Víðsjá

Ung og reið kona sem liggur mikið á hjarta

C3hPYFtWYAElxK8

Homo Sapína, grænlensk bók um ástir lesbía og homma, er ekki alveg það sem er í öllum bókahillum á sárfínum menningarheimilum (frekar en hinsegin bókmenntir almennt ef út í það er farið). Höfundurinn er Niviaq Korneliussen, fædd 1990, og var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2015 fyrir þessa bók, svei mér þá ef hún er ekki með yngstu kandidötum. Hún situr sjálf fyrir á bókarkápu, nakin að borða banana og lætur sér fátt um finnast. Bókin fjallar um fimm unga Grænlendinga í Nuuk, krísur þeirra og kynusla, ástina og tilvistarvandann. Ögrandi efni, bókarkápan er storkandi og titillinn bæði kaldhæðinn og femínískur; „sapína“ snýr hressilega upp á „sapiens“, hið hefðbundna tegundarheiti manneskjunnar í tvíhyggjulegu og merkimiðuðu regluveldi hins vestræna heims, enda er hægt að vera manneskja á svo margan hátt.

Líf fimmmenninganna fléttast saman á ýmsa vegu enda þekkjast allir í bænum, allir eru einmana og leita að ástinni sem er ansi snúið í fordómafullu samfélagi þar sem orðið „losti“ er ekki einu sinni til. Sjónarhornið er hjá einni persónu í hverjum kafla.  Fyrst hjá Fíu sem er hundóánægð með manni sínum og uppgötvar lesbískar hneigðir sínar þegar hún kynnist Söru; dæmigerð frásögn um að koma út úr skápnum og sætta sig við kynhneigð sína. Inuk er bróðir Fíu, hommi sem er útskúfað úr samfélaginu á Grænlandi, á milli systkinanna fara innileg bréf. Arnaq var misnotuð af föður sínum, hún tollir hvergi í vinnu eða námi en deyfir sig með kynlífi, áfengi og dópi og stefnir rakleiðis til helvítis. Ivik er kona í karlmannslíkama, hún hefur viðbjóð á líkama sínum og höndlar ekki ástina, hún býr með Söru hinni fögru sem berst við niðurrifshugsanir og þunglyndi en er í lokin viðstödd fæðingu systurdóttur sinnar og fær við það trú á lífið. Í lokin leikur Sara grænlenska tónlist á gítar, laus við hömlur og allt sem hefur íþyngt henni og ástin blómstrar.

Um leið og hver persóna fær sitt svið eða sinn kafla, á hún líka sitt lag sem kaflinn heitir eftir og hún vitnar stöðugt í, lagið túlkar hennar karakter og tengir við veröld afþreyingar og internets. Viðfangsefni sögunnar er ekki bara átök og þroski hverrar persónu fyrir sig heldur rambar samfélagið á barmi glötunar og krísur um kynvitund og þjóðerni bæta ekki úr skák. Inuk (nafnið merkir sá sem er Inúíti) er sú persóna sem helst tekst á við samfélag sitt og sjálfsmynd en í bréfum sínum til Fíu er hann uppfullur af hommahatri, skilgreinir í örvæntingu staðalmyndina af dæmigerðum Grænlendingi og lýsir sömuleiðis kreppunni eða komplexunum sem felast í því að vera eiginlega hvorki Grænlendingur né Dani. „All I want is to be home“ segir í einkennislagi hans með Foo Fighters.

Textinn er að mestu talmál, óheflaður, brotakenndur og úr ýmsum áttum; bréf og dagbækur, sms, ljóðlínur, lagatextar, myllumerki og frasar á ensku sem er væntanlega að verða handhægt tungumál unga fólksins á Grænlandi, rétt eins og hér. Skilaboð sem sett eru upp með farsímaútliti færa lesanda nær persónunum sem þannig sogast oní þeirra einkamál en hversu langlíf slík ritlist er má einu gilda því það er núið og samtíminn sem eru undir í þessu verki. Korneliussen er auðvitað tvítyngd og þýddi bók sína sjálf úr grænlensku yfir á dönsku og er þýðing Heiðrúnar Ólafsdóttur á íslensku hin rennilegasta. Ég átta mig ekki alveg á því hvort þýðingin sé hallari undir ritmál en frumtextinn, finnst eins og stundum örli á því.

Í frásagnarhætti og stíl Homo Sapína felst djörf formtilraun, eða kannski öllu heldur (ungæðisleg) kærulaus afstaða til forms, og bæði tónlistin sem vísað er til og tengist hverri persónu sérstaklega og grófkornóttar ljósmyndirnar hjálpa til við að birta alla þá skömm, þrá og bælingu sem knýja persónurnar áfram. Ljósmyndirnar hafa eitthvað alveg sérstakt við sig, það er þessi hráa nekt og loðni sígarettureykur, eins konar Ástu Sig svipur á þeim, sem bera með sér uppreisn og léttúð. Það er ung og reið kona sem heldur utan um þræði sögunnar og henni liggur mikið á hjarta.

Heyrum að lokum Korneliussen lesa upp úr bókinni stutt brot, fyrst hina hefðbundnu skilgreiningu á Grænlendingi sem stoltur elskar sitt fagra land og virðir forfeður sína og síðan hvað þýðir í raunveruleikanum að vera Grænlendingur; að vera misnotaður, fullur og reiður og beita ofbeldi.

„Vort ævagamla land, hypjaðu þig til fjalls og komdu aldrei aftur. Hættu að taka þig svona sjúklega alvarlega og taktu öll skitnu börnin þín með þér.

/Greenlander by force“ (56).

Upplestur: https://politiken.dk/kultur/boger/skonlitteratur_boger/art5553459/Romandebutant-fort%C3%A6ller-modigt-om-at-finde-sig-selv-seksuelt-i-Nuuk

Víðsjá, 29. júní 2018

Íslenskur djammveruleiki

Jónas Reynir Gunnarsson sendir nú frá sér sína fyrstu skáldsögu sem heitir Millilending. Steinunn Inga Óttarsdóttur fjallaði um bókina í Víðsjá.

