Orðstír deyr á einu balli

sub9789935465634

Frumraun Ásdísar Thoroddsen í skáldsagnaritun er afskaplega vel heppnuð enda má ætla að hún sé vön að sýsla með element skáldskaparins í kvikmyndagerð, svo þaulvön og þekkt sem hún er á þeim vettvangi.

Fyrsta skáldsaga Ásdísar, Utan þjónustusvæðis. Krónika,  sem kemur út hjá bókaforlaginuSæmundi er  vel skrifuð, skemmtileg aflestrar og persónur sprelllifandi. Þessu litla forlagi sem hefur aðsetur á Selfossi hefur vaxið fiskur um hrygg á síðustu árum og útgáfulistinn í ár spannar 20 bækur. Á saurblaði skáldsögu Ásdísar er sú nýlunda að geta yfirlesara sem vinna oftast að tjaldabaki.  Bókarkápunni er vert að hrósa fyrir mikil smekklegheit.

Innansveitarkrónika

Sögusviðið  þessarar innansveitarkróniku er í afskekktu þorpskríli þar sem kjaftasögur fljúga, heitar þrár og ástríður blómstra um leið og lágkúrulegar kenndir leita útrásar. Sagan gerist fyrir daga internetsins, persónurnar eru utan þjónustusvæðis í afmörkuðum heimi. Örlög manna og samfélags ráðast af gömlum erjum, einu tilsvari; orðstír deyr á einu balli. Heiður Gyðudóttir er aðflutt sambýliskona drykkfellds skólastjóra, hún stendur í ströngu við að kenna æsku þorpsins og stjórna barnakór, réttindalaus í starfi en knúin áfram af eldmóði, ásamt því að elska giftan mann og reyna að ala upp baldinn vandræðaungling að sunnan. Hún er breysk og hvatvís; hressileg týpa með munninn fyrir neðan nefið. Heiður býr yfir mikilli orku sem getur breyst í áráttu þegar áföll dynja yfir og ekki bætir það úr skák, nógu skrýtin er hún samt ef marka má þorpsslúðrið.

Illar tungur

Sögunni vindur fram með þjarki og tortryggni þorpsbúa gagnvart öllu nýju og fjandskap hvers í annars garð. Ýmsir koma við sögu, s.s.  dularfullur viðskiptajöfur og pólskir farandverkamenn, frændur sem hatast, góðbændur og beiskar konur. Þetta er þó ekki einföld saga um skýrar andstæður sveitar og borgar, dyggða og lasta, heldur margradda raunsæisskáldsaga um heim sem mun tortíma sjálfum sér.

Röð atvika draga Heiði niður í svaðið, það eru tilviljanir sem verða til þess að tilvera hennar sundrast, þrátt fyrir velvilja hennar og fórnir. Hún lætur stjórnast af ást og kynhvöt í gamaldags og íhaldssömu samfélagi sem dæmir hana hart. Þetta er sígilt viðfangsefni í skáldskap enda er ástin líklega sterkasta lífshvöt mannins, nátengd sköpunarkrafti, erótík og sjálfsvitund. Heiður hefur marga fjöruna sopið í ástamálum um ævina en kemst að því fullkeyptu í þessari litríku og kímnu sögu.

Góði elskhuginn

Stíllinn er léttur og lýsingar á bæði landi og fólki skáldlegar og á gullaldaríslensku. Sjónarhornið fer víða og skyggnst er í huga þorpsbúa sem hafa hver sinn djöful að draga, m.a. Kristín Júl sem verður að teljast tragískasta persónan; „þokulæða“ sem leynir á sér. Saga fólksins í „pólskra húsi“ er dramatísk og það er kaldrifjaður lesandi sem ekki finnur til með Þórólfi, elskhuganum góða sem tekur hnökrað hjónaband á stórbýli fram yfir ástina og dæmir sjálfan sig til eilífrar óhamingju.

Heiður Heiðar

Heiður berst eins og ljón fyrir heiðri sínum, réttlæti og sanngirni, hún samþykkir ekki ytri viðmið og er fordæmd fyrir, bæði af almenningi og þeim sem völdin hafa. Hún er eins og Hvít, einkennilega hænan „sem fer sínar eigin leiðir og á sér hvergi stað í valdastiga hænsakofans“ (36). Það er stórskemmtilegt að guða á glugga þorpsbúanna um hríð og söguþráðurinn væri svo sannarlega feykigott efni í sjónvarpsseríu.

Sæmundur, 2016

363 bls

Bókarkápa: Aðalsteinn Svanur Sigfússon

Birt i Kvennablaðinu, 17. október 2016

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s