„Skýr afstaða er tekin í sögunni gegn ofbeldi í hvaða mynd sem það birtist, hvort sem það er yfirgangur freka karlsins, ofbeldi gagnvart náttúrunni eða andleg kúgun í hjónabandi. En hér hefði þurft að skerpa verulega á,“ segir bókarýnir Víðsjár um Undirferli eftir Oddnýju Eir Ævarsdóttur.
Skáldsagan Undirferli eftir Oddnýju Eiri Ævarsdóttur er undirförul í sjálfri sér því hún ögrar ýmsum viðteknum formhugmyndum á lúmskan hátt. Byggingin er frumleg og það er ekki um eiginlegan sögumann eða -þráð að ræða. Rammi sögunnar er yfirheyrsla þar sem frásagnir persónanna eru skráðar orðrétt eða hljóðritaðar og viðmælandinn er óþekktur; fyrst lögreglukona í Vestmannaeyjum og síðan starfsmaður Sálgæslu Íslands með persónurnar í þerapíu eftir áfall og streituröskun.
Rödd aðalpersónanna, Írisar og Smára, starfsmanna í mikilvægri veirurannsókn í Surtsey, berst í gegnum formleg viðtöl við fagfólkið enda sitja þau skötuhjú í gæsluvarðhaldi framan af sögu. Íris bregst illa við þessum aðstæðum en Smári er léttur á því og þvælir lögreglunni í útúrdúra og langhunda í yfirheyrslunni: „Ég hugsa að allegórían sé ekki besta leiðin til að komast sem fyrst út úr fangelsi en ég segi eins og gríski stóuspekingurinn Epiktet: Ég er að reyna að verða andlega frjáls“ (109). Ólík viðbrögð þeirra Írisar og Smára við inngripi yfirvalda varpa ljósi á karakterana, brotakenndur vitnisburður raðast hægt saman og afhjúpar eðli þeirra og ástríður. Óvenjuleg og spennandi nálgun sem býður upp á marga möguleika en skapar líka þá hættu að persónurnar verði fjarlægar. Þetta svínvirkar framan af en missir dampinn í seinni hluta bókarinnar.
Trúverðug mynd af andlegu ofbeldi
Aron, fyrrverandi eiginmaður Írisar og núverandi yfirmaður þeirra Smára, og kona hans, Sara, eru mikilvægar persónur en stíga aldrei fram í sögunni. Smári og Íris þurfa að svara fyrirspurnum um þau en eru kannski ekki alveg áreiðanlegir heimildarmenn. En ef treysta má frásögn Írisar er Aron hið versta fól. Hann er eins og veira sem treður sér inn í frumu þar til hún sýkist, missir máttinn og verður varnarlaus, svo notað sé myndmál sögunnar sjálfrar. Samband þeirra Arons og Írisar snerist upp í andlegt ofbeldi og magnaðir kaflar eins og Paranoja og Rangfærslur draga upp einkar raunverulega og trúverðuga mynd af því. Mjög áhugavert efni og vel farið með það.
Undirtexti Undirferlis sem vísað er í formlega fremst í bókinni er sérkennileg ritgerð sem heitir Brísingamen Freyju (1948) eftir höfund sem kallar sig Skugga. Sá er líklega Jochum M. Eggertsson (1896–1966), lítt kunnur rithöfundur og þýðandi sem skrifaði allnokkrar bækur og gaf út á eigin kostnað, hann starfaði að ýmsu, meðal annars ostagerð og dvaldi víða. Greinilegt er að ritsmíðin hefur haft mikil áhrif á höfund því þar eru settar fram ýmsar óvenjulegar hugmyndir um guðdóm, náttúru og landnám sem ganga svo aftur í Undirferli. Hið fræga Brísingamen Freyju verður að tákni fyrir eilífa hringrás, ást og frið í fullkomnum heimi.
Grasafræði og galdrar
Surtsey er miðja frásagnarinnar enda gjöfult tákn fyrir ósnortið land, framtíð og nýtt upphaf en líka fyrir ragnarrök, svik, varnarleysi og viðkvæmni. Það eru fleiri tákn og tengingar úr verkinu útí kosmósið, flúr og vísanir út um allt, s.s. í goðafræði, jarðfræði, veirufræði, grasafræði og galdra. Smári hefur fundið upp og smíðað einhvers konar mælitæki á innsæi, heilindi og ást og þau áhrif sem áföll hafa á sál og líkama. Það vekur upp spurningar um hvort hægt sé að mæla allt, hvort vísindin efli alla dáð og séu alltaf svarið við áleitnum spurningum um framtíðina. Eða eigum við að líta til goðsagna og hverfa aftur til náttúrunnar?
Goðsagnir eru ríkulegur efniviður til túlkunar og skapandi úrvinnslu. Í Gunnlaðar sögu eftir Svövu Jakobsdóttur (1990) er norræna goðsagan um sköpun og skipan heimsins endurskoðuð og endurskrifuð út frá hugmyndum um ævafornt og friðsamt mæðraveldi sem bjó yfir djúpri visku og skáldskap sem karlar hrifsuðu svo til sín, með undirferli. Oddný Eir er á svipuðum nótum og Svava og fær nú frjósemisgyðjan Freyja nýja rödd. Í Lokasennu Eddukvæða sagði Loki Freyju að þegja og lýsti henni sem vergjarnri fordæðu en sú ímynd hefur loðað við hana í árþúsundir. Höfundur ræðst gegn þessari karllægu túlkun, molar hinn mosavaxna bautastein og reisir nýjan þar sem Freyja er framsýnn friðarsinni og mögnuð hetja.
Andríkið ber söguna ofurliði
En einhvern veginn gengur þetta ekki upp. Goðfræðileg tenging verksins er of háfleyg og yfirdrifin. Yfirheyrsluformið er skemmtilegt og ögrandi en sakamálafléttan er einföld og raknar svo óvænt upp. Hugmynd um veirur sem valda siðleysi og ofstæki er bragðlaus og vampírukenningar eru settar fram í hálfkæringi (80-81) en vissulega eru vampírur talandi dæmi um það ofbeldi og sníkjulífi sem sagan lýsir og fordæmir.
Skýr afstaða er tekin í sögunni gegn ofbeldi í hvaða mynd sem það birtist, hvort sem það er yfirgangur freka karlsins, ofbeldi gagnvart náttúrunni eða andleg kúgun í hjónabandi. En hér hefði þurft að skerpa verulega á. Knýjandi málefni og fallegar hugsjónir um ást og frelsi drukkna í flaumnum, táknin ryðjast hvert um annað þvert, sum úr flóru Íslands, önnur úr ritningunni eða fornum kveðskap, andstæðar hugmyndir vella fram eins og hraunstraumur sem kvíslast eftir giljum og skorningum en loks sameinast góðu öflin gegn hinum illu í tákrænni athöfn í paradís Surtseyjar sem persónurnar sveima yfir í þyrlu talandi tungum. Það verður að segjast að mystíkin, andríkið og boðskapurinn bera söguna ofurliði.