Steinunn Inga Óttarsdóttir skrifar:

nightlife-in-reykjavik-1„Ég er ekki vön að keyra full. Ég veit alveg að það er sjálfselskt og heimskulegt að láta sér detta það í hug en ég var bara búin með tvo bjóra sem ég hafði líka ælt og eitthvað smá af grasgufu sem ég vissi ekki einu sinni hvort virkaði, þannig að ég keyrði bara af stað. Annars væri ekki það versta sem gæti gerst að vera tekin af löggunni og fá að gista í fangaklefa“ (87).

Svo mælir María, aðalpersóna í Millilendingu, nýrri skáldsögu eftir nýjan höfund, Jónas Reyni Gunnarsson. Hún kemur við í Reykjavík á leið til Köben og það gengur á ýmsu þennan sólarhring sem hún stoppar. Líf hennar er í tómarúmi, hún er nýhætt með kærasta og á ekki í nein hús að venda nema þá til pabba, sem er alltaf að skamma hana, eða ömmu sem krefst þess að hún fullorðnist.

María er alveg laus við að rogast með framtíðarplön, hún pælir ekkert í hlutunum heldur hugsar bara í hringi og berst með straumnum; ástand sem flestir kannast við frá einhverju skeiði ævi sinnar. Pabbi hefur keypt handa henni farmiða til CPH og hún veit sosum ekkert hvað bíður hennar þar. Og fær þá skyndihugdettu að fara bara hvergi, með eftirfarandi rökum: „Og ef það átti hvort eð er að neyða mig til að vera óhamingjusöm og finna mér einhverja vinnu sem ég hataði þá gæti ég alveg eins verið í Reykjavík“ (51).

Broguð sjálfsmynd

Framganga Maríu í sögunni einkennist af uppgjöf sem birtist m.a. í því að hún á erfitt með draga andann, getur varla geispað eða fyllt lungun. Sjálfsmynd hennar er eitthvað broguð, henni finnst hún líta út eins og hún sé 11-15 ára, fötin hennar eru ljót, síminn „Samsung piece of shit“ (8); þegar hún lítur í spegil er eins og það sé eitthvað að henni og hollningin er eins og hún hafi strokið af leikskóla. Svefnvana og hálfdópuð þvælist hún á milli staða og fólkið sem verður á vegi hennar er annað hvort hrikalega pirrandi eða alveg sama um allt. Hún hugsar hún með sjálfri sér í hrakningunum: „Áður en ég dey væri ég til í að hitta manneskju sem líður í alvörunni vel“ (148).

Lífið er flókið og erfitt þegar maður er ungur og lesandinn sveiflast milli þess að ætla að taka Maríu litlu í faðminn og vernda hana eða hrista óþyrmilega. Sýn hennar á tilveruna ber ekki vott um mikinn þroska eða bjartsýni, henni finnst t.d. frekar ósanngjarnt þegar pabbi hennar segir henni að hætta þessari vitleysu og taka sig á: „eins og allt sem ég lendi í sé mér að kenna“ (163).

Djúp kreppa

Lesandi fær lítið að vita um bernsku eða fortíð Maríu. Móðir hennar kemur hvergi við sögu en María virðist heimavön hjá ömmu sinni. Hún er reikul og ráðvillt og tilvistarkreppa hennar er töluverð en varla neitt verulega sár eða knýjandi. „Þegar ég hugsa um fortíðina man ég bara eftir einhverju sem lætur mér líða eins og fávita. Það er eins og allt sem ég geri endi með hræðilegri eftirsjá og nú fannst mér eins og það væri ekki lengur nein bið á því, mér leið bara alltaf eins og fávita yfir öllu sem ég var að díla við um leið og ég var að díla við það“ (117).

Þegar María rifjar upp samverustundir með pabba sínum man hún eftir ókláraðri mynd af Friðriki mikla á listasafni í Berlín sem þau skoðuðu saman forðum. Loksins fann hún til samkenndar, henni finnst hún vita hvernig málaranum líði; pirraður yfir að geta ekki lokið verkinu; og hvernig hershöfðingjunum líður sem með útkrotuð andit bíða fyrirmæla og mæna á auðan blett á striganum þar sem Friðrik mikli átti að standa (170-171). Táknrænt fyrir Maríu; hún er auður strigi og bíður eftir því að fá að vita hvernig hún eigi að lifa þessa orrustu af (171) – hún ætlar ekki að sigra, bara lifa af.

María og vinir hennar, Gaui og Brynja, eru af svokallaðri velmegunarkynslóð  eða Y-kynslóð sem fæddist um síðustu aldamót og er að verða fullorðin núna. Þetta er kynslóðin sem ólst upp við fjölmiðlabyltingu og tækniframfarir, sökkti sér í  tölvuleiki og kann á alla samskiptamiðla og snjalltæki. Kynslóð sem hugsar öðruvísi en fyrri kynslóðir, sér t.d. sáralítinn tilgang með fastri 9-5 vinnu. Vinnan sem Gaui sér fyrir sér að gæti hentað honum er að passa sadda ketti sem fólk færir honum, að vera „helgarpabbi fyrir ketti“ (40). Pælingin er að leggja ekkert á sig, bara chilla og hafa það geðveikt næs, spila Fallout og póker á netinu og panta pitsu. Þegar svona plön ganga ekki eftir, mætir fólk af velmegunarkynslóðinni mótlæti sem það kann ekki að takast á við, heldur verður magnvana og þunglynt. Í stærstum hluta bókarinnar líður Maríu illa; á flótta með ælubragð í munni og þjökuð af hugarórum.

En María er fyndinn og orðheppin manneskja í þessum ömurlegu aðstæðum. Þrátt fyrir doðann sem heldur henni í helgreipum, tekur hún eftir ýmsu í kringum sig, rifjar upp alls kyns atburði og lýsir ítarlega og miskunnarlaust klósettferðum og ælugusum, ropum, svita, hori og húðfrumum, skítugum sokkum, feitum bumbum og  vondri lykt. En hörðust er hún þó við sjálfa sig.

