Oddný Eir Ævarsdóttir

Forminu ögrað á lúmskan hátt

download (1).jpeg

„Skýr afstaða er tekin í sögunni gegn ofbeldi í hvaða mynd sem það birtist, hvort sem það er yfirgangur freka karlsins, ofbeldi gagnvart náttúrunni eða andleg kúgun í hjónabandi. En hér hefði þurft að skerpa verulega á,“ segir bókarýnir Víðsjár um Undirferli eftir Oddnýju Eir Ævarsdóttur.

Skáldsagan Undirferli eftir Oddnýju Eiri Ævarsdóttur er undirförul í sjálfri sér því hún ögrar ýmsum viðteknum formhugmyndum á lúmskan hátt. Byggingin er frumleg og það er ekki um eiginlegan sögumann eða -þráð að ræða. Rammi sögunnar er yfirheyrsla þar sem frásagnir persónanna eru skráðar orðrétt eða hljóðritaðar og viðmælandinn er óþekktur; fyrst lögreglukona í Vestmannaeyjum og síðan starfsmaður Sálgæslu Íslands með persónurnar í þerapíu eftir áfall og streituröskun.

Rödd aðalpersónanna, Írisar og Smára, starfsmanna í mikilvægri veirurannsókn í Surtsey, berst í gegnum formleg viðtöl við fagfólkið enda sitja þau skötuhjú í gæsluvarðhaldi framan af sögu. Íris bregst illa við þessum aðstæðum en Smári er léttur á því og þvælir lögreglunni í útúrdúra og langhunda í yfirheyrslunni: „Ég hugsa að allegórían sé ekki besta leiðin til að komast sem fyrst út úr fangelsi en ég segi eins og gríski stóuspekingurinn Epiktet: Ég er að reyna að verða andlega frjáls“ (109). Ólík viðbrögð þeirra Írisar og Smára við inngripi yfirvalda varpa ljósi á karakterana, brotakenndur vitnisburður raðast hægt saman og afhjúpar eðli þeirra og ástríður. Óvenjuleg og spennandi nálgun sem býður upp á marga möguleika en skapar líka þá hættu að persónurnar verði fjarlægar. Þetta svínvirkar framan af en missir dampinn í seinni hluta bókarinnar.

Trúverðug mynd af andlegu ofbeldi

Aron, fyrrverandi eiginmaður Írisar og núverandi yfirmaður þeirra Smára, og kona hans, Sara, eru mikilvægar persónur en stíga aldrei fram í sögunni. Smári og Íris þurfa að svara fyrirspurnum um þau en eru kannski ekki alveg áreiðanlegir heimildarmenn. En ef treysta má frásögn Írisar er Aron hið versta fól. Hann er eins og veira sem treður sér inn í frumu þar til hún sýkist, missir máttinn og verður varnarlaus, svo notað sé myndmál sögunnar sjálfrar. Samband þeirra Arons og Írisar snerist upp í andlegt ofbeldi og magnaðir kaflar eins og Paranoja og Rangfærslur draga upp einkar raunverulega og trúverðuga mynd af því. Mjög áhugavert efni og vel farið með það.

Undirtexti Undirferlis sem vísað er í formlega fremst í bókinni er sérkennileg ritgerð sem heitir  Brísingamen Freyju (1948) eftir höfund sem kallar sig Skugga. Sá er líklega Jochum M. Eggertsson (1896–1966), lítt kunnur rithöfundur og þýðandi sem skrifaði allnokkrar bækur og gaf út á eigin kostnað, hann starfaði að ýmsu, meðal annars ostagerð og dvaldi víða. Greinilegt er að ritsmíðin hefur haft mikil áhrif á höfund því þar eru settar fram ýmsar óvenjulegar hugmyndir um guðdóm, náttúru og landnám sem ganga svo aftur í Undirferli. Hið fræga Brísingamen Freyju verður að tákni fyrir eilífa hringrás, ást og frið í fullkomnum heimi.

