Blómið eftir Sölva Björn Sigurðsson, er saga um glæp sem enginn virðist vita almennilega hver er. Valkoff fjölskyldan hefur lifað í áratugi í skugga þess að Magga litla hvarf þegar hún var sex ára. Bróðir hennar, Bensi, er vel stæður athafnamaður með sambönd í Rússlandi, hann hefur eytt mörgum árum í að græða peninga í lyfjafyrirtæki föður síns en fór á hausinn í Hruninu, búinn að vera giftur svo lengi að hjónabandið er orðið meira eins og vinátta, ástin er vanrækt þótt hún þrífist eins og kaktus sem gleymist að vökva.

Sálmurinn um blómið
Þann 13. nóvember 2015 hefði Magga orðið fertug og fjölskyldan ætlar að hittast, heiðra minningu hennar og borða saman í sveitinni hjá föður Bensa, Pétri, sem var njósnari fyrir kommúnistaflokkinn og fellur fullkomlega að staðalímynd hins brjálaða vísindamanns. Hann fann upp undralyf í Rússlandi á dögum kalda stríðsins, sem er kallað Blómið, lyfið er sálarseyði sem framkallar einhvers konar virkt hugarástand sem eykur vitund og visku, það er i formi perlu sem er geymd innan í sjálflýsandi kakkalakka, það er eitthvað dularfullt sem Pétur er að brugga í neðanjarðarbyrgi sínu þar sem hann geymir lifandi konu í frysti og saman ætla þau að auðga vísindin, breyta heiminum.
Dularfullur ljósblettur í enni
Einnig kemur Rex við sögu, fyrst sem stelpa og síðan strákur eftir að dælt var í hann sovéskum hormónum, seinna mafíósi í hlýrabol og adídasgalla sem auðgaðist gífurlega á viðskiptum austantjalds. Rex var í garðinum með Bensa þegar Magga hvarf, daginn örlagaríka sumarið 1982, og nú er hann mættur aftur eftir langa fjarveru, með dularfullan ljósblett í enni og hefur illt í hyggju, það eru heimsyfirráð eða dauði.
Hér ætti öllum ráðsettum lesendum að vera nóg boðið, hvað er hægt að bjóða upp á mikið af rugli í einni bók? Bíddu við; X-files, Hrunið og miðstéttarhjónaband að molna í sundur, njósnir í ofanálag, getur þetta gengið upp?
Vel gert og djarflega
Já, það merkilega er að maður getur ekki annað en haldið áfram að lesa í Blóminu – sem er nú annars klénn titill á einhvers konar vísindaskáldsögu. En persónusköpunin er þannig að mann langar að rétta þessu fólki hjálparhönd, komast að því hvað þrúgar það og kyssa á bágtið. Vísindasagan er á kantinum og rennur saman við sorgarsögu og áratuga gamalt fjölskyldudrama, óhugnaðurinn og furðurnar auka síðan á spennuna, draga fram hættulegan heim. Þetta er vel gert og djarflega. Og saman við þetta allt er Hrunið sem sannarlega var áfall og enn hefur ekki verið unnið almennilega úr, því reiðin kraumar, heiftin logar enn.
Sagan hefst á því að Bensi er andvaka og sér ljós í íbúð móður sinnar sem býr í húsinu á móti. Þau taka tal saman, um þetta síðdegi sem breytti öllu, síðdegið þegar Magga hvarf meðan foreldrarnir brugðu sér af bæ. Samtal þeirra er tvær klukkustundir af sögutíma, tæpar 100 blaðsíður af upprifjun, ættarsögu og vangaveltum og hefði ekki mátt vera lengra því það eru takmörk fyrir því hvað maður þolir af angistinni.
Tíminn færir mann doða
Örvænting móðurinnar er nístandi, er eitthvað verra hlutskipti til en að barnið manns sé týnt? „Fyrst eftir að Magga hvarf hugsaði ég ekki um neitt nema hana. Kemur það ekki fyrir þig að þú hugsir bara um það sem þér finnst sárast? Ég hugsaði um hnésbæturnar á henni og kvefin sem hún fékk eftir tjaldgistingarnar ykkar í garðinum. Þannig hugsaði ég árum saman. Um framtennurnar hennar sem voru hálfkomnar niður og fengu aldrei að ná réttri stærð. Það tekur frá manni vitið að hugsa þannig og maður leyfir sér bara að verða brjálaður, áður en kerfið færir manni hugtökin og atferlismeðferðirnar og nútíminn sér loks aumur á manni og vill fara að lækna í manni þráhyggjuna og allt hitt sem maður er greindur með. Maður er ennþá brjálaður. Tíminn færir manni bara doða og svo hefur maður pillurnar“ (45).
Sorgin sjatnar
Sorgin mótar fólk, bæði þá sem stóðu litlu stúlkunni næst og líka þá sem tengjast þeim síðar; óvissan um hvarf hennar er eins og djöfulleg mara, þrungin lygum og leyndarmálum. Á að leyfa sorginni að sjatna, á að viðhalda henni, á hún að fá að dafna og breyta fólki, gera það að því sem það er? Þessum spurningum er velt upp á nærfærinn hátt, þetta er einn þráður sögunnar en þeir eru nokkrir.