Millilending er vel stíluð saga, fyndin og sár í senn, skemmtilega afslöppuð og leynir á sér. Hér er dreginn fram kimi sem er sjaldan á dagskrá, íslenskur djammveruleiki og samtími nýrrar kynslóðar. Myrkt og drungalegt vetrarumhverfið er leikmynd einmanakenndar og þrúgandi vanlíðunar þessa unga fólks sem leitar lífsfyllingar í hverfulum heimi og flýr á náðir vímu, hálfkærings og afstöðuleysis.

Í lokin hefur María náð botninum, komin upp í rúm hjá lúðalegum gaur í von um samskipti sem eru ekki bull (166). Orðalagið þegar hann „byrjaði að sofa hjá mér“ sýnir annað hvort það hversu María er fjarlæg sjálfri sér að átta sig ekki á hvað er að gerast, eða þá að það þykir ekki við hæfi að tala um að ríða eða nauðga í svona flottri skáldsögu eftir svona efnilegan höfund fyrir svona teprulega lesendur.

Víðsjá8 nóv 2017: http://www.ruv.is/frett/islenskur-djammveruleiki-i-skaldsogu

Fram þjáðir menn í lekum bússum

Hreistur_kapa_prent.inddEf nefna ætti einhvern sem hefur gert íslenskum farandverkamanni almennileg skil í ljóði og myndum, kemur Bubbi Morthens auðvitað fyrst upp í hugann. Töffarinn sem birtist í sjávarþorpinu troðfullur af dópi og hassi og þrælaði sólarhringum saman í akkorði við fiskvinnu. Hann tilheyrði rótlausum verkalýð sem fór pláss úr plássi þegar vantaði fólk í uppgripavinnu í frystihúsum, loðnubræðslum, á togurum eða dagróðrabátum; ílentist hvergi, passaði hvergi. Þetta var áður en fiskveiðikvótinn varð eign sægreifanna með þeim afleiðingum sem allir þekkja.

Farandverkamaðurinn og minningar úr sögu þjóðar eru efniviður ljóðabókar Bubba sem nefnist Hreistur. Bókin sem er tileinkuð fóstru hans og helsta bókmenntapáfa landsins, Silju (Aðalsteinsdóttur) inniheldur 69 nafnlaus og númeruð ljóð og umgjörð þeirra er sjö vökunætur þar sem fortíð vitjar mælandans sem „flæktur í vetrarkvíða“ (1) „fangar ljósfælin botndýr hugans“ (35).

Já, frystihúsið, færibandið og farandverkamaðurinn, allt er það nú gott og blessað en höfum við ekki heyrt þetta allt áður hjá höfundinum? Jú, hrognin eru að koma og ef ég drukkna, drukkna í nótt skjóta upp kolli í Hreistri, þetta þema hefur fylgt Bubba frá upphafi ferils hans seint á síðustu öld og er vörumerki hans. En einhvern veginn hefur hann alltaf lag á að endurnýja sig, koma ferskur inn. Og þetta er harðvítugt efni sem er ekki tæmt, bitur reynsla sem enn á eftir að vinna úr. Vísanir í fyrri verk búa til stemninguna, lesandinn setur sig í stellingar, kominn aftur í tímann, mættur upp á verbúð eftir langa vakt í hvítum stuttermabol með hlandvolgt vokda í kók.

Fiskverkafólkið hírist í fjórtán köldum og subbulegum herbergjum á verbúðinni sem „lykta af fiski, brundi, slori, rakspíra“ (1). Þetta er munaðarlaust, menntunarlaust og skeytingarlaust fólk (3) sem vekur hálfgerðan óhug meðal þorpsbúanna. Sjávarplássin eru í uppgangi á þessum tíma, símstöðin og kaupfélagið á sínum stað, það er næg atvinna og útgerðin blómstrar og það er ball í landlegum. En afturhvarf til hreistraðrar fortíðar er hvorki nostalgískt né fegrað. Þetta er harður heimur sem einkennist m.a. af ofbeldi og vímuefnaneyslu, eins og sjá má í ljóði sem dregur upp mynd af hópnauðgun á verbúðinni; atvik sem brenndi sig í minni ljóðmælandans. Heyrum skáldið fara með ljóð nr 27.

Bubbi les ljóðið 11.23-13.02        http://www.ruv.is/frett/eg-vard-vitni-ad-brutal-naudgun

Ljóðið er grípandi og áhrifamikið. Bubbi hefur sjálfur valið það til upplestrar víða enda smellpassar það inn í þá vaxandi umræðu um kynferðisofbeldi fyrr og nú sem á sér stað í samfélaginu. Í ljóðinu er lýst hinum sundurleita hópi fólks sem dvelur á verbúðinni; krúttlegur prófessor og kona sem segir sögur við „varðeld fiskanna“ en skrýmsli liggur í leyni; ofbeldi á sér stað, eins og „fjólublátt armband“ ber vott um; það er glæpur í gangi og það að hafa ekkert aðhafst hvílir á samviskunni árum saman.

Myndmálið úr mal Bubba samanstendur oftlega af kunnuglegum eignarfallssamsetningum, eins og „ískaldir fingur vetrarins“ og „langir armar myrkursins“. En í Hreistri eru líka ljóðmyndir sem ganga vel upp og eru nýmeti, hressilega jarðtengt og alveg séríslenskt. Ég tíni hér til nokkrar slitrur:

„langir fölgrænir veggir með / blóðblettum vínblettum leifum af uppköstum / voru okkar kjarval (1)

stelpurnar / allar þessar sölkur / með hníf í hendi og hárið frjálst (15)

í þúsund fokkera fjarlægð

var borgin sem við höfðum flúið

(40)

ríkistónlistin barst frá hátalara sem hékk niður úr loftinu

torfbæjarraddir fluttu dánartilkynningar

og jarðarförin var fyrr en varði komin inn til okkar

(40)

fram þjáðir menn í lekum bússum

(53)

sjóveikt viðundur

í óráðinu ljómaði hafið í sökkvandi raunveruleika

spýjan skall á gólfið

hálfmeltar hugmyndir um sjómennskuna

skoluðust eftir þilfari fyrir borð

(62)

Ljóð nr 16 finnst mér gott, líka nr 40, 44, 55. Og að lesa nr 65 er eins og að koma í heimahöfn, það er framlenging á frægasta lagi Bubba sem gaulað er í öllum betri partýum. Hreistur boðar ekki nýjungar í skáldskap, það eru engin átök við form eða efni en vel er farið með. Hreistur er heldur ekki pólitísk bók, það er engin reiði eða ádeila á ferð í þessu uppgjöri heldur stafar einlægni af ljóðunum og jafnvel örlar á viðkvæmni. Hörkuleg ímynd töffarans með stálið og hnífinn hefur dignað og velkst af boðaföllum í lífsins ólgusjó.