Grasafræði og galdrar

Surtsey er miðja frásagnarinnar enda gjöfult tákn fyrir ósnortið land, framtíð og nýtt upphaf en líka fyrir ragnarrök, svik, varnarleysi og viðkvæmni. Það eru fleiri tákn og tengingar úr verkinu útí kosmósið, flúr og vísanir út um allt,  s.s. í goðafræði, jarðfræði, veirufræði, grasafræði og galdra. Smári hefur fundið upp og smíðað einhvers konar mælitæki á innsæi, heilindi og ást og þau áhrif sem áföll hafa á sál og líkama. Það vekur upp spurningar um hvort hægt sé að mæla allt, hvort vísindin efli alla dáð og séu alltaf svarið við áleitnum spurningum um framtíðina. Eða eigum við að líta til goðsagna og hverfa aftur til náttúrunnar?

Goðsagnir eru ríkulegur efniviður til túlkunar og skapandi úrvinnslu. Í Gunnlaðar sögu eftir Svövu Jakobsdóttur (1990) er norræna goðsagan um sköpun og skipan heimsins endurskoðuð og endurskrifuð út frá hugmyndum um ævafornt og friðsamt mæðraveldi sem bjó yfir djúpri visku og skáldskap sem karlar hrifsuðu svo til sín, með undirferli. Oddný Eir er á svipuðum nótum og Svava og fær nú frjósemisgyðjan Freyja nýja rödd. Í Lokasennu Eddukvæða sagði Loki Freyju að þegja og lýsti henni sem vergjarnri fordæðu en sú ímynd hefur loðað við hana í árþúsundir. Höfundur ræðst gegn þessari karllægu túlkun, molar hinn mosavaxna bautastein og reisir nýjan þar sem Freyja er framsýnn friðarsinni og mögnuð hetja.

Andríkið ber söguna ofurliði

En einhvern veginn gengur þetta ekki upp. Goðfræðileg tenging verksins er of háfleyg og yfirdrifin. Yfirheyrsluformið er skemmtilegt og ögrandi en sakamálafléttan er einföld og raknar svo óvænt upp. Hugmynd um veirur sem valda siðleysi og ofstæki er bragðlaus og vampírukenningar eru settar fram í hálfkæringi (80-81) en vissulega eru vampírur talandi dæmi um það ofbeldi og sníkjulífi sem sagan lýsir og fordæmir.

Skýr afstaða er tekin í sögunni gegn ofbeldi í hvaða mynd sem það birtist, hvort sem það er yfirgangur freka karlsins, ofbeldi gagnvart náttúrunni eða andleg kúgun í hjónabandi. En hér hefði þurft að skerpa verulega á. Knýjandi málefni og fallegar hugsjónir um ást og frelsi drukkna í flaumnum, táknin ryðjast hvert um annað þvert, sum úr flóru Íslands, önnur úr ritningunni eða fornum kveðskap, andstæðar hugmyndir vella fram eins og hraunstraumur sem kvíslast eftir giljum og skorningum en loks sameinast góðu öflin gegn hinum illu í tákrænni athöfn í paradís Surtseyjar sem persónurnar sveima yfir í þyrlu talandi tungum. Það verður að segjast að mystíkin, andríkið og boðskapurinn bera söguna ofurliði.

