Torrek Eggharðs

villimadurheader-688x451
„…hlógum brjálæðislega
hlógum dauðann til okkarföðmuðum hann
því við höfðum skilað pundi
dal, krónu, franka
þrjátíu bókum og tveimur sonum

hlógum líf okkar
í sátt

elskan mín
ég þarf ekki að sjá þig eldast
og þú ekki mig
það er svo gott

þú ætíð ungur
ég þér alltaf ung
okkar band
eilíft sumar…“
(14)

 

Í þessu broti úr ljóðinu Panþeon í nýrri ljóðabók Þórunnar J. Valdimarsdóttur tengjast ást, sorg og söknuður á hárfínan og fallegan hátt. Ljóðabókin, sem ber heitið Villimaður í París, er tileinkuð eiginmanni Þórunnar, Eggerti Þór Bernharðssyni. Hann lést sviplega á gamlársdag 2014, „síðasta virka dag árs og lífs“. Hér er því á ferð eins konar torrek „Eggharðs“, þar sem skáldið yrkir sig í þá sátt sem möguleg er, líkt og önnur höfuðskáld forðum eins og frægt er orðið.

Minnisbók og myndavél

Ljóðin tengjast sumardvöl þeirra hjóna í París vorið 2013 þar sem þau rölta grunlaus um götur með minnisbók og myndavél, skoða söfn og sögustaði og virða fyrir sér fjölbreytilegt mannlíf. Ljósmyndir Eggerts prýða ljóðabókina og þær eru einlægar; hvorki fegraðar né fótósjoppaðar. Einnig eru í bókinni kraftmiklar pennatússteikningar eftir Þórunni sjálfa sem byggja á hringformum og fuglsmyndum.

Aldrei staðnað orð

Þórunn hefur margsinnis sýnt að hún hefur tungumálið fullkomlega á valdi sínu. Það sannast enn í þessari bók, í myndmáli, orðaleikjum og frumlegu rími. Ljóðin fjalla ekki bara um sorg og söknuð, sum eru um íslensku sem er „helgust tungna,“ það dugar ekki að hringla með hálflærðar tungur í munninum (37) og varðveita ber íslenskuna sem getur svo auðveldlega dáið út. Ljóðið …í mánaskinibirtir þessa afstöðu skýrt en það hljóðar svo: „yndi að heyra / litla leyniklúbbnum til / íslenskunni / teygi mig djúpt inn í blámann / bak við prentsvertuna / holdtekjur bregða á leik / í bragðasekk lífsins / allt skilur eftir far/ slíttu bara ekki / grunntaugina“ (41).

Dýpt og gáski

Í meðförum Þórunnar fá orðin dýpri merkingu og gáskafullt samhengi, hún þvær „útskitin eðalorð“ (50), skolar af þeim gróm aldanna. Dæmin eru ótal mörg en vert að nefna nokkur sem skína: að skilja eftir hóffar í hundaskít (55), ástin er ljósfluga og sæhestur (51), þokkaskötur og góðhveli (32), mannsamlokur (22) og glös melrósanna (19). Meðan tungumálið er dustað svona hressilega þarf kannski ekki að óttast framtíð þess.

Hestafl sorgar

Eitt af síðustu ljóðum bókarinnar er Hestafl sorgar, gullfallegt og persónulegt og svo sárt að nístir í merg og bein. Sá sem les það þurreygur hefur steinhjarta.

„tólf hestar
frá Breiðabólstöðum
steinbæ Þórunnar ömmu
héldu til heljar rétt fyrir jól
um ístjörn Bessastaðatólf ára systir Snorra á Húsafelli
tekin af Furhmann amtmanni
drukknaði í sömu tjörn
á átjándu öld

„boðar ófögnuð“
sagði ég við Eggharð
sem sat í prestastól
að greiða sítt hár sitt
blautt grásprengt slegið
kvöldið áður en hjartað sprakk

síðasta virka dag árs og lífs

bað um hárblásara
fyrsta og eina sinn
honum var kalt

fagur í kistunni
höfðinginn minn
hefur tólf með til Valhallar
óminnisdjúpið þangað
sannlega dó hann
á vígvelli pennans

sama draumsæi sér
hvernig hann rotnar
við hvítblátt sængurlín
franskar liljur

sorgin sá svarti fnykur
kom úr Faxaflóa
hvítu hryssanna
að sturla mig

Sleipnir
hentist með mig
heim í hjarta lífs
sem er sterkara
en dauðinn“
(75-6)

Hver er villimaður?

Villimaður í París er yndislesning, heildstæð og harmræn blanda af sársauka og sátt. En hver er villimaðurinn? Er það Íslendingurinn sem villist milli fornfrægra kastala og konungshalla sem hvergi er að finna á eyjunni hans? Býr hann í frumeðli mannsins og stingur í stúf í háborg siðmenningarinnar? Eða er sá villimaður sem veit ekki að dauðinn er skammt undan?

Kvennablaðið, 14. júní 2018

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s