Alexandra Buhl annaðist hönnun og umbrot Hreisturs sem er alltof fíngert og nostursamlegt og í hróplegu ósamræmi við hrátt og blautt innihaldið. Og ég verð að segja, sem fyrrum frystihúsgella, að ég hef á tilfinningunni að hreisturgrafíkin sem prýðir bæði bókakápu og blaðsíðurnar snúi öfugt.

 

Víðsjá, 7. sept 2017: http://www.ruv.is/frett/adeilunni-skipt-ut-fyrir-einlaega-vidkvaemni

 

 

Sögumaður sem þegir

„Þetta er margfalt stærri bók en hún lítur út fyrir að vera og ágeng eftir því. Allt sem þögnin leynir brýst fram í meitluðum, viðkvæmnislegum stíl,“ segir Steinunn Inga Óttarsdóttir, bókmenntagagnrýnandi Víðsjár, um bókina Velkomin til Ameríku eftir Lindu Boström Knausgård sem nýlega kom út í þýðingu Þórdísar Gísladóttur.

Steinunn Inga Óttarsdóttir skrifar:

680

Stundum eru skáldsögur ágengar og djúpar í einfaldleika sínum, stórar í smæð sinni, fáorðar um svo margt. Líkt og þríleikur hins norska Jon Fosse (2016) sem lýsir sögu kynslóða í Noregi á fyrri öldum með svo knöppum stíl að það er undravert; svo sannarlega efniviður í óralanga sjónvarpsþáttaröð eða 3ja tíma dramatíska bíómynd. Sænski rithöfundurinn Linda Boström Knausgård (f. 1972) er einnig spör á stóru orðin þegar hún lýsir geðveiki og örvæntingu brotinnar fjölskyldu á 95 blaðsíðum í glænýrri bók sem ber þann vongóða titil, Velkomin til Ameríku.

Á bókarkápu er svarthvít sjálfsmynd af stúlku sem heldur á einhverju, kannski fornri selfie-stöng (því ljósmyndarinn dó 1981). Stúlkan horfir ekki í myndavélina, hún lítur undan og hárið hylur andlit hennar. Myndin er ekki í fókus og öll frekar óskýr og drungaleg sem slær svo sannarlega tóninn fyrir stemninguna sem koma skal.

Sögumaðurinn er ellefu ára stúlka en skynjun hennar á heiminum er fullorðinsleg og uggvekjandi, hún er einmana og öryggislaust barn sem  heldur fast í myrkrið (32), með eilífan kvíðahnút í maganum og óskar þess að deyja, hún sér enga aðra útleið. Hún hefur þolað margs konar ofbeldi og niðurlægingu á sinni stuttu ævi; orðið fyrir geðveiku stjórnleysi föður síns og beygt sig undir líkamlegt og andlegt ofbeldi bróður síns sem situr um að kvelja hana. Hún heitir Ellen og hún hugsar með sér – en segir það ekki upphátt: „Það er ekki auðvelt að alast upp“ (82).

Því segir hún það ekki upphátt? Tja, Ellen lumar nefnilega á aðferð til að lifa af í hörðum heimi. Það er þögnin, hún hefur ekki mælt orð frá vörum í langan tíma. „Ég hætti að tala þegar ég byrjaði af vaxa of hratt. Ég var viss um að ég gæti ekki bæði talað og vaxið“ (6). Hún hefur rekið sig á að tungumálið er lika hvort sem er fullt af lygum. Hún vill heldur ekki skemma þá glansmynd sem hampað er af fjölskyldulífinu né afhjúpa léttinn innra með sér; hún óskaði þess svo heitt að pabbi dæi og óskin rættist.

Á heimili Ellenar eru tæplega nokkur samskipti milli móður og barna, þar er eilíf valdabarátta: „Kannski fannst bróður mínum að ég réði, og mér fannst það vera hann og mamma hélt að það væri hún, þó að í raun vissi hún það ekki. Það var eins og friðsældin, sem ég upplifði stundum heima, orsakaðist af því að þar væri fínriðið net af skilningi og góðvild, að enginn braut gegn óskrifuðu reglunum. Allir urðu að leggja sitt af mörkum, annars brysti allt“ (92). Ellen hefur mikla þörf fyrir að hafa stjórn á öllu: á hvatvísinni, hugsunum sínum, vexti líkamans; að endurraða húsgögnunum í litla heiminum sínum, teygja á þráðum öryggisnetsins með þrjóskunni (92) og reyna þannig að halda fjölskyldunni saman.

Bróðirinn er alltaf með lúkurnar á lofti, lokar sig heiftúðugur inni í herberginu sínu og hefur neglt dyrnar aftur. Mamman er heillandi leikkona, valdamikil með gleði sína og styrk, „það er bjart yfir fjölskyldunni okkar“ (10), segir hún í tíma og ótíma, í einhverri undarlegri afneitun eða til að verjast myrkrinu sem ásækir þau öll, en þegar hún bugast og grætur eftir skapofsaköstin fellur heimurinn saman (16). Kannski er hún alltaf að leika leikrit á sviði (95) þar sem pabba er ekki hleypt inn til að trufla sýninguna. Ellen elskar og dáir mömmu sína og lítur á hana sem náttúruafl og frelsara þrátt fyrir að hún sé augljóslega djúpt sokkin í sjálfsblekkingu, jafnvel sjálfhverfu. Pabbinn var drykkfelldur og geðveikur, þrúgaði allt heimilislífið og heldur því áfram eftir skilnað og dauða, hann birtist í herbergi Ellenar, horfir á hana sofa, treður sér inn í líf hennar. Sjálf segist Ellen vera ljúflynd og góð stelpa, hún heldur dauðahaldi í minningar um útivist, veiðiferðir og hamingjuríka barnæsku áður en ógæfan dundi yfir, og hún býr yfir  djúpri bókstafslegri barnatrú. En hún hefur tekið á sig ábyrgð á velferð annarra, axlað sorg þeirra og geðveiki. Með því að velja þögnina ver hún sig, þá er færra sem þarf að taka ábyrgð á, færra sem þarf að hafa stjórn á en afleiðingarnar eru yfirþyrmandi einsemd og skömm. „Það er bjart yfir fjölskyldunni okkar…“

