálfsupphafning og naflakrafl? Pétur Gunnarsson skrifar nú nostalgíska bók um námsár sín erlendis og fyrstu árin sem skáld og kallar Veraldarsögu sína. Pétur er fyrir löngu orðin kanóna í hópi íslenskra  rithöfunda en hann kom fram með hvelli á áttunda áratugnum og á að baki glæstan feril. Hann er af ´68-kynslóðinni frægu en mörgum af þeirri kynslóð finnst nú kominn tími á að horfa um öxl, spyrja sig hvar dagar lífsins hafi lit sínum glatað og hvað sitji eftir af gamla, hippalega eldmóðnum. Þetta er skáldævisögulegt verk um ungan mann (og konu  hans, Hrafnhildi) á mótunarárum, ofið saman við sögu heimspekinnar sem jafnframt er saga mannsins sem hugsandi veru, útleggingar á pólitískri hugmyndafræði og fræðikenningum, gömul bréf og ljósmyndir saman við sögur af skemmtilegu fólki eins og t.d. Óla Torfa, hringjaranum óstundvísa. Allt skrifað á gullaldaríslensku með tilþrifum, t.d. pastamikil kona, smjattandi sandalar, karlpeningur sem „hafði lítið breyst frá apadögum því frumglæði alls sem hann tók sér fyrir hendur var keppni“, og gömul  hjón sem nú eru löngu dáin en „lifa óbrotgjörn í eilífu teboði“.  Tíminn í sögunni er flæðandi og skrykkjóttur, eitt atvik rifjar upp annað en allir þræðir koma saman að lokum. Þótt það séu mestmegnis karlar sem koma við þessa sögu,  fær kvennabaráttan örlítið rúm, hún hófst um þessar mundir og bæði kynin þurftu að skilgreina sig upp á nýtt:

„Hér var það Kvinde, kend din krop sem allt snerist um. Líkami konunnar. Sem var eins konar nýlenda sem karlaveldið hafði um aldir lagt hald á, skilgreint og dómínerað. Nú hafði landið lýst yfir sjálfstæði og landgæðin voru loks notuð fyrir eigendurna sjálfa. Í ljós kom eitt og annað sem karlar höfðu aldrei tekið með í reikninginn en gat gert konuna sjálfbæra í sælulegu tilliti. Sæðisbankar lánuðu fúslega þetta lítilræði sem karlmaðurinn leggur til, konan var einfær um afganginn. Var ekki táknrænt að eitt helsta karlgoð tímans, John Lennon, var orðinn að eins konar viðhengi þar sem hann hjúfraði sig í fósturstellingu að Yoko sinni Ono“ (83).

Það er gaman að lýsingum á stemningunni á stúdentagörðunum, baráttu námsmanna við skrifræðið í Frans; skrifstofunornir sem krefjast stimplaðra vottorða og staðfestra ljósrita; og úthlutunarreglur LÍN sem voru lítið skárri þá en nú. Hugljúf og rómantísk er frásögnin af sumarputtaferðalagi unga parsins um Evrópu sem innfæddir sýndu bæði traust og ómælda gestrisni. Þar er hippahugsjónin í algleymi, slíkt ferðalag er óhugsandi nú þegar túrisminn tröllríður öllu.

Í Veraldarsögunni skýrist tilurð fyrstu ljóða Péturs sem eru lituð af ádeilu, uppreisnaranda verkalýðsins og ástríðu fyrir betra mannlífi og réttlátara þjóðfélagi. Pælt er í margvíslegri hugmyndafræði, t.d. vinnunni sem kúgunartæki, kenningum Marx, Kants og Jesúsar frá Nasaret, áhrifum Bítlanna, og firringu mannsins frá tímum Grikkja og Rómverja til vorra daga.  Og hvernig neyslan sættir alþýðuna við hlutskipti sitt (143) sem er gömul saga og ný, hvernig bækur berast milli manna, hvernig ljóð verða til. Veraldarsaga Péturs er bæði um veröld hans og okkar, þroskasaga pilts og skálds og óður um ástina til Hrafnhildar en það gæti verið gaman að heyra hennar hlið á þessu tímabili í lífi þeirra. Og sagan er líka um það kraftaverk að verða foreldri, bæta enn einu barni í þessa voluðu veröld og þar endar sagan. Eini gallinn á þessari bók er hvað hún er stutt. Sumar bækur eru hæpaðar upp í fjölmiðlum meðan aðrar fara með veggjum. Veraldarsaga Péturs Gunnarssonar  fer hljótt í hógværð sinni, vönduð, notaleg og mannbætandi lesning.