Bókaútgáfan Sæmundur

Orðstír deyr á einu balli

sub9789935465634

Frumraun Ásdísar Thoroddsen í skáldsagnaritun er afskaplega vel heppnuð enda má ætla að hún sé vön að sýsla með element skáldskaparins í kvikmyndagerð, svo þaulvön og þekkt sem hún er á þeim vettvangi.

Fyrsta skáldsaga Ásdísar, Utan þjónustusvæðis. Krónika,  sem kemur út hjá bókaforlaginuSæmundi er  vel skrifuð, skemmtileg aflestrar og persónur sprelllifandi. Þessu litla forlagi sem hefur aðsetur á Selfossi hefur vaxið fiskur um hrygg á síðustu árum og útgáfulistinn í ár spannar 20 bækur. Á saurblaði skáldsögu Ásdísar er sú nýlunda að geta yfirlesara sem vinna oftast að tjaldabaki.  Bókarkápunni er vert að hrósa fyrir mikil smekklegheit.

Innansveitarkrónika

Sögusviðið  þessarar innansveitarkróniku er í afskekktu þorpskríli þar sem kjaftasögur fljúga, heitar þrár og ástríður blómstra um leið og lágkúrulegar kenndir leita útrásar. Sagan gerist fyrir daga internetsins, persónurnar eru utan þjónustusvæðis í afmörkuðum heimi. Örlög manna og samfélags ráðast af gömlum erjum, einu tilsvari; orðstír deyr á einu balli. Heiður Gyðudóttir er aðflutt sambýliskona drykkfellds skólastjóra, hún stendur í ströngu við að kenna æsku þorpsins og stjórna barnakór, réttindalaus í starfi en knúin áfram af eldmóði, ásamt því að elska giftan mann og reyna að ala upp baldinn vandræðaungling að sunnan. Hún er breysk og hvatvís; hressileg týpa með munninn fyrir neðan nefið. Heiður býr yfir mikilli orku sem getur breyst í áráttu þegar áföll dynja yfir og ekki bætir það úr skák, nógu skrýtin er hún samt ef marka má þorpsslúðrið.

Illar tungur

Sögunni vindur fram með þjarki og tortryggni þorpsbúa gagnvart öllu nýju og fjandskap hvers í annars garð. Ýmsir koma við sögu, s.s.  dularfullur viðskiptajöfur og pólskir farandverkamenn, frændur sem hatast, góðbændur og beiskar konur. Þetta er þó ekki einföld saga um skýrar andstæður sveitar og borgar, dyggða og lasta, heldur margradda raunsæisskáldsaga um heim sem mun tortíma sjálfum sér.

Röð atvika draga Heiði niður í svaðið, það eru tilviljanir sem verða til þess að tilvera hennar sundrast, þrátt fyrir velvilja hennar og fórnir. Hún lætur stjórnast af ást og kynhvöt í gamaldags og íhaldssömu samfélagi sem dæmir hana hart. Þetta er sígilt viðfangsefni í skáldskap enda er ástin líklega sterkasta lífshvöt mannins, nátengd sköpunarkrafti, erótík og sjálfsvitund. Heiður hefur marga fjöruna sopið í ástamálum um ævina en kemst að því fullkeyptu í þessari litríku og kímnu sögu.

Góði elskhuginn

Stíllinn er léttur og lýsingar á bæði landi og fólki skáldlegar og á gullaldaríslensku. Sjónarhornið fer víða og skyggnst er í huga þorpsbúa sem hafa hver sinn djöful að draga, m.a. Kristín Júl sem verður að teljast tragískasta persónan; „þokulæða“ sem leynir á sér. Saga fólksins í „pólskra húsi“ er dramatísk og það er kaldrifjaður lesandi sem ekki finnur til með Þórólfi, elskhuganum góða sem tekur hnökrað hjónaband á stórbýli fram yfir ástina og dæmir sjálfan sig til eilífrar óhamingju.

Heiður Heiðar

Heiður berst eins og ljón fyrir heiðri sínum, réttlæti og sanngirni, hún samþykkir ekki ytri viðmið og er fordæmd fyrir, bæði af almenningi og þeim sem völdin hafa. Hún er eins og Hvít, einkennilega hænan „sem fer sínar eigin leiðir og á sér hvergi stað í valdastiga hænsakofans“ (36). Það er stórskemmtilegt að guða á glugga þorpsbúanna um hríð og söguþráðurinn væri svo sannarlega feykigott efni í sjónvarpsseríu.

Sæmundur, 2016

363 bls

Bókarkápa: Aðalsteinn Svanur Sigfússon

Birt i Kvennablaðinu, 17. október 2016

Síðustu fjörkippir kerlingar

Er gamalt fólk ekki mestmegnis til óþurftar í samfélaginu? Úrelt og afdankað? Hætt á vinnumarkaði og komið á stofnanir þar sem það  hangir á horriminni vælandi um hærri ellistyrk. Það hefur gegnt sínu hlutverki, ætti það ekki bara að vera til friðs? Og ef það fer að hlaupa út undan sér, eyða arfinum eða verða ástfangið, þá er illt í efni.

12493764_682634515213193_3080483639432154021_oStutt skáldsaga, Tvöfalt gler eftir Halldóru K. Thoroddsen, hlaut nýlega Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna 2015. Sagan birtist fyrst í tímaritaröðinni 1005 en kemur nú út hjá bókaútgáfunni Sæmundi.