Ellen hefur ákveðið að þegja en hvorki mamman né bróðirinn nýta sér tungumálið heldur. Þögnin hentar fjölskyldunni ágætlega, þannig kemst hún af. „Þögnin í kringum mig óx og varð líka að þeirra þögn. Mamma talaði enn við mig en hún gerði ekki ráð fyrir að fá svar. Ég held það hefði hrætt hana ef ég hefði skyndilega sagt eitthvað. Það er líkt og allar aðstæður leiti jafnvægis. Þegar við rekumst hvert á annað við ísskápinn, er hver einasta stund eins og eitthvað sem þarf að jafna út með einhverju öðru. Að búa saman var kannski einmitt þetta. Að færa jafnvægispunktinn til þar til allir væru sáttir. Margar leiðir voru mögulegar. Eitt var ekki verra en annað“ (30).

Í tungumálinu felst menning, vald, sjálfsmynd, gildismat, kennisetningar, kerfi, karlveldi, kúgun og útilokun svo eitthvað sé nefnt og það er merkingarþrungin ákvörðun að snúa við því baki. Svo sannarlega er það áskorun fyrir rithöfund að lýsa því með sjónarhorni persónu á mörkum bernsku og unglingsára og fjalla um trámatíska reynslu og uppeldi sem mótar og herðir, þroskar í besta falli eða eyðileggur til frambúðar, án þess að verkið verði klénn sálfræðiþriller eða hvunndagsleg vandamálasaga. Það tekst í þessari meitluðu bók. Að alast upp við aðstæður Ellenar er ekki boðlegt en viðgengst samt alltof oft víða í skeytingarleysi og sjálfhverfu vorra tíma. Ef nefna ætti höfund sem hefur helst verið á þessum slóðum í íslenskum bókmenntum koma Vigdís Grímsdóttir og Auður Jónsdóttir fyrst upp í hugann en í sögum þeirra má sjá álíka örvæntingarfullar tilraunir barna til að lifa af og halda heimi fjölskyldu sinnar saman.

Harmsaga pabbans, geðveiki hans og dauði, er undiraldan í sögunni. Sjálf þekkir Linda Boström Knausgard andleg veikindi enda hefur hún glímt við þau  sjálf, sem frægt er orðið. Bók Lindu er sjálfsævisöguleg að hluta, sjálf valdi hún þögnina á tímabili í eigin uppvexti og átti í býsna flóknu sambandi við móður sína.

Bókin kom út seint á síðasta ári í Svíþjóð, var þýdd snarlega á flest Norðurlandamálin og er nú komin út, í aprílmánuði hinum grimma, í glóðvolgri, íslenskri útgáfu. Það er vert að lofa metnaðarfullt og lofsvert framtak íslenskra  bókaútgefenda sem leggja kapp á að vera tímanlega með það nýjasta í bókmenntum í öndvegisþýðingum. Þýðing Þórdísar Gísladóttur úr frummálinu er fullkomlega tær og myndrík og lýsir spennu milli þroskaðrar sögumannsraddar og sjónarhorns ellefu ára barns. Orðalag Ellenar er víða fullorðinslegt, mér fannst til dæmis gaman að sjá hana nota orðið „heybrók“ um „feg jävel“ (48). „Tystnad“ á sænsku er þögn á íslensku, mikið er nú íslenskan falleg.

Velkomin til Ameríku vísar allkaldhæðnislega til fyrirheitna landsins, lands tækifæra og frelsis og tengist þeirri ímynd sem móðirin býr til af fjölskyldulífinu. Þetta er margfalt stærri bók en hún lítur út fyrir að vera og ágeng eftir því. Allt sem þögnin leynir brýst fram í meitluðum, viðkvæmnislegum stíl sem er fullur af átakanlegu trúnaðartrausti og von um betri daga:

„Það er bjart yfir fjölskyldunni okkar…“

Við heyrðum Göran Engdal plokka gítarstrengi og sænsku hljómsveitina Knife taka lögin The Silent Shout og Heartbeats. Í lokin ómaði Dýrð í dauðaþögn eftir Ásgeir Trausta.

Víðsjá, 24. apríl 2017

Staðir og stef

Sigurdardottir1.jpg

Mynd: toutelisande.fr

Nýjasta bók Steinunnar Sigurðardóttur, Af ljóði ertu komin, er sú níunda í röð ljóðabóka hennar frá því hún kvaddi sér fyrst hljóðs árið 1969. Tæp 10 ár eru síðan Steinunn sendi síðast frá sér ljóðabók svo aðdáendur hennar voru orðnir ansi langeygir eftir molum frá drottningunni. Þeir verða ekki sviknir af nýju bókinni. Nú er örstutt í að að það verði hálf öld síðan Sífellur, fyrsta ljóðabók Steinunnar, kom út og því finnst mér tilvalið að lesa eitt ljóðanna úr henni.

„Nú skal aðgát höfð
og fólk einungis sært af lipurri einurð og umhyggju,
því nægar eru þær fyrir
þjáningar mannssálarinnar
já sízt á þær bætandi
svo hjálpi mér guð“

Þarna eru þau þegar mætt, kunnugleg stefin; íronía, orðaleikir og vísanir sem síðar urðu meðal helstu höfundareinkenna Steinunnar. Gagnrýnendur tóku bókinni sæmilega en fæstir áttu von á hinum glæsta ferli þessarar nítján ára gömlu skáldkonu.