Víðsjá, 15. janúar 2018

Kátt sæði óskast

download

Blátt blóð, í leit að kátu sæði eftir Oddnýju Eir er gullfalleg bók hvar sem á hana er litið. Hún er í litlu broti, fallegur og eigulegur prentgripur, með bláu letri og bláum millisíðum, þunnum pappír, óvenjulegri leturgerð og stílhreinni og táknrænni bókarkápu með margræðum titli. Innihaldið er einnig fagurt, ljóðrænt, sárt, berort og fyndið. Formið er svokölluð esseyja, frekar sjaldséð bókmenntaform sem er eiginlega hvorki skáldsaga, smásaga né ritgerð en líkist þeim systrum sínum samt. Þetta er afmarkað verk, persónulegt og knappt, aðeins rúmar hundrað síður. Yfirlýstur tilgangur sögumanns er að ljá langvinnum og misheppnuðum tilraunum sínum til að bæta úr barnleysi einhverja merkingu. Þemað er femínískt, fjallað er um egglos, getnað, meðgöngu, móðurhlutverk og fjölskylduform, hið kvenlega og karllega í lífinu. Verkið er afar persónulegt, aðalsöguhetjan er greinilega Oddný sjálf og hún er bæði einlæg í frásögn sinni og harla miskunnarlaus við sjálfa sig. Hún lýsir biturleika sínum og sorg hispurslaust, og ást sinni, vonum og heitri þrá af slíkri einlægni að það hrærir viðkvæmar sálir:

„Rétt áður en ég sofnaði með munúðina enn í mér óskaði ég þess að það hefði orðið getnaður. Ég hafði óskað þess áður. Oft. Alltaf. Að eitthvað yrði til þess að sæðið streymdi kátt og frjótt inn í kvið minn, að blóð okkar blandaðist og ég fengi að sjá hann glaðan sinna barninu sínu, kenna því fuglamálið og hundamálið og öll hin málin sem hann einn skildi“ (56).

Verkið skiptist upp í stutta og áhrifaríka kafla, sem heita t.d. Karlmennskan, Kvenleikinn, Fullnægingar, Játningar, Séfferhundur, Bænaduft, Kvika…  Allt snýst um að verða barnshafandi og margvíslegra skýringa er leitað þegar það gengur ekki. Örvæntingin grípur kærustuparið heljartökum. Svo ótal margt minnir á það sem upp á vantar til að verða „venjuleg fjölskylda“ að það verður óbærilegt.  Sambýlismaðurinn gengur líka í gegnum þjáningar vegna þessa og svo hart er gengið fram að brátt þolir parið ekki álagið lengur. Ófrjóseminni í sambandinu fylgja ásakanir, skömm, missir og sársauki sem lýst er einstaklega fallega og blátt áfram. Í bókarlok vakna bjartar vonir til þess eins að deyja og þá er ekkert orðið eftir nema uppgjöf, en líka sátt og það eftirsóknarverða ástand að vænta einskis og verða þannig frjáls. Blátt blóð er bæði listileg og lostafull bók sem þarf að liggja á hverju náttborði.

Birt í Kvennablaðinu, 20. maí 2015

Ástin, taflið og tungumálið

Astarmeistarinn-175x260

Anna og Fjölnir sem bæði hafa  lent í hrakningum á vegum ástarinnar rekast af tilviljun hvort á annað í hinni fögru Grímsey. Það væri kannski alveg tilvalið að þau þreifuðu fyrir sér en í staðinn veðja þau sín á milli um ástina, að þau hvort í sínu lagi finni ástarmeistara sem getur kennt þeim að elska, án ótta. Leiðir skilja og veðmálið gengur út á að í  hvert sinn sem þau hitta einhvern sem gæti verið meistari í ást skrifa þau hvort öðru bréf og í hverju bréfi er einn leikur í skák. En er einhver íþrótt eins langt frá því að vera sexí? Annað kemur á daginn, bókin löðrar í daðri og erótík, myndmálið er ferskt, textinn á fallegu tungumáli og snilldartaktar í hörkuspennandi  skák, sem svo sannarlega hefur aldrei verið tefld áður, kóróna verkið.