Halldóra er enginn nýliði þótt ekki sé hún afkastamikil, frá 1990 sent hún sent frá sér þrjár ljóðabækur og tvö smásagnasöfn í knöppum og íronískum stíl. Orðheppin er hún með afbrigðum og ætti að fá aukaverðlaun fyrir að nota svo hnyttilega orðasambandið að selja blíðu sína um áratuga starf við umönnun og barnakennslu. Hún vakti verulega athygli með eitursnjöllum örsögum, 90 sýni úr minni mínu (2002) þar sem hún sagði stórar sögur með fáum orðum. Í Aukaverkunum sem komu út 2007 tekur hún sér stöðu annálaritara eða þjóðsagnasafnara með gagnrýna sýn á nútímann en Halldóra hefur sterkar skoðanir á þjóðfélagsmálum. Ljóð hennar eru sömuleiðis beitt og bæði meitluð og myndvís.

Gamlingjar og geldingaást

Hingað til hefur Guðbergur Bergsson aðallega róið á gamlingjamiðin í íslenskum bókmenntum og dregið upp gróteskar myndir sem sýna einsemd, firringu og margrætt eðli mannsins. Í Tvöföldu gleri er fjallað um ellina og stigvaxandi hrörnun líkama og hugar á nærfærnari hátt, um það að hafa ekkert hlutverk í öllum hamaganginum, horfa á samfélagið utan frá, bíða dauðans og taka síðustu fjörkippina.

78 ára gömul kona þreyr þorrann í lítilli íbúð á Lindargötunni. Hún er þokkalega ern og sýslar við sitt, prjónar og hlustar á útvarpið, hittir vini sína sem brátt tína tölunni og fylgist með lífinu fyrir utan gluggann. Óforvarendis kynnist hún manni og tekur upp sambúð við hann, öllum til hrellingar. Kerling þarf reyndar að hugsa sig vel um áður en hún stígur inn í ástina á ný og breytir svona hressilega til í lífinu. Hún óttast að sprengja upp einmanalega veröld sína en vill heldur ekki verða doðanum að bráð (32). Hún hefur hingað til varast sársauka og hikað, alltaf staðið sína plikt og er „siðprútt gamalmenni“ (44).

Ástir eldra fólks eru tabú, einhvers konar geld ást sem stangast á við lífseigar hugmyndir okkar um norm í samfélaginu:

„Sjálft ímyndunarafllið verður feimið við hugmyndina um krumpuð og þurr gamalmenni að riðlast hvort á öðru með aðstoð sleipiefna“ (52).

Ansi svæsin mynd en í sögunni er þetta bæði  fallegt og sjálfsagt.

Kynslóðabil og hið vélræna líf

Í kyrrstæðu bændasamfélagi á öldum áður skipti aldur engu máli. Fólk lifði og starfaði eins og geta þess og heilsa leyfðu uns það lagðist í kör eða dó. Kynslóðir bjuggu saman og unnu að velferð heildarinnar. Þegar ellin og dauðinn færðust frá heimilinu til stofnana myndaðist rof í samhengið. Í sögunni er kynslóðabilið til gagnrýninnar umfjöllunar, ádeilan er grímulaus og beinist einnig að vélrænu lífi þræls gróðaaflanna:

„Hún fæddist inn í iðnbyltinguna sem seint og um síðir barst inn í íslenskar miðaldir og þá loksins gat þetta sker brauðfætt ættbálkinn. Hennar tími var heimskur þurs sem þurfti þó að fá sinn þroska. Það var í upplýsingunni, já, hún man það, sem við fórum að rífa allt í sundur til að skoða innviðina. Upp úr því grúski iðnvæddum við félagið og hólfuðum það niður í núverandi bása. Vinnuna í sérstakt hólf, þar sem hún smám saman hrökk í sjálfstýringu og snýst nú aðallega um eigin vöxt. Rányrkja dugnaðarforkanna eirir engu. Hver kynslóð ratar í sín hólf, bernsku og elli skipað í einangrun. Við hrópum í helli okkar og nemum aðeins eigið bergmál“ (17-18).

Harðsoðin og ljóðræn

Sagan er fallega skrifuð, harðsoðin og ljóðræn í senn, hvert orð er valið af kostgæfni. Myndmálið rímar fullkomlega við efni og þema; konan „hrærir næturkvíðanum út í dimmt kaffið“ (25) og það er „Hem á pollum, ósnertur dagur undir kristal“ (28). Glerið hefur margvíslegt tákngildi, það bæði einangrar og veitir útsýni og birtu, verndar um leið og það er brotgjarnt og skeinuhætt. Skáletruð (gler)brot með þönkum konunnar fleyga textann og þau síðustu bera feigðina í sér; sprungin pera, lekur eldhúskrani, nornagrátt hár og grimmt skammdegismyrkur, minnisleysi og einsemd taka völdin.

Halldóra hefur sýnt að hún er jafnvíg á örsögur og breiðari verk. Það er af ótal mörgu að taka í þessari sögu þótt stutt sé, hún fjallar um tilvist og tilgang, líf og dauða; þrungin speki, lífsreynslu og ríkri réttlætiskennd; tær og hvöss eins og titill hennar ber augljóslega með sér.

Bókaútgáfan Sæmundur, 2015. 75 bls

Birt í Kvennablaðinu, 14. 02. 2016