Óendanleikinn allt um kring

Nýja ljóðabókin er tileinkuð einu flottasta og mest kvótaða skáldi módernismans á Íslandi, Sigfúsi Daðasyni, sem er sjálfsagt mjög sáttur við þann heiður. Bókin skiptist í nokkra hluta eða ljóðaflokka sem tengjast hafi og ást, dauða og sorg. Fyrst eru Siglingaljóð, sem þó eru engir sjómannavalsar. Endilöng manneskja í áralausum bát kemst að því að ástin sem hún þáði var stærri en sú sem hún gaf og að það er ekki alltaf land fyrir stafni, stundum er bara óendanleikinn allt um kring.

Ljóðið „Siglandi“ hittir beint í mark með taktföstum hljómi og hrynjandi og  hnyttnum myndhverfingum, heilsteyptri nýgervingu, um tilfinningarnar sem koma til manns á viðeigandi fleytum, heyrum brot úr því:

„Allt kemur það siglandi til mín:
Síðbúna Ástin á manndrápsfleyi.
Kæruleysispramminn.
Óstöðvandi gufuskipið Sorg.
Dauðinn á tundurspillinum.
Kemur Vonin höktandi á laskaða sanddæluskipinu.
Og Unaðurinn á flotholtinu samsíða.“ (15)

Írónían aldrei langt undan

Í næsta hluta bókarinnar kemur nóvember við sögu í öllum ljóðunum. Og allt er þar forgengilegt, meira að segja „The Girl from Ipanema“, sem bregður fyrir,  sú sem er hávaxin og sólbrún, ung og elskuleg í samnefndu dægurlagi, það sér á henni eins öllu öðru, allt hverfur, allt fer…

Í þeim hluta sem ber nafnið „Um allt og ekkert þvert“, hefjast ljóðin á einmitt orðunum Allt, Ekkert og Þvert. Þetta eru heimspekileg ljóð um kunnugleg stef, um tímann og fleira, og íronían sem Steinunn er þekkt fyrir að beita svo listilega er ekki langt undan:

„Allt er fyrirhöfn
að klína marmelaði á brothætt tekex, tjónka við rugludalla, búa sig á ballið, skreppa á klóið enn eina ferðina,
mála vegginn ófaglærður.

Af því að allt er fyrirhöfn
er maðurinn alltaf þreyttur;

eilíflega á leiðinni að leggja sig.

Þó vill hann allt annað en það þegar tími er kominn til að
leggja sig alveg.

Sitjandi upp við dogg heldur hann dauðahaldi í líftóruna.
Neitar að leggjast út af.

Það er mesta fyrirhöfnin þegar verst stendur á.

Því þá er maðurinn alverst í stakk búinn til að standa
í stórræðum
þegar deyja skal.

Loksins
Eftir lífsins óbilandi fyrirhöfn og málningarbras.“ (43)

Ísmeygileg kaldhæðni kemur í veg fyrir væmni án þess að breiða yfir boðskapinn. Í ljóðaflokknum eru líka þessar íhugulu hendingar sem sitja í manni:

„Af því að ekkert gerist um leið og það gerist,
Er lífið samsett úr andartökum sem við missum af“ (50)

Staðir eru Steinunni hugleiknir í skáldskap, og hér má finna staði fyrirheita, óskastaði, nafnlausa staði og eyðistaði. Kaflinn „Staðbundin ljóð“ sýnir kunnuglega hjartastaði sem eru myndrænir og eiga sér sögu, eins og Vatnsmýrin, Akureyri og Mokka. Í samnefndu ljóði er Ísjakaskipstjóri við Labrador að pæla í þessum fallegu ljóðlínum: „Enn er hjartað bundið í hafi, eyðimörkinni bundið, náttstað og eldi, sandrifi meðfram stjörnum“ (31). Áðurnefndur Sigfús hefði verið ánægður með þetta.

Dauðinn fer í Sundhöllina

Í þeim hluta sem kallast „Hinstu rök“ stígur dauðinn fram sem elskhugi, prakkari, flagari og fyllibytta. Þetta er hefðbundin myndhverfing sem á sér djúpar og alþjóðlegar rætur í bókmenntasögunni. Mynd Steinunnar af kauða er máluð íslenskum sauðalitum, hann fer í Sundhöllina með rakdótið og svo í Alþýðuhúsið með pela í buxnastrengnum. Þótt við reynum að forðast hann, verður hann á vegi okkar um síðir og býður upp í hinsta dans. Þetta hljómar eins og gömul tugga, en það er eitthvað við þetta.

„Dánir vinir“ er ísmeygilega kaldhæðinn ljóðaflokkur eins og sést af eftirfarandi broti sem er mjög Steinunnarlegt: „Dánir vinir vita ekkert í sinn haus, ekki um eftirleikinn, og það er eitt af því sem er svo þreytandi við þá“ (58).

Síðasti hlutinn er svo „Öldutrall“, gullfalleg ljóð þar sem hverflyndar öldur tralla og fjarræn golan sönglar um sorg og söknuð.

Lagt á djúpið

Ljóð Steinunnar Sigurðardóttur eru útpæld, full af einhverju fallegu og ljúfu, bæði lífsreynslu og lífsgleði. Sígild þemu eins og ástin, dauðinn og tíminn sem gætu virkað þreytt og máð, verða alltaf eins og ný í hennar meðförum. Ljóðin eru hlý, gefandi, heimspekileg og mannbætandi. Hún hefur frábært vald á tungumálinu, gjörþekkir mátt orðsins, kraft þess og kynngi. Þótt kímnin sé að vanda með í för liggur sorgin líka „í loftinu allar götur“ – og tengist við æskustaði, Blágresisbrekku og Hrauntjarnir (66).

Af ljóði ertu komin, (athugið að í titlinum er talað til kvenkynsins) er sérlega heilsteypt ljóðabók, hér er ekkert grunnsævi eða gutl, það er lagt á djúpið. Eini gallinn er kannski sá að hún er of stutt, hvert orð og hvert ljóð vandlega valið – við viljum alltaf meira.