Ástarmeistarinn er fjórða skáldsaga Oddnýjar Eirar en hún hefur hlotið verðskuldaða athygli fyrir verk sín. Rauði þráðurinn í þessari bók er leitin að grundvelli ástarinnar, reynt er að skilja ástina í öllum sínum margvíslegu myndum og fjalla um sambandið milli ástar, valds og tungumáls. Fyrri hluti bókarinnar samanstendur af bréfum og skákleikjum og smátt og smátt kynnast skötuhjúin betur og takast á við bælingu sína, skömm, höfnunarótta og ástarfælni. Minningar streyma fram, draumar eru raktir og ráðnir, de Sade kemur m.a. við sögu ásamt ástkonunum frægu, þeim Önnu Karenínu og Önnu frá Stóru-Borg; Nietzsche og Simone de Beauvoir svífa yfir og heimsfrægar skákkonur skjóta upp kolli. Í seinni hlutanum dregur til tíðinda og ástarmeistararnir birtast með kenningar sínar og kynþokka. Öllu ægir saman í sjóðandi ástarpotti þar sem kynorkan vellur og kraumar svo úr verður ögrandi texti, heillandi persónur og hugljúf atburðarás.

Anna og Fjölnir birtast sem venjulegar og breyskar manneskjur. Fjölnir er bangsalegur útbrunninn sálfræðingur, grimmur „fræðarefur“ (20). Hann hefur unun af að leika sér með orð og hugmyndir, er jarðbundinn og leitandi og hefur farið illa út úr hjónabandi. Hluta sögunnar dvelur hann við rannsóknir og ritstörf í Odda en þangað barst einmitt skákin fyrst til Íslands (135)! Krísa hans felst m.a. í því að hann er í biðstöðu í lífinu og konur virðast elska hann annaðhvort bara sem elskhuga eða andlegan bróður. Hann er orðinn þreyttur á  að veita fagleg ráð og sýna skilning. Hann þráir að vera elskaður og að verða meiri karlmaður en menntamaður.

Anna er heilari, jógaiðkandi og nýaldarsinni, stöðnuð í einsemd og framan af sögu er hún ansi forn í háttum. Þegar hún heimsækir Fjölni í Odda hugsar hún með sér hvort hún sé hrifin af honum og hvers vegna „skyldi hún þá ekki gefast honum?“  sem er furðulega gamaldags hugsun. Hún óttast mest að geta aldrei elskað framar en þegar hún stígur yfir sín eigin mörk með hinum unga og graða Einari, verður hún frjáls, eins og laus undan aldagömlu oki. Tungumál kynlífs þeirra vísar í bókmenntir frá fyrri hluta síðustu aldar, hér er komin samfarasenan sem aldrei var skrifuð í Önnu frá Stóru-Borg. Myndmálið tengist allt smiðjunni þar sem ástarfundurinn fer fram, járnið er hamrað, kraftmikil kvika breytist í sindrandi gjall, „limurinn enn beinstífur eins og nýhert stál“ og snípurinn eins og nýsmíðaður koparhnappur (176-7).  Tungumálinu er beitt á óvenjulegan og skapandi hátt svo úr verður nýtt ástarmál. Fleiri kynlífssenur eru svona fallegar en spurning vaknar um hvort ekki megi segja typpi og píka í bók? Limur og sköp verða að teljast frekar tepruleg orð í frumlegri og ögrandi skáldsögu á 21. öld.

Tafl er líkt og ástin tveggja manna spil (114). Ástin er valdatafl og spennan milli Önnu og Fjölnis vex eftir því sem líður á söguna, getur þetta endað vel? Þegar Fjölnir býður Önnu jafntefli er hún með unnið tafl. Hún er drottning ástarinnar, hún hefur leyst orku úr læðingi og sigrast á óttanum.  En hver er þá kóngurinn? Það er nóg um að hugsa  eftir lestur þessarar afbragðsgóðu bókar. Er til ást án einurðar? Eru hugur og  hjarta eitt? Er hægt að elska án ótta? Ryður ástin sársaukanum burt? Ástarmeistarinn svarar  brennandi spurningum æstra lesenda á sinn hátt, látið hann ekki framhjá ykkur fara.