Skyldulesning fyrir allar manneskjur

Veistu, elsku Sigga, segir Noor á sinni hljómfögru arabísku og klappar Siggu á handarbakið. Veistu, að Sýrlendingar fundu upp brauðið, piparinn, silkið og líka ljóðin og siðmenninguna. Til hvers ætti ég að læra svona pínulítið tungumál? Hver skilur mig ef ég fer út fyrir þennan klett í hafinu? Þrjú hundruð og fjörutíu þúsund manns tala krílamálið þitt. Hún bandar vísifingri framan í Siggu til að leggja áherslu á orð sín. Þrjú hundruð og fjörutíu þúsund! Það eru jafnmargir og búið er að myrða í stríðinu í Sýrlandi
(114).

Kallið mig Ishmael

Það sem helst brennur á öllum hugsandi manneskjum nú á dögum er að 66 milljónir manna eru á flótta frá heimilum sínum. Meira en helmingur þessa fólks er yngri en 18 ára.

Í nýrri bók Kristínar Helgu Gunnarsdóttur, Vertu ósýnilegur, er sagt frá Ishmael, 15 ára strák sem er á flótta frá Sýrlandi ásamt afa sínum en þeir eru einir eftirlifandi úr fjölskyldunni. Hann er barn, þótt hann sé búinn að gleyma því og fær martraðir á hverri nóttu (221). Samtímis vindur fram frásögn af sýrlenskri fjölskyldu sem er nýlega sest að í Kópavogi eftir að hafa hrökklast frá Aleppo, farið fótgangandi mörg þúsund kólómetra, gist hjá ættingjum og gengið á milli skrifstofa, staðið í röðum, fyllt út umsóknir og talað við ráðþrota skrifstofufólk og sjálfboðaliða (179).

Salí (eða Selma) er á svipuðu reki og Ishmael, hún er að fóta sig í nýrri tilveru á Íslandi, bræða saman erfiða lífsreynslu af stríði og dauða, sýrlenskt uppeldi og siði hins nýja vestræna samfélags. Sjónarhornið er til skiptis hjá þessum persónum sem kljást við ólíka hluti í lífinu. Hver kafli er merktur tilvitnun í Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðannasem fellur eins og flís að efninu og minnir okkur á hvað mannkærleikur er, t.d. „Allir eru bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum“ og „Allir eiga rétt til lífs, frelsis og mannhelgi“.

Í götóttum björgunarvestum

Í ljóði sem Salí/Selma laumast til að yrkja, birtast skýrar andstæður sem varpa nöturlega skýru ljósi á misskiptingu láns og grimman veruleika:

Allir glaðir í glerkúlunni

fjölskylda leikur sér við bjálkahús

með gluggahlerum og rauðum hjörtum.

Blár fugl, héri og snjókarl í skógi

glerkúlan hristist

glitflögur falla

kona brosir

karl veifar

drengur með snjóbolta

stúlka á sleða.

Og glitflögur falla

þær þyrlast um í vatninu

glerkúlan brestur

hjúpurinn springur

vatn seytlar út

fuglinn gránar

plastflögur liggja.

Fjölskyldan flýr inni í húsið

hurð er læst

gluggahlerar skella aftur

húsið marar í hálfu kafi.

Í mórauðu plastflöguvatni

fljóta lífvana börn upp að tröppum

í götóttum björgunarvestum.

Inni er hækkað í tónlistinni og poppað

(232)

Skyldulesning fyrir alla

Kristín Helga Gunnarsdóttir er einn af okkar ástsælustu rithöfundum og hefur hlotið margvísleg verðlaun fyrir bækur sínar sem hún skrifar fyrir börn og unglinga. Nú í ár eru tveir áratugir frá því að fyrsta bók hennar kom út og allir þekkja þær stöllur Binnu, Fíusól og Strandanornir; hressar stelpur með frumkvæði og sjálfstæðar skoðanir. Ishmael og Salí/Selma munu líka hitta lesendur í hjartastað. Og hafi einhvern tímann verið mikilvægt að skrifa bækur fyrir ungan lesendahóp þá er það núna þegar „krílamálið“ íslenska á í vök að verjast og hnignar með degi hverjum.

Ég leyfi mér að segja að þessi bók Kristínar Helgu sé skyldulesning fyrir allar manneskjur. Að baki henni liggur þó nokkur rannsóknarvinna sem skilar sér í trúverðugum efnistökum, hún er á þjálu og lipru máli, einkennist af samhug og mannskilningi og fjallar um brýnt mál sem varðar heimsbyggðina alla – þar sem við Íslendingar getum svo sannarlega lagt af mörkum.

 

Birt í Kvennablaðinu, 6. desember 2017

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s