Valla, konan hans Bensa, er læknir á Landspítalanum. Hún hefur í gegnum árin samsamað sig þessu ástandi í fjölskyldunni. Hún speglar aðra hlið á Bensa, um leið og dregin er upp mynd af, tjah, góðu hjónabandi og hún er líka rödd „Góða fólksins“ sem kallað er. En bréf hennar til miðils um vandræði í hjónabandinu er nú aðeins of mikið, draumar og fyrirboðar passa ekki alveg inn í þessa vísindaskáldsögu. Valla er orðin langþreytt á að gefa allt en hann ekkert (187), úrkula vonar um að hann drullist til að gera alvöru atrennu að hamingjunni (187) og hætti að skilgreina allt í tætlur. Það er Valla sem gefur hrynfastan tón um góðærin, hlutina og vitleysuna sem fólk eltist við (202):
„Gullhúðaðar ískúlur, fluguhjól og flöskuborð og staðsetningartæki í bíla fyrir fólk sem rataði ekki heim til sín. Þetta var allt sýning. Öll dekkuðu borðin og drifin í bílunum og draslið. Allar merkjavörurnar og yfirborðið og flóttinn og tískutímaritin og tannlýsingarnar…Henni leiddust Lexusarnir og snjallsímarnir og snekkjurnar sem lágu úti á Flóa þegar byrjaði að vora. Hún þoldi illa vælið í ríku viðskiptadrengjunum sem Bensi þekkti yfir því að það væru ekki nógu smart hótel í Reykjavík til að fóstra öll milljarðabörnin sem komust ekki á klósett með Philippe Starck-krana, fólkið sem flúði raunveruleikann með því að húkka einn fisk upp með flugustöng upp úr einhverri laxveiðiá fyrir milljón. Þetta var svo brjálað…“ (203-4).
Á bak við fortíðina er önnur fortíð
En útrásarvíkingurinn Bensi komst í gegnum Hrunið á sjarmanum. Hann fékk fjölmiðla í lið með sér, hann var góði gæinn en samt sakbitinn, svefnlaus og þrúgaður af áhyggjum.
Hann líður áfram eins og í draumi, hann er alveg að fara að vakna og gera eitthvað í sínum málum, rækta sambandið við fjölskylduna, sýna Völlu ást sína, ef það er ekki orðið of seint? Verður hann einhvern tímann frjáls undan fortíðinni? Það er stefið sem gengur í gegnum alla bókina: „Á bakvið hverja fortíð er alltaf önnur fortíð.“
Flókin og vel smíðuð persóna
Sorgin og sektarkenndin sitja um Bensa, nú er hann svo þreyttur að hann heldur varla haus. Stund sannleikans er runnin upp og þetta verður þungbært, hann ætlar loksins að segja allri fjölskyldunni það sem hann veit um hvarfið, um það sem hann hefur íþyngt honum alla ævi. Hann er flókin og vel smíðuð persóna, mann langar mest að þrífa í öxlina á honum.
Bókin skiptist í þrjá hluta, fyrst er samtalið við móðurina og föðurinn þar sem spennan er byggð upp og persónur kynntar til leiks, loks fær Valla sviðið um stund áður en margboðaður minningarkvöldverður hefst og endar… best að segja ekki meir. Kaflaheitin eru setningar úr textanum, það er fallegt.
Leikur í höndunum á höfundi
Sölvi Björn Sigurðsson hefur sýnt að hann er þjóðhagur á flest bókmenntaform. Hann hefur frumsamið og þýtt, laust mál og bundið, notað gamlan efnivið og nýjan. Og allt þetta leikur í höndunum á honum. Þetta er fersk og áræðin saga. Það er vissulega frískandi að fá smá vísinda-sálfræði-glæpa- sögubragð á tunguna. Njósnir eru í raun ekki einu sinni ótrúlegar, hefur ekki komið í ljós að hér á landi var njósnað og hlerað eins og annars staðar?
Hver er glæpurinn?
Blómið er saga um glæp. Hver er svo glæpurinn? Að fremja afbrotið eða þegja yfir því? Hvað er Blómið? Enginn skilur það nema sá sem lifir í því. Það staflar tímanum í hillu… segir í bókinni (163), það er eitthvað æðra sem maðurinn sækist eftir. Alheimsviska, auður, völd, ást? En sú spurning vaknar, er okkur alveg sama hvað það kostar?
Glæpurinn mikli upplýsist ekki fyrr en á síðustu blaðsíðunum. Þá er allt á heljarþröm, það hlýtur að vera meira í vændum, blómið á eftir að springa út, kannski er þetta framhaldssaga? „Þetta er dalurinn hans Rexa,“ sagði hann [Pétur]. „Þar sem næsti kafli sögunnar gerist. Við verðum að hafa betur gegn honum. Þú verður með mér í því, Bensi, ekki satt? Eins og alltaf?“ (286)
Hið illa er ennþá þarna úti.
Steinunn Inga Óttarsdóttur gagnrýndi Blómið – sögu um glæp, í Víðsjá.