Bókmenntagagnrýni · Menning · Víðsjá, 6. janúar 2017

Hið illa er þarna úti

Blómið eftir Sölva Björn Sigurðsson, er saga um glæp sem enginn virðist vita almennilega hver er. Valkoff fjölskyldan hefur lifað í áratugi í skugga þess að Magga litla hvarf þegar hún var sex ára. Bróðir hennar, Bensi, er vel stæður athafnamaður með sambönd í Rússlandi, hann hefur eytt mörgum árum í að græða peninga í lyfjafyrirtæki föður síns en fór á hausinn í Hruninu, búinn að vera giftur svo lengi að hjónabandið er orðið meira eins og vinátta, ástin er vanrækt þótt hún þrífist eins og kaktus sem gleymist að vökva.

blomid-500x772

Sálmurinn um blómið

Þann 13. nóvember 2015 hefði Magga orðið fertug og fjölskyldan ætlar að hittast, heiðra minningu hennar og borða saman í sveitinni hjá föður Bensa, Pétri, sem var njósnari fyrir kommúnistaflokkinn og fellur fullkomlega að staðalímynd hins brjálaða vísindamanns. Hann fann upp undralyf í Rússlandi á dögum kalda stríðsins, sem er kallað Blómið, lyfið er sálarseyði sem framkallar einhvers konar virkt hugarástand sem eykur vitund og visku, það er i formi perlu sem er geymd innan í sjálflýsandi kakkalakka, það er eitthvað dularfullt sem Pétur er að brugga í neðanjarðarbyrgi sínu þar sem hann geymir lifandi konu í frysti og saman ætla þau að auðga vísindin, breyta heiminum.

Dularfullur ljósblettur í enni

Einnig kemur Rex við sögu, fyrst sem stelpa og síðan strákur eftir að dælt var í hann sovéskum hormónum, seinna mafíósi í hlýrabol og adídasgalla sem auðgaðist gífurlega á viðskiptum austantjalds. Rex var í garðinum með Bensa þegar Magga hvarf, daginn örlagaríka sumarið 1982, og nú er hann mættur aftur eftir langa fjarveru, með dularfullan ljósblett í enni og hefur illt í hyggju, það eru heimsyfirráð eða dauði.

Hér ætti öllum ráðsettum lesendum að vera nóg boðið, hvað er hægt að bjóða upp á mikið af rugli í einni bók?  Bíddu við; X-files, Hrunið  og miðstéttarhjónaband að molna í sundur, njósnir í ofanálag, getur þetta gengið upp?

Vel gert og djarflega

Já, það merkilega er að maður getur ekki annað en haldið áfram að lesa í Blóminu – sem er nú annars klénn titill á einhvers konar vísindaskáldsögu. En persónusköpunin er þannig að mann langar að rétta þessu fólki hjálparhönd, komast að því hvað þrúgar það og kyssa á bágtið. Vísindasagan er á kantinum og rennur saman við sorgarsögu og áratuga gamalt fjölskyldudrama, óhugnaðurinn og furðurnar auka síðan á spennuna, draga fram hættulegan heim. Þetta er vel gert og djarflega. Og saman við þetta allt er Hrunið sem sannarlega var áfall og enn hefur ekki verið unnið almennilega úr, því reiðin kraumar, heiftin logar enn.

Sagan hefst á því að Bensi er andvaka og sér ljós í íbúð móður sinnar sem býr í húsinu á móti. Þau taka tal saman, um þetta síðdegi sem breytti öllu, síðdegið þegar Magga hvarf  meðan foreldrarnir brugðu sér af bæ. Samtal þeirra er tvær klukkustundir af sögutíma, tæpar 100 blaðsíður af upprifjun, ættarsögu  og vangaveltum og hefði ekki mátt vera lengra því það eru takmörk fyrir því hvað maður þolir af angistinni.

Tíminn færir mann doða

Örvænting móðurinnar er nístandi, er eitthvað verra hlutskipti til en að barnið manns sé týnt? „Fyrst eftir að Magga hvarf hugsaði ég ekki um neitt nema hana. Kemur það ekki fyrir þig að þú hugsir bara um það sem þér finnst sárast? Ég hugsaði um hnésbæturnar á henni og kvefin sem hún fékk eftir tjaldgistingarnar ykkar í garðinum. Þannig hugsaði ég árum saman. Um framtennurnar hennar sem voru hálfkomnar niður og fengu aldrei að ná réttri stærð. Það tekur frá manni vitið að hugsa þannig og maður leyfir sér bara að verða brjálaður, áður en kerfið færir manni hugtökin og atferlismeðferðirnar og nútíminn sér loks aumur á manni og vill fara að lækna í manni þráhyggjuna og allt hitt sem maður er greindur með. Maður er ennþá brjálaður. Tíminn færir manni bara doða og svo hefur maður pillurnar“ (45).

Sorgin sjatnar

Sorgin mótar fólk, bæði þá sem stóðu litlu stúlkunni næst og líka þá sem tengjast þeim síðar; óvissan um hvarf hennar er eins og djöfulleg mara, þrungin lygum og leyndarmálum. Á að leyfa sorginni að sjatna, á að viðhalda henni, á hún að fá að dafna og breyta fólki, gera það að því sem það er? Þessum spurningum er velt upp á nærfærinn hátt, þetta er einn þráður sögunnar en þeir eru nokkrir.

Valla, konan hans Bensa, er læknir á Landspítalanum. Hún hefur í gegnum árin samsamað sig þessu ástandi í fjölskyldunni. Hún speglar aðra hlið á Bensa, um leið og dregin er upp mynd af, tjah, góðu hjónabandi og hún er líka rödd „Góða fólksins“ sem kallað er. En bréf hennar til miðils um vandræði í hjónabandinu er nú aðeins of mikið, draumar og fyrirboðar passa ekki alveg inn í þessa vísindaskáldsögu.  Valla er orðin langþreytt á að gefa allt en hann ekkert (187), úrkula vonar um að hann drullist til að gera alvöru atrennu að hamingjunni (187) og hætti að skilgreina allt í tætlur. Það er Valla sem gefur hrynfastan tón um góðærin, hlutina og vitleysuna sem fólk eltist við (202):

„Gullhúðaðar ískúlur, fluguhjól og flöskuborð og staðsetningartæki í bíla fyrir fólk sem rataði ekki heim til sín.  Þetta var allt sýning. Öll dekkuðu borðin og drifin í bílunum og draslið.  Allar merkjavörurnar og yfirborðið og flóttinn og tískutímaritin og tannlýsingarnar…Henni leiddust Lexusarnir og snjallsímarnir og snekkjurnar sem lágu úti á Flóa þegar byrjaði að vora. Hún þoldi illa vælið í ríku viðskiptadrengjunum sem Bensi þekkti yfir því að það væru ekki nógu smart hótel í Reykjavík til að fóstra öll milljarðabörnin sem komust ekki á klósett með Philippe Starck-krana, fólkið sem flúði raunveruleikann með því að húkka einn fisk upp með flugustöng upp úr einhverri laxveiðiá fyrir milljón. Þetta var svo brjálað…“ (203-4).

