Í gruggugum lögum ólgandi mannhafsins

Það er allt á suðupunkti í Hinum smánuðu og svívirtu, 514 blaðsíðna skáldsögu rússneska skáldjöfursins Fjodors Dostojvevskís (1821-1881), sem út kom á dögunum hjá Forlaginu. Sagan birtist fyrst árið 1861 sem framhaldssaga í tímariti í heimalandinu eins og fleiri sögur Dostojevskís. Þetta er ein af fyrstu skáldsögum meistarans, sem um þessar mundir var í fjárhagskröggum vegna spilafíknar og átti ástríðufulla ástkonu en hafði ekki enn kynnst Önnu Snitkínu, hraðritara, sem varð eiginkona hans og tryggði honum vinnufrið og sálarró til dauðadags. Hann hafði afplánað pyndingar og fangavist í Síberíu og horfst í augu við aftökusveit en lét engan bilbug á sér finna og tók að hamast við að skrifa sígildar heimsbókmenntir.

 

Grugg mannhafsins

Saga þessi gerist í St. Pétursborg á nítjándu öld þar sem örlög fursta og fagurra kvenna, róna og ráðsmanna, flogaveikra unglinga og furðufugla fléttast saman í þessu kostulega og margradda verki. Titill sögunnar er eins konar ranghverfa á hinu fagra og háleita, boðskap rómantíkurinnar sem var allsráðandi í bókmenntum á ritunartímanum. Andstæður milli stétta eru skýrar og sjónum er beint að smælingjum sem hrekjast og svelta meðan ríka fólkið gerir sér að leik að smána þá og svívirða.

„Myrk var hún, þessi saga: ein af þeim drungalegu og átakanlegu sögum sem eiga sér iðulega stað undir þungbúnum himni Pétursborgar en fara lágt, eru svo sjaldan færðar til bókar að furðu sætir, i dimmum og dularfullum afkimum þessarar ægilegu borgar, í gruggugum lögum ólgandi mannhafsins, innan um og saman við sljóa sjálfselsku, hagsmunaárekstra, forboðnar nautnir, leynilega glæpi, mitt í þessu svartasta helvíti, þessari glórulausu og öfugsnúnu tilveru…“. (245-246)

Ivan Petrovítsj (eiginlega Jón Pétursson, kallaður Vanja) er aðalpersóna, rithöfundur og sögumaður sem gengur algerlega fram af sér, bæði í því hlutverki og sem sáttasemjari og boðberi. Ást hans á fegurðardísinni Natöshu er óendurgoldin en þrátt fyrir höfnun, fátækt og annir við skriftir þeysist hann á milli fólks og staða og reynir að hafa áhrif á atburðarás sem stefnir öllum í glötun. Hann gengur erinda allra persóna á einn eða annan hátt og undir lokin er hann aðframkominn á spítala, párandi minnisblöð að farast úr sorg og dulrænni sálarangist (76). Bent hefur verið á að sögumaðurinn eigi margt sameiginlegt með Dostojevskí sjálfum (538-541) en persónur hans, sálfræði og sagnaheimur er þannig hannað frá höfundarins hendi að alltaf kemur eitthvað undarlegt upp úr kafinu.

Sápuópera?

Í meðförum meðaljóns væri söguþráður af því tagi sem hér er á ferð í mesta lagi lélegur farsi eða sápuópera. En í mjög stuttu máli gengur sagan út á að Natasha hin fagra og Alosja furstasonur eru elskendur en furstinn ætlar að stía þeim í sundur og fá syninum ríkt kvonfang, þ.e. Kötju sem er hin geðugasta stúlka. Alosja er ístöðulaus strákhvolpur sem elskar alla en særir þá um leið, Natasha vill ekki þvinga hann til neins þótt henni hafi verið útskúfað af foreldrum sínum vegna sambandsins við hann og upphefst nú mikið drama þar sem Vanja reynir að miðla málum sem auðvitað er vonlaust verk. Að auki sest munaðarlaus, fátæk og flogaveik unglingsstúlka upp hjá Vanja sem tekur ekkert eftir því að hún elskar hann bókstaflega út af lífinu. Við sögu koma fleiri magnaðar persónur, nægir að nefna spæjarann slynga og sífulla, Maslobojev, sem er aldeilis spaugilegur, algerlega kominn á flöskubotninn.

Eftirminnilegt illmenni

Mannlýsingar Dostojevskís eru bráðlifandi og meinfyndnar, samtöl eru líka fyndin og afar dramatísk enda verið að brugga ýmis ráð, ræða hugsjónir og þjóðfélagsmál og takast á um skömm, heiður og ást. Persónurnar eru hávaðasamar og heillandi, þær æpa, gráta, baða út öngum, riða á fótunum, engjast af sálarkvölum, fölna og falla í yfirlið. Furstinn er eftirminnilegt illmenni sem fær útrás fyrir valdagræðgi og losta með því að leika sér að tilfinningum fólks. Lífsafstaða hans er kaldranalega ógnvekjandi og hún veður uppi nú, 150 árum síðar: „Það eina sem ekki er kjaftæði – það er einstaklingurinn, ég sjálfur. Allt er falt og heimurinn skapaður fyrir mig“ (366).

Í þessari skáldsögu Dostojevskís eru kvenlýsingar óvenju djúpar og samúðarfullar. Ekki er annað hægt en finna til með Natöshu, sem í senn stolt og niðurbrotin þjáist af nagandi afbrýðisemi og ofurást á Alosja, og dást að Kötju sem tekst á við sára sektarkennd vegna hamingju sinnar á kostnað Natöshu. Og Nellý, munaðarleysinginn sem sest upp hjá Vanja, á í miklu og erfiðu sálarstríði sem lýst er á nærfærinn hátt.

Tekur einhver mark á „Ritaranum“?

Ingibjörg Haraldsdóttir (d. 2016) þýddi sjö þekktustu skáldsögur Dostojevskís úr rússnesku með miklum sóma og var byrjuð á þessari sögu þegar hún varð frá að hverfa vegna veikinda. Gunnar Þorri Pétursson, sem segist í fróðlegum eftirmála vera „lúsugur Rússlandsfari“, tók þá við og það verður að segjast að yfirbragð þýðingarinnar er dálítið annað en maður á að venjast hingað til. Þýðingin er hvorki verri né betri heldur öðruvísi, einhvern veginn hrárri, léttari og nútímalegri en sennilega er sagan það líka á frummálinu. Það er tilhlökkunarefni að fá fleiri þýðingar úr rússnesku frá Gunnari Þorra, þessi hefur kostað býsna yfirlegu en lofar svo sannarlega góðu. Aftast eru ritskýringar sem varpa ljósi á ýmsa frasa, sögulegar staðreyndir og vísanir auk áðurnefnds eftirmála og lista yfir helstu sögupersónur og er það allt þakkarvert og hjálplegt.

Undir lok skáldsögunnar stígur bókmenntagagnrýnandi fram, þ.e. „Ritarinn“ sem fjallar um síðustu skáldsögu Vanja (481) og segir söguna lykta af svita, hún sé skrifuð af alúð og elju, fágun og nostursemi en afraksturinn sé nokkuð tormeltur. Þetta á ágætlega við um Hina smánuðu og svívirtu. En hver tekur sosum mark á bókmenntagagnrýni?

 

Birt í Kvennablaðinu, 29. júní 2018

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s