Á bak við fortíðina er önnur fortíð

En útrásarvíkingurinn Bensi komst í gegnum Hrunið á sjarmanum. Hann fékk fjölmiðla í lið með sér, hann var góði gæinn en samt  sakbitinn, svefnlaus og þrúgaður af áhyggjum.

Hann líður áfram eins og í draumi, hann er alveg að fara að vakna og gera eitthvað í sínum málum, rækta sambandið við fjölskylduna, sýna Völlu ást sína, ef það er ekki orðið of seint? Verður hann einhvern tímann frjáls undan fortíðinni? Það er stefið sem gengur í gegnum alla bókina: „Á bakvið  hverja fortíð er alltaf önnur fortíð.“

Flókin og vel smíðuð persóna

Sorgin og sektarkenndin sitja um Bensa, nú er hann svo þreyttur að  hann heldur varla haus. Stund sannleikans er runnin upp og þetta verður þungbært, hann ætlar loksins að segja allri fjölskyldunni það sem hann veit um hvarfið, um það sem hann hefur íþyngt honum alla ævi. Hann er flókin og vel smíðuð persóna, mann langar mest að þrífa í öxlina á honum.

Bókin skiptist í þrjá hluta, fyrst er samtalið við móðurina og föðurinn þar sem spennan er byggð upp og persónur kynntar til leiks, loks fær Valla sviðið um stund áður en margboðaður minningarkvöldverður hefst og endar… best að segja ekki meir. Kaflaheitin eru setningar úr textanum, það er fallegt.

Leikur í höndunum á höfundi

Sölvi Björn Sigurðsson hefur sýnt að hann er þjóðhagur á flest bókmenntaform. Hann hefur frumsamið og þýtt, laust mál og bundið, notað gamlan efnivið og nýjan. Og allt þetta leikur í höndunum á honum. Þetta er fersk og áræðin saga. Það er vissulega frískandi að fá smá vísinda-sálfræði-glæpa- sögubragð á tunguna.  Njósnir eru í raun ekki einu sinni ótrúlegar, hefur ekki komið í ljós að hér á landi var njósnað og hlerað eins og annars staðar?

Hver er glæpurinn?

Blómið er saga um glæp. Hver er svo glæpurinn? Að fremja afbrotið eða þegja yfir því? Hvað er Blómið? Enginn skilur það nema sá sem lifir í því. Það staflar tímanum í hillu…  segir í bókinni (163), það er eitthvað æðra sem maðurinn sækist eftir. Alheimsviska, auður, völd, ást? En sú spurning vaknar, er okkur alveg sama hvað það kostar?

Glæpurinn mikli upplýsist ekki fyrr en á síðustu blaðsíðunum. Þá er allt á heljarþröm, það hlýtur að vera meira í vændum, blómið á eftir að springa út, kannski er þetta framhaldssaga? „Þetta er dalurinn hans Rexa,“ sagði hann [Pétur]. „Þar sem næsti kafli sögunnar gerist. Við verðum að hafa betur gegn honum. Þú verður með mér í því, Bensi, ekki satt? Eins og alltaf?“ (286)

Hið illa er ennþá þarna úti.

Steinunn Inga Óttarsdóttur gagnrýndi Blómið – sögu um glæp, í Víðsjá.

28. desember 2016

Fjarveran

Forlagið

Forlagið

Nördaþríleiknum hans Braga Ólafssonar lýkur nú með Fjarverunni (2012) að talið er. Aðalpersónan Ármann Valur tengist Gæludýrunum  frá 2001 og kannast við fólkið úr Sendiherranum (2006) og Handritinu (2010). Ármann V er prófarkarlesari og fær próförk að sögu þar sem sagt er frá atburðum sem gerðust í Gæludýrunum og honum er þar sjálfum lýst af gestgjafanum sem var reyndar fjarverandi. Sjálfur er hann svo að skrifa bók undir dulnefni. Hann stendur í stappi við íbúana í stigaganginum, hittir vini sína og kunningja en reynir líka að forðast þá því helst vill hann vera í friði. Hann klúðrar sambandi við dóttur sína, skreppur til Akureyrar, fantaserar um heillandi konu en kemur sér ekki að verki, gruflar í gömlu sakamáli o.fl. Skáldsagnavefur Braga er með þræði í ýmsar áttir, í algerum hægagangi líður lífið áfram í sérstöku raunsæi sínu, engin stórátök verða nema þegar einhver deyr eða dettur í það. Stíllinn er ljúfur og fallegur og fyndinn, sagan þokast áfram, persónurnar spjalla, fá sér brauðsneið, koma séri í klípu og neyðarlegar aðstæður eða skrifa bréf í rólegheitum. Bragi hefur löngum glímt við tímann í verkum sínum og svo er einnig hér. Tíminn fer í hringi, sögumaður tínir til ýmsar upplýsingar sem munu koma fram síðar og tengir sig við tíma sem hann hefur alvald á. Sérstakt er að sögupersónurnar eru komnar af léttasta skeiði eða á sjötugsaldur en ekki er úr þeim allur kraftur því sjálfur segir höfundurinn í Víðsjá að hann sé ekki alveg búinn að segja skilið við þær. Hann er þó búinn að drepa nokkrar og er dauðinn í sögunni illa lyktandi, einmanalegur og pínlegur. Það hlýtur að vera yndislegt að skrifa svona bók, nostra við hana, vefa hana úr gömlu og nýju efni, tengja og pæla og láta fólk hrekjast og mæta hversdagslegum örlögum sínum. Og mér fannst yndislegt að lesa þessa bók þótt örlög Ármanns og Estherar séu býsna nöturleg en svona er lífið – og dauðinn.